Ferill 196. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 202  —  196. mál.
Leiðréttur texti.
Beiðni um skýrslu


frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um innlenda eldsneytisframleiðslu.

Frá Ara Trausta Guðmundssyni, Líneik Önnu Sævarsdóttur, Jóni Gunnarssyni, Ólafi Þór Gunnarssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Smára McCarthy, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Njáli Trausta Friðbertssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Willum Þór Þórssyni og Vilhjálmi Árnasyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flytji Alþingi skýrslu um innlenda eldsneytisframleiðslu þar sem m.a. komi fram:
     a.      yfirlit yfir þá framleiðslu brunavélaeldsneytis sem nú fer fram á Íslandi, þ.m.t. framleiðslu metanóls og lífdísils,
     b.      yfirlit yfir framleiðslu vetnis hér á landi sem nýtt er á rafknúin tæki til lands eða sjávar,
     c.      mat á ætlaðri þörf hérlendis fyrir hvers kyns orkugjafa í ökutæki, vinnuvélar og báta- og skipavélar, aðra en hleðslurafhlöður, fram til ársins 2030,
     d.      grunnyfirlit yfir þróun orkugjafa í flugi um þessar mundir,
     e.      yfirlit yfir þekkingu á framleiðsluaðferðum eldsneytis á Íslandi, sbr. c-lið,
     f.      mat á fýsileika þess að framleiða sem mest af innlendu eldsneyti til notkunar til sjós og lands samhliða aukinni rafhlöðubílavæðingu til 2030.
    Með tilliti til þess að efni skýrslunnar fellur vel að því starfi sem nú fer fram við mótun orkustefnu til langs tíma og við skipulagningu aðgerða gegn loftslagshlýnun er þess farið á leit að ráðherra flytji Alþingi umbeðna skýrslu fyrir lok maí 2019.


Greinargerð.

    Samkvæmt stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er stefnt að kolefnishlutleysi landsins fyrir 2040. Af þessu tilefni hefur verið mikil og réttmæt áhersla á rafvæðingu bílaflotans. Nú um stundir fást aðallega rafvæddir einkabílar, búnir rafhlöðum, og hefur hlutfall þeirra í umferðinni hækkað jafnt og þétt, m.a. vegna ívilnana við kaup á þeim.
    Þessari rafvæðingu bílaflota landsmanna eru þó ýmsar skorður settar á næstu árum. Má þar nefna miðlungi mikið framboð rafbíla á heimsvísu, sér í lagi stórra vinnubíla og -tækja, ónóg hráefni í rafhlöður, fremur hægt vaxandi afkastagetu hefðbundinna liþíumrafhlaðna og fleiri þætti. Af þessum og öðrum sökum er næsta víst að notkun vistvæns eldsneytis í ökutæki, vinnuvélar og skipa- og bátavélar, auk flugvéla, verður mikilvæg í andófi gegn losun gróðurhúsalofttegunda og þar með hlýnun í veðrahvolfinu.
    Þá er um að ræða orkugjafa í sprengihreyfla sem losa vissulega kolsýring. Hann er í einn stað upprunninn úr náttúrulegri kolefnishringrás í lofthjúpnum (t.d. úr jurtaríkinu, svo sem við notkun repjuolíu). Notkun orkugjafanna bætir engu við kolefnisinnihald andrúmsloftsins.
    Í annan stað er kolsýringurinn til kominn úr gróðurhúsalofttegundum úr iðrum jarðar (vegna notkunar kola, jarðolíu og jarðhita) eða úr bráðnandi sífrera. Lofttegundirnar metan og kolsýringur blandast óhjákvæmilega andrúmsloftinu en með því að framleiða úr þeim eldsneyti og brenna er verið að endurnýta lofttegundirnar áður en af endanlegri losun verður – menn smeygja sér inn í losunarferlið og nýta þessi gróðurhúsagös tvisvar. Gott dæmi er framleiðsla metanóls í auðlindagarði HS Orku. Þar nýtir Carbon Recycling jarðhitagas (koltvísýring) úr borholunum, sem ella hyrfi út í loftið, til framleiðslu alkóhóls. Við bruna þess verður til kolsýringur sem þá losnar út í loftið. Notkun þessa eldsneytis minnkar heildarlosun kolefnislofttegunda vegna þess að það kemur í stað kolefniseldsneytis úr jörðu í samgöngum og ýmiss konar annarri starfsemi, að sönnu í þeim mæli sem það er framleitt.
    Til orkuskipta er vetni einnig mikilvægt. Það er notað með tækni sem byggist á efnarafölum er framleiða raforku. Rafstraumur knýr rafmótora sem hreyfitæki og eru þeir bæði kunnir úr ökutækjum og fleytum á sjó, m.a. úr rekstri strætisvagna og bíla hér á landi. Nokkrir erlendir, öflugir framleiðendur bíla stefna á fjöldaframleiðslu vetnisbíla, t.d. Toyota.
    Á næstu árum verður að sönnu hugað að orkuskiptum í flutningsgeiranum, í landbúnaði, byggingariðnaði og hvers kyns skipaútgerð, svo það helsta sé nefnt.
    Á meðan raftækninni fleygir fram í þeim efnum blasir við að markmiðum stjórnvalda verður náð betur en ella ef innlent, og sem vistvænast eldsneyti, er notað í stað jarðefnaeldsneytis í bifreiðum og vinnutækjum eða skipum og bátum sem ekki eru rafknúnir með orku úr rafhlöðum. Þetta getur einnig átt við flugvélar þegar fram í sækir en þar er raunar líka horft til raforku úr rafhlöðum.
    Í sumum tilvikum er unnt að nota innlent/vistvænt eldsneyti eingöngu en í öðrum getur innlent eldsneyti verið til blöndunar í bensín, dísilolíu eða A-1-flugvélaeldsneyti.
    Nú þegar er til allmikil þekking og nokkur reynsla af innlendu eldsneyti á bíla með brunavélum, og í fremur fáum tilvikum, á önnur tæki. Nægir að nefna metan úr sorpfyllingum eða húsdýraúrgangi, lífdísil úr repju eða dýrafitu og metanól úr framleiðsluveri Carbon Recycling. Við Háskólann á Akureyri hafa verið gerðar tilraunir með framleiðslu etanóls úr gróðri með hitakærum örverum og framleiðslu vetnis með slíkum örverum. Einnig hefur verið unnið að framleiðslu olíu úr þörungum eða frumverum úr sjó. Unnt er að framleiða metanól í verulegu magni úr jarðhitagasi, sbr. verkefni sem Orka náttúrunnar er aðili að við orkuverið á Hellisheiði.
    Á undanförnum árum hafa tækniframfarir opnað nýjar eða betri gáttir í óhefðbundinni eldsneytisnotkun. Vélar geta nú gengið fyrir hreinu alkóhóli og líftækni auðveldar framleiðslu olía er henta sem lífdísill á venjulegar dísilvélar.
    Innlend fyrirtæki geta aukið afköst við framleiðslu vistvæns eldsneytis og unnt að setja landinu markmið um hana, í takt við aukið framboð rafbíla og rafvéla, á þann hátt að hlutfall losunarminnstu valkosta sé ávallt sem hagstæðast markmiði um kolefnishlutlaust Ísland. Eflaust þarf til þessa aðstoð hins opinbera og fyrirtækja í ólíkum atvinnugreinum, einkum á stigum nýsköpunar og við stofnun lífvænlegra fyrirtækja.
    Til mikils er að vinna með því að efla innlenda eldsneytisframleiðslu og auðvelda sem mest notkun afurðanna, á meðan þörf er á þeim.