Ferill 137. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 137  —  137. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um sálfræðiþjónustu í fangelsum.


Flm.: Helga Vala Helgadóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að sjá til þess að frá og með 1. janúar 2019 verði að minnsta kosti einn sálfræðingur að jafnaði starfandi í hverju fangelsi á landinu með fasta starfsstöð í viðkomandi fangelsi. Þannig verði föngum tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu innan veggja fangelsanna þeim að kostnaðarlausu. Ráðherra hafi samráð við Fangelsismálastofnun og Sálfræðingafélag Íslands um tilhögun þjónustunnar, m.a. um meðferð sem veitt er, fjölda fanga á hvern sálfræðing o.fl.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 148. löggjafarþingi (470. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt.
    Hjá Fangelsismálastofnun starfa fjórir sálfræðingar í þremur stöðugildum. Sálfræðingarnir sinna áhættu- og þarfamati, sálfræðilegri meðferð, ráðgjöf og stuðningi, starfsemi meðferðarganga á Litla-Hrauni ásamt meðferðarfulltrúa, kennslu, umsjón og uppbyggingu sálfræðistarfs, ráðgjöf innan Fangelsismálastofnunar um einstök mál og rannsóknum. Þeim er ætlað að meta hættuna sem samfélaginu stafar af einstaklingum og þannig huga að almannahagsmunum ásamt því að veita föngum viðeigandi sálfræðilega meðferð. Af þeim fjórum sálfræðingum sem starfa hjá Fangelsismálastofnun eru þrír staðsettir í Reykjavík en sá fjórði á Litla-Hrauni. Sálfræðingarnir sinna öllum fangelsum á landinu sem og skilorðseftirliti. Viðvera sálfræðinga er mismunandi eftir fangelsum. Á Litla-Hrauni er föst viðvera sálfræðings, á Hólmsheiði og Sogni er að jafnaði vikuleg viðvera en á Akureyri og á Kvíabryggju er ekki föst viðvera.
    Áhersla fangelsisvistar á að vera á betrun fanga með það að markmiði að fækka endurkomum í fangelsi. Eins og áður segir eru þrjú stöðugildi sálfræðinga í fangelsum landsins. Enginn sálfræðingur hefur fasta viðveru á Akureyri eða Kvíabryggju, einu sinni í viku mætir sálfræðingur á Hólmsheiði og Sogn en einn sálfræðingur hefur fasta viðveru á Litla-Hrauni. Þetta getur ekki talist nægileg viðvera sálfræðinga í fangelsum miðað við fjölda fanga landsins. Í núverandi kerfi er meginmarkmið þjónustu sálfræðinga að huga að almannahagsmunum með því að meta hættuna sem samfélaginu stafar af einstaklingum ásamt því að veita þeim viðeigandi sálfræðimeðferð í samræmi við niðurstöðu þess mats.
    Frelsissvipting er afar íþyngjandi úrræði hverjum einstaklingi og í sjálfu sér andlega skaðleg. Stjórnvöldum ber skylda til að veita þeim sem er frelsissviptur sálræna aðstoð til að hann hafi möguleika á að koma bættari úr afplánun. Einnig er ljóst að þeir sem dvelja á bak við lás og slá glíma oftar en ekki við fyrri áföll sem mikilvægt er að vinna úr, hvort sem þau áföll tengjast uppvexti, neyslu eða öðru.
    Markmið þessarar tillögu er að tryggja að frá og með 1. janúar 2019 verði tryggt að í öllum fangelsum landsins verði a.m.k. einn starfandi sálfræðingur sem fangar hafi aðgang að sér að kostnaðarlausu. Ráðherra er í tillögunni falið að útfæra nánar hvernig þjónustan verði veitt.