Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 200  —  194. mál.
Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um lánsfjárþörf Íslandspósts ohf.

Frá Birgi Þórarinssyni.


     1.      Var lánsfjárþörf Íslandspósts ohf. fyrirséð við gerð fjárlaga fyrir árið 2018, sbr. tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins 14. september 2018, og ef svo var, hvers vegna var ekki brugðist við?
     2.      Telur ráðherra að skilyrði 26. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, um að heimilt sé að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum útgjöldum, séu uppfyllt þar sem taprekstur fyrirtækisins virðist viðvarandi?
     3.      Hvernig rökstyður ráðherra að skilyrði 26. gr. laga um opinber fjármál séu uppfyllt um að útgjöldin séu óhjákvæmileg innan fjárlagaársins og hvers vegna ekki er unnt að bíða með lánveitinguna þar til í fjárlögum fyrir árið 2019?
     4.      Er að mati ráðherra unnt að bregðast við vanda Íslandspósts með öðrum úrræðum en þeim sem tilgreind eru í 26. gr. laga um opinber fjármál? Svarið óskast rökstutt.
     5.      Hefur Íslandspóstur þegar fengið umrædda lánsfjárhæð til afnota? Ef svo er, með hvaða heimildum?
     6.      Hefur verið leitað álits Samkeppniseftirlitsins um hvort lánveitingin skekki samkeppnisstöðu á markaðinum? Telur ráðherra að lánveitingin skekki, eða skekki ekki, samkeppnisstöðuna?
     7.      Hvers vegna leitar Íslandspóstur sem er opinbert hlutafélag ekki til viðskiptabanka síns?
     8.      Er tryggt að Íslandspóstur þurfi ekki á frekari fyrirgreiðslu ríkissjóðs að halda á næsta ári, annaðhvort í formi hlutafjár eða aukins lánsfjár? Svarið óskast rökstutt.
     9.      Hver verður afkoma Íslandspósts árið 2019 samkvæmt rekstraráætlunum?
     10.      Hver er framtíðarsýn ráðherra í málefnum Íslandspósts?


Skriflegt svar óskast.