Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 191  —  186. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um sameignarfélög (viðurlög vegna hlutfalls kynja í stjórn).

Flm.: Lilja Rafney Magnúsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Inga Sæland, Halldóra Mogensen, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Þorsteinn Sæmundsson, Bryndís Haraldsdóttir.


I. KAFLI
Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 77. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Samvinnufélagaskrá skal leggja dagsektir á samvinnufélag sem fer ekki að ákvæði 4. málsl. 1. mgr. 27. gr. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag og er heimilt að taka mið af fjárhagslegum styrk félags. Dagsektir renna í ríkissjóð og eru aðfararhæfar. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um álagningu dagsekta í reglugerð.

II. KAFLI
Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 126. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hlutafélagaskrá skal leggja dagsektir á einkahlutafélag sem fer ekki að ákvæði 3. og 4. málsl. 1. mgr. 39. gr. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag og er heimilt að taka mið af fjárhagslegum styrk félags. Dagsektir renna í ríkissjóð og eru aðfararhæfar. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um álagningu dagsekta í reglugerð.

III. KAFLI
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.
3. gr.

    Við 152. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hlutafélagaskrá skal leggja dagsektir á hlutafélag sem fer ekki að ákvæði 2. og 3. málsl. 1. mgr. 63. gr. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag og er heimilt að taka mið af fjárhagslegum styrk félags. Dagsektir renna í ríkissjóð og eru aðfararhæfar. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um álagningu dagsekta í reglugerð.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007, með síðari breytingum.
4. gr.

    Á eftir 51. gr. laganna kemur ný grein, 51. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Dagsektir.

    Firmaskrá skal leggja dagsektir á sameignarfélag sem fer ekki að ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag og er heimilt að taka mið af fjárhagslegum styrk félags. Dagsektir renna í ríkissjóð og eru aðfararhæfar. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um álagningu dagsekta í reglugerð.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að það varði dagsektum ef ekki er farið að ákvæðum laga um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Málefni þetta var til umræðu í atvinnuveganefnd á 148. löggjafarþingi og þá fundaði nefndin m.a. með fulltrúum Félags kvenna í atvinnurekstri sem vísuðu til þess að staða mála hér á landi væri óviðunandi hvað varðar hlutfall kvenna í stjórnum félaga.
    Með lögum nr. 13/2010, um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, voru lögfest ákvæði um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Ákvæðin öðluðust gildi 1. september 2013 þannig að gefinn var rúmur aðlögunartími. Með lögum nr. 49/2011 var gerð sambærileg breyting á lögum um sameignarfélög og lögum um samvinnufélög. Í ákvæðunum felst að þar sem starfsmenn eru fleiri en 50 að jafnaði á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar hún er skipuð fleiri en þremur mönnum en þegar stjórn er skipuð þremur einstaklingum skuli tryggt að hvort kyn eigi fulltrúa í stjórn.
    Í Noregi voru samþykkt lög um kynjakvóta í stjórnum stærri hlutafélaga árið 2003. Þar var kveðið á um að hlutur hvors kyns í stjórn skuli vera að lágmarki 40%. Eftir innleiðingu norsku laganna hækkaði hlutur kvenna í stjórnum hlutafélaga úr 6% árið 2002 í 40% árið 2011. Hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja í Noregi hækkaði úr fjórðungi stjórnarmanna árið 2004 í 36% árið 2006 og náði 42% árið 2009. Samkvæmt Sissel Jensen, norskum hagfræðingi, er aukinn hlutur kvenna meðal þeirra sem fá hæst laun bein afleiðing kynjakvótans. Konur fá frekar tækifæri til að vera meðal æðstu stjórnenda þegar stjórnin sjálf er skipuð bæði körlum og konum. Þessar niðurstöður koma heim og saman við tilgang laganna, þ.e. að fleiri konur fá tækifæri til áhrifa í viðskiptalífinu. Samkvæmt norsku lögunum er heimilt að leggja dagsektir á þau félög sem ekki fara að lögum við tilkynningar til hlutafélagaskrár. Fari félög ekki að lögum þrátt fyrir álagningu dagsekta getur hlutafélagaskrá hafið ferli sem endar með slitum félagsins. Geri hlutafélagaskrá kröfu um slit félags vegna vanrækslu lagaskyldu getur slíkt mál farið fyrir dómstóla.
    Þrátt fyrir að Ísland hafi fylgt nokkuð fast á eftir fordæmi Noregs með lagasetningu um kynjakvóta í stjórnum félaga hefur ekki náðst sami árangur á Íslandi. Gefinn var rúmur aðlögunartími fyrir gildistöku ákvæða um hlutfall kynja í stjórnum en hlutfallið hefur ekki jafnast og ákvæðum hefur í reynd ekki verið fylgt. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru konur 26,1% stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá í lok árs 2017. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 launþega náði hámarki 33,2 % árið 2014 en hefur farið lækkandi síðan. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með færri en 50 launþega stendur í stað á milli ára. Íslensk lög um þetta eru byggð á þeim norsku en ekki er þar að finna sambærileg viðurlagaákvæði. Flutningsmenn telja tímabært að skýrt verði kveðið á um það í lögum að leggja skuli dagsektir á þau félög sem ekki fara að ákvæðum um hlutföll kynja í stjórnum svo að markmið þeirra nái fram að ganga.