Ferill 108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 245  —  108. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um verkferla þegar einstaklingur verður bráðkvaddur erlendis.


     1.      Eftir hvaða verkferlum er farið þegar Íslendingur verður bráðkvaddur erlendis?
    Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veitir aðstoð vegna heimflutnings íslenskra ríkisborgara sem látast erlendis. Aðstoð í slíkum tilvikum er hin sama óháð dánarorsök, sem þýðir að unnið er eftir sömu verkferlum hvort sem einstaklingur verður bráðkvaddur eða deyr af öðrum ástæðum. Svar við fyrirspurn þessari lýsir því verklagi.
    Berist fulltrúa utanríkisþjónustunnar tilkynning um dauðsfall Íslendings erlendis tilkynnir hann það til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Borgaraþjónustan hefur samband við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra eða ættingja eftir atvikum. Ef ættingjum er ókunnugt um andlátið er það lögregla eða safnaðarprestur sem flytur ættingjum andlátsfregn. Borgaraþjónustan kemur einnig að málum þegar beiðni um aðstoð berst frá aðstandendum.
    Aðstoð sendiráða eða ræðismanna Íslands vegna andláts íslenskra ríkisborgara erlendis felst m.a. í því að hafa samband við útfararstofu í viðkomandi landi og koma á sambandi við útfararstofu á Íslandi, eigi að flytja hinn látna til Íslands. Þá getur aðstoðin einnig falist í því að afla gagna, t.d. niðurstaðna úr krufningu og blóðrannsókn, lögregluskýrslna, dómsúrskurða og fleira.
    Útfararstofa í viðkomandi landi sér um allan undirbúning fyrir heimflutning hins látna.

     2.      Eru samræmdar reglur innan EES um hvernig bregðast beri við þegar borgarar verða bráðkvaddir í öðru ríki en heimaríki sínu?
    Utanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um að svo sé en árlegt samráð er milli Norðurlanda um verklag við veitingu borgaraþjónustu erlendis.

    Alls tók þrjár vinnustundir að undirbúa svar þetta.