Ferill 105. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 195  —  105. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Inga Kristinssyni um aðgengi fatlaðs fólks í farþegaflutningum.


     1.      Hvernig hefur ráðherra beitt sér fyrir því að sérleyfishafar fólksflutninga tryggi aðgengi fatlaðs og hreyfihamlaðs fólks að hópbifreiðum, sbr. ákvæði 19. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017?
    Í kjölfar samþykktar Alþingis á lögum nr. 28/2017 voru reglur Evrópusambandsins um aðgengi í almenningssamgöngum á landi innleiddar í íslensk lög, m.a. með reglugerð 475/2017 og reglugerð ESB 181/2011. Samkvæmt 2. málsl. 2. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, fer Samgöngustofa með framkvæmd laganna og stjórnsýslufyrirmæla sem sett eru samkvæmt þeim.
    Reglugerð 181/2011 gildir um ferðir með hópferðabifreiðum sem eru 250 km eða lengri. Meðal markmiða hennar er að færa réttindi og neytendavernd farþega á landi til jafns við réttindi og neytendavernd flugfarþega og farþega á sjó. Reglugerðinni er ætlað að koma í veg fyrir mismunun gegn fötluðum og hreyfihömluðum einstaklingum og kveður á um skyldu flutningsaðila til að aðstoða þá. Þá er kveðið á um skyldur flutningsaðila um upplýsingagjöf um skilyrði fyrir flutning fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega. Í 19. gr. laga nr. 28/2017 kemur fram að óheimilt sé að synja farþega um bókun eða farmiða á grundvelli fötlunar í ferð hér á landi eða um að ferðast með hópbifreið enda hafi farþegi gildan farmiða. Einnig er kveðið á um rétt fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega til hafa með sér fylgdarmann. Loks er kveðið á um skyldu flutningsaðila til að veita aðstoð, skilyrði þess að slík aðstoð sé veitt, þjálfun ökumanna og starfsfólks og annað sem nauðsynlegt þykir til að tryggja aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga að reglubundnum farþegaflutningum.
    Farþegar sem ferðast með hópbifreiðum hafa samkvæmt lögunum rétt til að kvarta til Samgöngustofu telji þeir að flutningsaðili hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt þeim eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Ákvarðanir Samgöngustofu eru kæranlegar til ráðherra.
    Ráðuneytið kemur almennt ekki að málum vegna laga nr. 28/2017 með öðrum hætti en að úrskurða í kærumálum. Er það í samræmi við meginreglur stjórnskipunarréttar að stjórnvaldi sem falið er tiltekið verkefni sjái um afgreiðslu þess án aðkomu æðra stjórnvalds. Samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, er það ein af ástæðum vanhæfis við meðferð kæru að æðra sett stjórnvald hafi komið að meðferð málsins á fyrri stigum.

     2.      Hvernig hefur ráðherra beitt sér fyrir því að framkvæmdastjórnir miðstöðva hópbifreiða fylgi ákvæðum algildrar hönnunar við endurbætur eldri miðstöðva og við hönnun nýrra miðstöðva?
    Kveðið er á um þetta atriði í lögum um mannvirki, nr. 160/2010, og á það því undir umhverfis- og auðlindaráðherra.

     3.      Hvernig hefur ráðherra beitt sér fyrir því að flutningsaðilar og framkvæmdastjórnir miðstöðva fastsetji og birti aðgengisskilyrði fyrir fatlað og hreyfihamlað fólk?
    Samgöngustofa hefur frá gildistöku laganna unnið að þróun og mótun verklags um hvernig best skuli staðið að framkvæmd eftirlits á sviði landflutninga. Slíkt er nauðsynlegt að þróa í samráði við flutningsaðila og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Þá bregst stofnunin við með viðeigandi hætti og í samræmi við hlutverk sitt berist ábending um að flutningsaðili gerist brotlegur við lög og reglur sem um starfsemi hans gilda. Samgöngustofa hefur unnið að kynningarefni fyrir farþega í hópbifreiðum, sambærilegt við það efni sem þegar er fyrir hendi á sviði farþegaflutninga með flugi og skipum. Það efni verður birt á heimasíðu stofnunarinnar von bráðar. Áfram verður unnið að þróun og mótun verklags í málaflokknum samkvæmt verkefnaáætlun stofnunarinnar fyrir árið 2019.
    Að lokum má nefna að Samgöngustofu hefur enn sem komið er ekki borist kvörtun frá farþega hópbifreiðar. Ef breyting verður þar á mun útfærsla og mótun alls verklags stofnunarinnar í málaflokknum taka mið af þeim kvörtunum sem berast stofnuninni.