Ferill 133. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 133  —  133. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005 (opin gögn).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    7. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Rafræn útgáfa Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs.

    Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað skulu gefin út og þeim dreift gjaldfrjálst á rafrænan hátt. Við rafræna útgáfu skal tryggja öryggi og áreiðanleika birtra upplýsinga og að þær varðveitist á varanlegan hátt og gagnasnið útgáfunnar sé opið og aðgengilegt. Rafrænni útgáfu Lögbirtingablaðs skal hagað þannig, eftir því sem tæknilega er unnt, að komið sé í veg fyrir úrvinnslu og samtengingu persónuupplýsinga sem birtar eru. Við rafræna útgáfu skal útgáfudagur tilgreindur.
    Haga skal útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs þannig að vél- og hugbúnaður sem flestra nýtist. Skulu þeir sem þess óska geta keypt Stjórnartíðindi eða Lögbirtingablað í prentuðu formi í áskrift eða fengið einstök tölublöð send gegn greiðslu kostnaðar af prentun þeirra og sendingu.
    Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað skulu vera aðgengileg á tölvutækan hátt í opinni gagnagátt, t.d. opingogn.is.
    Ráðherra mælir í reglugerð nánar fyrir um rafræna útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs, þar á meðal um gagnaöryggi, varðveislu gagna og persónuvernd.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 148. löggjafarþingi (150. mál) og er nú endurflutt nær óbreytt.
    Með þessari lagabreytingu er verið að gera það að skyldu að Stjórnartíðindum og Lögbirtingablaði verði dreift á rafrænan hátt, að aðgengi að rafrænni útgáfu verði notendum að kostnaðarlausu og að allt sem birt er í þessum ritum skuli vera aðgengilegt á tölvutækan hátt á aðgengilegu og opnu gagnasniði í opinni gagnagátt.