Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 251  —  236. mál.
Fyrirspurn


til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um jafnréttismat.

Frá Andrési Inga Jónssyni.


     1.      Hvernig framkvæmdi ráðuneytið jafnréttismat við vinnslu eftirtalinna frumvarpa sem lögð voru fram á 148. löggjafarþingi:
                  a.      frumvarps til laga um breytingu á raforkulögum og lögum um stofnun Landsnets hf. (ýmsar breytingar), á þskj. 184 (115. mál),
                  b.      frumvarps til laga um breytingu á lögum um einkaleyfi, nr. 17/1991, með síðari breytingum (EES-reglur, lyf fyrir börn o.fl.), á þskj. 394 (292. mál),
                  c.      frumvarps til laga um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008 (innheimtustarfsemi félaga í eigu lögmanna), á þskj. 552 (395. mál),
                  d.      frumvarps til laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, á þskj. 694 (484. mál)?
     2.      Hvað liggur að baki þeirri staðhæfingu í greinargerð með frumvarpinu á þskj. 184 að „sjónarmið varðandi kynjaskiptingu“ séu málinu óviðkomandi þar sem frumvarpið hafi ekki bein áhrif á einstaklinga? Hefur farið fram greining á því hvort breytingar á högum lögaðila geti leitt af sér áhrif á einstaklinga?
     3.      Hvaða greiningar á eigendum einkaleyfisumsókna, umboðsmönnum þeirra og öðrum hagsmunaaðilum liggja til grundvallar þeirri staðhæfingu í greinargerð með frumvarpinu á þskj. 394 að frumvarpið geri hvorki greinarmun á kyni né hafi neikvæð áhrif á stöðu kynjanna?
     4.      Telur ráðherra fullyrðingar um tilgang frumvarpa vera nægjanlegan grundvöll jafnréttismats, fremur en mat og greining á áhrifum þeirra, sbr. fullyrðingu í greinargerð með frumvarpinu á þskj. 694 að því sé „ekki ætlað að hafa sérstök áhrif á eitt kyn umfram önnur“?


Skriflegt svar óskast.