Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 162  —  161. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013 (afnám stimpilgjaldsskyldu skipa).

Flm.: Teitur Björn Einarsson, Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.


1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Orðin „og skipa yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Orðin „eða skipa yfir 5 brúttótonnum í opinberum skrám“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.

2. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      3. mgr. fellur brott.
     b.      Orðin „eða skipi yfir 5 brúttótonnum“ í 4. og 5. mgr. falla brott.

3. gr.


    Í stað orðanna „eða skip er selt“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: er seld.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta kveður á um breytingu á ákvæðum laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Lagt er til að stimpilgjald verði afnumið þegar kemur að skjölum er varða eignaryfirfærslu skipa yfir fimm brúttótonnum. Áður hafa verið gerðar breytingar á stimpilgjöldum á Alþingi um að skjöl tengd eignaryfirfærslu á loftförum, minni skipum og kaupskipum séu undanþegin stimpilgjaldi og eru skip yfir fimm brúttótonnum einu atvinnutækin sem enn bera stimpilgjald þegar eignaryfirfærsla á sér stað. Með vísan til sjónarmiða um jafnræði atvinnugreina sem og þróunar í nágrannalöndunum er rétt að eignarheimildarskjöl er varða fiskiskip yfir fimm brúttótonnum verði jafnframt stimpilfrjáls.

Forsaga.
    Lög um stimpilgjald voru fyrst sett árið 1918 að danskri fyrirmynd. Ný lög um stimpilgjald voru sett árið 1921 og giltu fram til ársins 1978, með breytingum þó. Með nýjum lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, voru ákvæði eldri stimpilgjaldslaga aðlöguð breyttum aðstæðum og undanþága frá stimpilgjaldi lögfest þess efnis að ekki þurfti að greiða stimpilgjald af skjölum er lögðu höft eða bönd á loftför eða kaupskip. Með lögum nr. 157/1998, um breytingu á þáverandi lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, var kaupskipaútgerðum veitt undanþága frá stimpilgjöldum af skjölum sem lögðu höft eða bönd á kaupskip við skráningu eða afskráningu hér á landi. Árið 2007 voru síðan lögfestar reglur um íslenska alþjóðlega skipaskrá. Í 8. gr. þeirra laga, nr. 38/2007, kemur fram að afsöl og önnur eignarheimildarskjöl vegna kaupskipa sem skráð eru á íslenska alþjóðlega skipaskrá séu stimpilfrjáls. Tilgangurinn var fyrst og fremst að gera rekstrarumhverfi kaupskipaútgerða sambærilegt rekstrarumhverfi erlendra samkeppnisaðila. Þau sjónarmið eiga enn við í dag og eiga sérstaklega við um fiskiskip yfir fimm brúttótonnum enda íslenskur sjávarútvegur í harðri alþjóðlegri samkeppni.

Gildandi lög um stimpilgjald, nr. 138/2013.
    Í 1. gr. laga nr. 138/2013 um stimpilgjald kemur fram að stimpilgjald er það gjald sem greiða skal í ríkissjóð af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 3. gr. segir að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu skipa yfir fimm brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi, svo sem afsölum, kaupsamningum og gjafagerningum. Af þessu leiðir að gjaldið er bæði greitt við sölu og kaup fiskiskipa yfir fimm brúttótonnum. Í skrá yfir íslensk skip og báta fyrir árið 2017, sem Samgöngustofa gefur út, er að finna yfirlit yfir fjölda skipa, skipt niður eftir tegund skipa. Þar kemur fram að fiskiskip undir 15 brúttótonnum voru 1.274 talsins og fiskiskip yfir 15 brúttótonnum voru 253 talsins 1. janúar 2017. Ekki er að finna í skipaskránni flokkun á skipum undir og yfir fimm brúttótonnum. Er reyndar vandfundinn í lögum og lögskýringagögnum rökstuðningur fyrir því af hverju miðað er við fimm brúttótonn.
    Við gildistöku laga nr. 138/2013 varð ekki lengur skylt að greiða stimpilgjald vegna lánaskjala. Þá var einnig felld brott skylda til að greiða stimpilgjald vegna kaupmála, vátryggingarskjala, aðfarargerða, kyrrsetningargerða, löggeymslna, leigusamninga um jarðir og lóðir, heimildarskjala um veiðiréttindi og skjala sem lögðu ítök, skyldur og kvaðir á annarra eign. Hins vegar var ekkert fjallað í greinargerð með frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 138/2013, eða við þinglega meðferð frumvarpsins, um ástæður eða rök fyrir því að einu atvinnutækin sem ættu að bera áfram stimpilgjald væru skip yfir fimm brúttótonnum.

Stimpilgjöld á skip í norrænum rétti.
    Í skýrslu starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um endurskoðun laga um stimpilgjald frá árinu 2013 er finna umfjöllun um stimpilgjöld í nágrannalöndum Íslands. Þar kemur fram að stimpilgjöld annars staðar á Norðurlöndum takmarkast almennt við fasteignaviðskipti. Í Noregi er stimpilgjald lagt á eignaryfirfærslu fasteigna en ekki skip. Í Svíþjóð er einungis lagt stimpilgjald á eignaryfirfærslu fasteigna og lóðarleiguréttinda. Í Danmörku hefur stimpilgjald verið fellt niður að mestu leyti en þess í stað lagt á svokallað skráningargjald sem er 0,4% þegar um er að ræða fiskiskip sem selt er frá erlendri útgerð til danskrar útgerðar. Í Finnlandi er ekki lagt á gjald vegna eignaryfirfærslu skipa.

Mat á áhrifum á ríkissjóð.
    Tekjuáhrif fyrir ríkissjóð verði frumvarpið að lögum eru ekki metin veruleg. Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2016 voru tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi 4,9 milljarðar kr. Hlutur stimpilgjalda vegna skipa í tekjum ríkissjóðs er áætlaður á bilinu 100–300 millj. kr.