Ferill 207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 213  —  207. mál.
Beiðni um skýrslu


frá félags- og jafnréttismálaráðherra um úttekt á stöðu ólíkra hópa fólks með tilliti til eigna-, tekju- og atvinnustöðu tíu árum eftir hrun.

Frá Þórunni Egilsdóttur, Ara Trausta Guðmundssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Guðmundi Inga Kristinssyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Jóhanni Friðriki Friðrikssyni, Líneik Önnu Sævarsdóttur, Ólafi Þór Gunnarssyni, Teiti Birni Einarssyni og Willum Þór Þórssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að félags- og jafnréttismálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um eigna-, tekju- og atvinnustöðu ólíkra hópa fólks á Íslandi tíu árum eftir hrun. Umfjöllunarefni skýrslunnar verði eftirfarandi:
     a.      Á hvaða samfélagshópa greiðslubyrðin í kjölfar hrunsins lagðist þyngst.
     b.      Hve margir þeir voru sem nýttu sér tiltæk úrræði fyrir einstaklinga í skulda- og greiðsluvanda.
     c.      Núverandi eigna-, tekju- og atvinnustaða þess hóps sem nýtti sér úrræðin.
     d.      Staða þeirra sem leituðu til umboðsmanns skuldara samanborið við þá sem nýttu sér ekki þá leið.
     e.      Núverandi húsnæðisstaða þeirra sem misstu fasteignir sínar í kjölfar hrunsins.
     f.      Fjöldi þeirra sem leituðu sér einhvers konar úrræða vegna greiðsluvanda og eru enn á vanskilaskrá.
     g.      Áhrif verðtryggingar lána heimilanna á heimilin og hagkerfið.
     h.      Yfirlit yfir aðfarargerðir, árangurslaust fjárnám og gjaldþrot einstaklinga.

Greinargerð.

    Um þessar mundir eru tíu ár liðin frá falli íslensku bankanna. Ljóst er að afleiðingar efnahagshrunsins höfðu víðtæk áhrif á heimili landsmanna en ekki liggur fyrir greining á stöðu þeirra einstaklinga sem leituðu sér aðstoðar vegna skulda- og greiðsluvanda.
    Fjárhagsstaða margra versnaði mjög á árunum eftir hrun. Embætti umboðsmanns skuldara var stofnað 1. ágúst 2010. Meginmarkmið þess er að bæta stöðu einstaklinga sem eiga í skulda- og greiðsluerfiðleikum og auðvelda þeim að koma greiðslubyrði og skuldastöðu í ásættanlegt horf. Á þeim tíu árum sem nú eru liðin frá hruni hefur umboðsmaður skuldara veitt einstaklingum sem átt hafa í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð. Jafnframt buðu fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður upp á ýmis úrræði.
    Þrátt fyrir bætt efnahagsástand á Íslandi er full ástæða til þess að kanna hver staða þessa fólks er nú þegar tíu ár eru liðin frá hruninu.