Ferill 140. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 140  —  140. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, með síðari breytingum (réttur námsmanna og fatlaðs fólks).

Flm.: Helga Vala Helgadóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Orðin „í húsnæðisúrræðum skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðs fólks“ í a-lið falla brott.
     b.      Orðin „á heimavistum eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis á Íslandi“ í c-lið falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp svipaðs efnis var síðast flutt á 145. þingi (153. mál) en náði ekki fram að ganga. Málið er nú flutt í breyttri mynd og nær til fleiri hópa.
    Húsnæðisvandi fólks á leigumarkaði hefur verið mjög mikill undanfarin ár. Sveitarfélögin hafa brugðist við með mismiklum krafti en ljóst er að fjölmargir einstaklingar eiga í verulegum erfiðleikum með að finna sér leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Fjölmargir grípa því til þess ráðs að leigja íbúð á hinum almenna leigumarkaði en þar sem fjárhagur sem og lítið framboð á litlum íbúðum kemur í veg fyrir að einstaklingar geti leigt íbúðir einir og sér bregða margir á það ráð að deila íbúð með öðrum þar sem hver og einn hefur sitt herbergi en bað og eldhús er sameiginlegt.
    Meginreglan varðandi þá sem búa í herbergjum með sameiginlegum aðgangi að eldhúsi og baðherbergi er sú að þeir njóta ekki húsnæðisbóta, enda telst slíkt fyrirkomulag ekki til „íbúðarhúsnæðis“. Árið 2001 var réttur til húsnæðisbóta rýmkaður hvað varðar námsmenn á framhalds- og háskólastigi þannig að þeir sem leigðu á heimavist eða á námsgörðum skyldu njóta réttar til húsnæðisbóta þó svo að þeir deildu aðgangi að eldhúsi og baði. Rétt var talið að telja slíka aðstöðu námsmanna til íbúðarhúsnæðis, enda kölluðu félagslegar aðstæður námsmanna á slíkt fyrirkomulag. Þá var jafnframt gerð undanþága fyrir þá fötluðu einstaklinga sem búa í húsnæðisúrræðum skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðs fólks.
    Í ljósi þess að ekki er nægilegt framboð af rýmum í heimavist eða námsgörðum sem og húsnæðisúrræðum skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðs fólks geta fjölmargir einstaklingar ekki nýtt sér slíkt úrræði en verða vegna fjárhagsstöðu eða af öðrum ástæðum að leigja í félagi við aðra. Með frumvarpi þessu er lagt til að sú takmörkun sem finna má í 11. gr. laga um húsnæðisbætur til handa fötluðu fólki og námsmönnum er varðar tegund sambýla verði felld brott. Með því verði hagur þessara einstaklinga stórbættur og þeir njóti sama stuðnings hvort sem þeir leigja í húsnæðisúrræðum fatlaðra, á námsgörðum eða á almennum markaði.
    Í a-lið 1. gr. er lagt til að réttur fatlaðs fólks til húsnæðisbóta verði rýmkaður. Fram til þessa hafa þeir einir sem leigja í samnýttu húsnæði, sbr. 10. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, átt þess kost að fá húsnæðisbætur. Ljóst er að slík búsetuúrræði bjóðast ekki öllum þeim sem þess óska hvort sem er vegna fjárhagsstöðu eða vegna þess að þeir kjósa að búa með öðrum og því er lögð til þessi breyting á lögum um húsnæðisbætur.
    Í b-lið 1. gr. er lagt til að réttur námsmanna til húsnæðisbóta verði rýmkaður. Fram til þessa hafa þeir einir sem leigja í samnýttu húsnæði, á heimavist eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis á Íslandi, sbr. c-lið 11. gr. laga um húsnæðisbætur, átt þess kost að fá húsnæðisbætur. Ljóst er að slík búsetuúrræði bjóðast ekki öllum þeim sem þess óska hvort sem er vegna fjárhagsstöðu eða vegna þess að þeir kjósa að búa með öðrum og því er lögð til þessi breyting á lögunum.
    Verði frumvarp þetta samþykkt má ljóst vera að fram þarf að fara kostnaðarmat til að meta fjárhagsleg áhrif þess.