Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 248  —  233. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með síðari breytingum, nr. 111/2016 (rýmri skilyrði).

Flm.: Þorsteinn Víglundsson, Björn Leví Gunnarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Inga Sæland, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Orðið „samfelldu“ í 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna ,,ekki áður átt íbúð“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: ekki átt íbúð undangengin þrjú ár, að hann hafi ekki áður fullnýtt rétt til skattfrjálsrar úttektar á lífeyrissparnaði.
     c.      Orðið „samfellda“ í 1. málsl. 3. mgr. og í 3. málsl. 4. mgr. fellur brott.
     d.      3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Með hugtakinu tíu ára tímabil er átt við 120 mánuði frá upphafsdegi eins og hann er skilgreindur í 1. málsl., óháð því hvort um samfellt tímabil er að ræða.
     e.      Í stað orðanna „hefji hann iðgjaldagreiðslur áður en tíu ára tímabilinu er lokið“ í 4. málsl. 3. mgr. kemur: við nýtt upphaf iðgjaldagreiðslna.
     f.      Orðin „og að kaup rétthafa á nýrri íbúð fari fram innan tólf mánaða frá síðustu sölu þeirrar íbúðar sem veitti rétt til úttektar séreignarsparnaðar samkvæmt lögunum“ í 2. málsl. 4. mgr. falla brott.

2. gr.

    Í stað „333 þús. kr.“, „2%“, ,,167 þús. kr.“ og „500 þús. kr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: 337 þús. kr.; 5,5%; 463 þús. kr.; og: 800 þús. kr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum um skattfrjálsa nýtingu séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð.
    Í fyrsta lagi er lagt til að rétturinn til nýtingar á þessu úrræði verði ekki einskorðaður við fyrstu kaup. Þannig verði einstaklingi eða einstaklingum sem ekki hafa átt íbúð undangengin þrjú ár og ekki áður fullnýtt heimildir sínar til skattfrjálsrar úttektar séreignarsparnaðar samkvæmt lögunum einnig heimilt að nýta sér þetta úrræði. Ljóst er að nokkuð stór hópur fólks missti eigið húsnæði á árunum eftir hrun og hafa fjölmargir átt erfitt með að komast inn á fasteignamarkaðinn aftur. Þessir sömu einstaklingar hafa ekki áður nýtt úrræðin sem lögin fela í sér enda voru þau fyrst kynnt 2016 og tóku ekki gildi fyrr en 1. júlí 2017. Það er vel þekkt hversu erfitt getur verið fyrir fólk á leigumarkaði að ná að leggja fé til hliðar fyrir útborgun í íbúð. Með breytingu þessari er verið að koma til móts við aðila sem ekki hafa nýtt úrræðið áður og ekki átt íbúð í þrjú ár, þótt ekki sé um fyrstu íbúðarkaup þeirra að ræða.
    Í öðru lagi er lagt til að krafa um samfellda nýtingu viðbótariðgjalds verði felld brott og í stað þess verði rétthöfum séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald sem greitt er á 120 mánaða tímabili, þrátt fyrir að það sé gert með hléum. Með því er leitast við að gæta hagsmuna þeirra sem misst hafa húsnæði og gera þeim sem flust hafa tímabundið til útlanda auðveldara að snúa aftur á fasteignamarkað. Þannig er lagalegs jafnræðis þeirra einstaklinga gætt til samræmis við aðra.
    Í þriðja lagi eru viðmiðunarprósentur og fjárhæðir laganna hækkaðar til að endurspegla breytt umhverfi frá því lögin tóku fyrst gildi. Launavísitala hefur hækkað um 12% frá árslokum 2016 og þá hefur svigrúm til séreignarsparnaðar verið aukið með hækkun lífeyrisiðgjalds á almennum vinnumarkaði úr 12% í 15,5%. Hægt er að leggja 3,5% viðbótina í séreign og sambærilegar breytingar eru fyrirhugaðar í opinbera lífeyriskerfinu.
    Almennt má segja að heppilegt sé fyrir ungt fólk í dag að nýta sem stærstan hluta af séreignarsparnaði sínum til húsnæðissparnaðar. Úrræðið nýtist vel á fyrstu árum einstaklinga á vinnumarkaði á meðan tekjur eru hvað lægstar en fjárþörf, m.a. vegna húsnæðiskaupa, er mikil. Ljóst er að lífeyrissparnaður í núverandi lífeyriskerfi með 15,5% iðgjald auk allt að 6% viðbótarlífeyrissparnaðar er meira en nægjanlegur. Einstaklingur sem hefur störf um þessar mundir og nýtir séreignarsparnað til fulls má vænta meira en 100% af meðalævitekjum sínum í lífeyri á eftirlaunaaldri. 1 Raunar mætti færa gild rök fyrir því að lífeyrissparnaður sé, ef eitthvað er, of mikill, sé tekið mið af dæmigerðri tekjudreifingu einstaklings yfir æviskeið hans. Fjárþörfin er líkast til hvað mest við lok náms á meðan verið er að koma sér upp þaki yfir höfuð, greiða niður námslán og koma börnum á legg. Tekjurnar eru hins vegar hvað mestar um og eftir miðja starfsævina, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Það eru því sterk rök fyrir því að nýta séreignarsparnað til tekjujöfnunar yfir æviskeiðið. Að auki hvetur þessi leið til aukins sparnaðar, bæði hvað varðar húsnæðissparnað en ekki síður hvað varðar séreignarsparnað, enda er mun lægra hlutfall yngri launþega en eldri sem nýtir sér séreignarúrræðið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.1     Nægjanleiki lífeyrissparnaðar – Rannsókn á Íslandi, Fjármálaeftirlitið 2014.