Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 219  —  189. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, með síðari breytingum (rekstrarleyfi til bráðabirgða).

(Eftir 2. umræðu, 9. október.)


1. gr.

    Við 21. gr. c laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sé rekstrarleyfi fellt úr gildi getur ráðherra vegna annmarka á leyfisveitingu, að fenginni umsögn Matvælastofnunar, enda mæli ríkar ástæður með því, gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að tíu mánaða berist umsókn þess efnis frá handhafa þess leyfis sem var fellt úr gildi innan þriggja vikna frá því að leyfi var fellt úr gildi. Umsókn um rekstrarleyfi til bráðabirgða skal afgreidd eins fljótt og mögulegt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að umsókn berst. Í umsókn skal tilgreina með skýrum hætti tilgang rekstrarleyfis til bráðabirgða, ástæður þess og fyrirhugaðar aðgerðir á gildistíma bráðabirgðaleyfisins. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal Matvælastofnun ekki stöðva rekstur fiskeldisstöðvar fyrr en fyrir liggur hvort sótt verði um rekstrarleyfi til bráðabirgða. Berist slík umsókn um rekstrarleyfi til bráðabirgða skal ekki stöðva rekstur meðan umsókn er til meðferðar hjá ráðherra. Rekstrarleyfi til bráðabirgða skal vera efnislega innan marka þess leyfis sem áður var í gildi. Ákvörðun um rekstrarleyfi til bráðabirgða má byggja á gögnum sem aflað hefur verið við undirbúning þess rekstrarleyfis sem fellt var úr gildi. Þá getur ráðherra sett rekstrarleyfi til bráðabirgða þau skilyrði sem þörf er á svo að tilgangur leyfisins náist, svo sem um samdrátt þeirrar starfsemi sem þegar er fyrir hendi, um tímafresti vegna úrbóta eða um tímamörk málshöfðunar eða annarra athafna fyrir dómi sem eru á forræði aðila. Rekstrarleyfi til bráðabirgða samkvæmt þessari málsgrein er heimilt að endurútgefa einu sinni. Rekstrarleyfi til bráðabirgða samkvæmt þessari málsgrein er fullnaðarúrlausn á stjórnsýslustigi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og taka jafnframt til rekstrarleyfa sem voru felld úr gildi fyrir gildistöku laganna.