Ferill 128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 221  —  128. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur um einbreiðar brýr á Suðurlandsvegi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra bregðast við auknum umferðarþunga á Suðurlandsvegi, allt austur fyrir Jökulsárlón, vegna stóraukins fjölda ferðamanna síðustu ár á vegarkaflanum frá Reykjavík til Hafnar á þjóðvegi 1? Ef svo er, hversu mörgum einbreiðum brúm verður skipt út á þjóðvegi 1, á fyrrgreindum vegarkafla, á tímabili fjármálaáætlunar og hversu margar einbreiðar brýr verða eftir á sama vegarkafla við lok tímabils núgildandi fjármálaáætlunar?

    Á Hringveginum frá Reykjavík og austur fyrir Jökulsárlón eru nú 14 einbreiðar brýr.
    Samkvæmt tillögu að samgönguáætlun 2019–2023 og áætlunum Vegagerðarinnar um endurnýjun brúa verður sex af einbreiðum brúm skipt út á árunum 2018–2023. Átta einbreiðar brýr verða því eftir á þessum vegarkafla í lok árs 2023. Samkvæmt tillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 er síðan áætlað að skipta út sex brúm til viðbótar. Í lok árs 2033 má því gera ráð fyrir að eingöngu verði tvær einbreiðar brýr eftir á þessum vegarkafla, þ.e. brúin á Súlu á Skeiðarársandi (440 m ) og brúin á Jökulsá á Breiðamerkursandi (108 m).
    Eftirfarandi tafla sýnir einbreiðar brýr á Hringveginum frá Reykjavík að Jökulsárlóni og áætlaðan tíma endurnýjunar eða endurbyggingar.

Númer vegar Brú Áætlaður tími endurbyggingar
1-b5 Jökulsá á Sólheimasandi 2020–2021
1-a4 Breiðbalakvísl 2024–2028
1-a3 Þverárvötn 2024–2028
1-a3 Hverfisfljót 2019–2020
1-a2 Brunná 2019–2020
1-a1 Súla Ekki inni í áætlunum
1-y9 Skaftafellsá 2029–2033
1-y8 Svínafellsá 2029–2033
1-y8 Virkisá 2029–2033
1-y7 Kotá 2029–2033
1-y6 Stigá 2018
1-y6 Hólá 2018
1-y5 Kvíá í Öræfum 2018–2019
1-y3 Jökulsá á Breiðamerkursandi Ekki inni í áætlunum

    Gert er ráð fyrir að halda áfram með 2+1 veg með aðskildum akbrautum með vegriði og planvegamótum ásamt hliðarvegum á kafla milli Selfoss og Hveragerðis. Í samgönguáætlun er einnig gert ráð fyrir að mæta auknu umferðarálagi á Suðurlandsvegi í vegakerfinu með því að breikka veginn frá Selfossi að Hellu, aðskilja akstursstefnur með 2+1 vegi og gera hliðarvegi til að fækka tengingum í plani. Einnig er gert ráð fyrir nýjum vegi norðaustan Selfoss með nýrri brú yfir Ölfusá. Þá er í samgönguáætlun gert ráð fyrir að fjármagna láglendisveg á Hringvegi um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli. Hringvegurinn um Gatnabrún í Mýrdal, sem nú er bæði brattur og með kröppum beygjum, verður einnig lagfærður en þessi staður er ein helsta hindrunin á þessum kafla Hringvegarins.