Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 265  —  75. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um umskurð á kynfærum drengja.


     1.      Er heimilt að framkvæma umskurð á kynfærum drengja ef ekki liggja fyrir læknisfræðilegar ástæður eða rök fyrir þörf á slíku óafturkræfu inngripi? Ef svo er, í hvaða tilvikum er það heimilt?
    Í íslenskum lögum er ekki að finna ákvæði sem beinlínis fjalla um umskurð á kynfærum drengja en af því leiðir að aðgerðir af því tagi eru þar hvorki sérstaklega heimilaðar né bannaðar. Ekki hefur, svo ráðherra sé kunnugt um, reynt á það fyrir dómstólum hvort aðgerðir sem fela í sér umskurð á kynfærum drengja samræmist íslenskum lögum.

     2.      Telur ráðherra vert að láta skoða hvort slíkt óafturkræft inngrip sem umskurður á kynfærum drengja er geti verið refsivert samkvæmt almennri refsilöggjöf?
    Ráðherra telur alls óvíst hvort umskurður á kynfærum drengja gæti fallið undir verknaðarlýsingu 218. eða 217. gr. almennra hegningarlaga. Sú lagabreyting sem var á almennum hegningarlögum með lögum nr. 83/2005 kann að veita vísbendingu um svar við þeirri spurningu. Með lagabreytingunni var sett inn í hegningarlög nýtt ákvæði, 218. gr. a, þar sem umskurði á kynfærum kvenna er jafnað við refsiverða líkamsárás. Lagafrumvarpið var þingmannamál og því miður fylgdi því engin lagatæknilegur rökstuðningur. Með þessari lagabreytingu kann því að fara að 218. gr. almennra hegningarlaga verði framvegis túlkuð þannig að hún nái ekki yfir umskurð, hvorki drengja né stúlkna. Í þessu sambandi varð áhugaverð þróun á löggjöf í Þýskalandi árið 2012 þegar sett var inn í löggjöf nýtt ákvæði sem heimilaði umskurð drengja. Fram að þeim tíma höfðu dómstólar ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að umskurður drengja væri ólögmæt líkamsárás. Þrátt fyrir setningu þessara laga hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að umskurður drengja án samráðs við þá kunni að teljast líkamsárás og réttur þeirra til sjálfsákvörðunar gangi framar trú foreldranna, einkum því eldri sem börnin eru. Íslenskir dómstólar hafa ekki enn fjallað um mál af þessum toga en endanlegt mat á lögmæti umskurðar á kynfærum drengja liggur hjá þeim.

     3.      Telur ráðherra vert að láta skoða hvort slíkt óafturkræft inngrip geti verið andstætt mannréttindaákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, m.a. um jafnræði og um friðhelgi einkalífs, ákvæðum barnaverndarlaga, laga um heilbrigðisstarfsfólk, laga um réttindi sjúklinga og laga um mannréttindasáttmála Evrópu auk barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna?
    Undanfarin ár hefur umræða um umskurð og mannréttindi aukist verulega. Málið hefur ekki komið til kasta Mannréttindadómstóls Evrópu svo kunnugt sé og hafa eftirlitsnefndir sem starfa á grundvelli mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna ekki komist að þeirri niðurstöðu að umskurður drengja teljist brot á mannréttindum þeirra. Aftur á móti má benda á að barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur lýst yfir ákveðnum áhyggjum af þeim áhrifum sem umskurður kann að hafa á drengi og hvatt til þess að þessi mál verði skoðuð frekar. Þá hafa umboðsmenn barna og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn á Norðurlöndum gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur það álit að umskurður ungra drengja feli í sér brot á réttindum barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Ráðherra hyggst halda áfram að fylgjast með þessari umræðu. Mikilvægt er að það álitaefni hvort og þá hvenær foreldrar geta tekið ákvörðun um ónauðsynleg og óafturkræf inngrip í líkama barna sé skoðað heildstætt út frá réttindum og hagsmunum barna. Á það ekki einungis við um umskurð drengja af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum heldur einnig aðgerðir á ungbörnum með ódæmigerð kyneinkenni og aðrar ónauðsynlegar aðgerðir á kynfærum barna. Þau mál eru nú þegar til skoðunar innan velferðarráðuneytisins í tengslum við frumvarp um kynrænt sjálfræði.