Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 188  —  80. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Söru Elísu Þórðardóttur um eftirlit með starfsemi Matvælastofnunar.


     1.      Hvernig er eftirliti ráðherra með störfum og verkferlum Matvælastofnunar háttað? Á hvaða forsendum tekur ráðherra eða ráðuneyti hans mál til skoðunar?
    Samkvæmt 12. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, fer ráðherra með yfirstjórn stjórnvalda sem hafa á hendi framkvæmd stjórnarmálefna sem undir hann heyra. Í yfirstjórn felst m.a. að ráðherra getur gefið stjórnvaldi almenn og sérstök fyrirmæli um starfrækslu á verkefnum þess, fjárreiður og meðferð eigna, enda mæli lög eða eðli máls því ekki í mót. Ráðherra hefur eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum á vegum stjórnvalda sem heyra undir almennar stjórnunarheimildir hans, sbr. 13. gr. laganna. Ráðherra getur krafið stjórnvald, sem heyrir undir yfirstjórn hans, um hverjar þær upplýsingar og skýringar sem honum er þörf á til að sinna yfirstjórnarhlutverki sínu skv. 14. gr. laganna.
    Matvælastofnun heyrir undir yfirstjórn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Verði ráðherra eða ráðuneytið þess áskynja að út af bregður í starfsemi Matvælastofnunar við framkvæmd lögbundinna verkefna eru slík mál almennt tekin til skoðunar í samræmi við framangreindar eftirlitsskyldur ráðherra. Dæmi um slíka skoðun er úttekt sem unnin var á starfsemi Matvælastofnunar í kjölfar Brúneggjamálsins svokallaða árið 2016. Ráðherra lagði fram skýrslu um niðurstöður úttektarinnar á Alþingi á 146. löggjafarþingi ( skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um Matvælastofnun, 370. mál á þskj. 499). Í kjölfarið var unnið úr tillögum í skýrslunni með það að markmiði að styrkja starfsemi stofnunarinnar.
    Stjórnvaldsákvarðanir Matvælastofnunar eru almennt kæranlegar til ráðuneytisins. Ákveðið eftirlit fer þannig fram í formi úrskurða ráðuneytisins.

     2.      Hvernig bregst ráðherra við ef Matvælastofnun gerist brotleg í störfum?
    Sé niðurstaða skoðunar á þann veg að starfshættir stofnunarinnar hafi ekki samræmst lögum fara viðbrögð ráðherra og ráðuneytis eftir eðli máls hverju sinni. Má hér m.a. nefna lög um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

     3.      Hefur ráðherra haft til skoðunar tilvik sl. þrjú ár þar sem Matvælastofnun hefur gerst brotleg og ef svo er, hvaða ákvarðanir hefur ráðherra tekið í hverju tilviki fyrir sig?
    Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 24. apríl 2018 í máli nr. 9510/2017 beindi umboðsmaður Alþingis tilmælum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að það gerði, á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda, ráðstafanir til þess að starfshættir Matvælastofnunar yrðu framvegis í samræmi við lög við ráðningar á dýralæknum sem ekki hafa vald á íslenskri tungu. Í kjölfar álitsins var ákveðið að leggja fram frumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi um breytingu á lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Breytingin er lögð til vegna skorts á íslenskum dýralæknum til að sinna lögbundnum verkefnum Matvælastofnunar.
    Ýmis önnur mál hafa komið upp á síðastliðnum árum sem hafa kallað á athugun ráðuneytisins án þess þó að um hafi verið að ræða brot Matvælastofnunar eða að athugun hafi gefið tilefni til sérstakra ákvarðana ráðherra. Má þar nefna erindi frá umboðsmanni Alþingis vegna hæfis dýralæknis fisksjúkdóma í tengslum við eftirlit með fiskeldi. Í kjölfar þess voru gerðar ákveðnar breytingar á verkferlum innan Matvælastofnunar til þess að tryggja að ekki væru unnt að efast um hæfi dýralæknis í störfum fyrir Matvælastofnun.