Ferill 255. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 273  —  255. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna réttar barna sem aðstandenda.

Flm.: Vilhjálmur Árnason, Albert Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Hildur Sverrisdóttir, Páll Magnússon, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ólafur Ísleifsson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, með síðari breytingum.
1. gr.

    Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skyldur heilbrigðisstarfsmanna vegna
réttar barna sem aðstandenda.

    Börn eiga rétt á viðeigandi ráðgjöf og stuðningi sem aðstandendur foreldris sem glímir við alvarleg veikindi eða foreldris sem andast, eftir því sem við á. Gefa skal barni kost á að tjá sig í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess.
    Heilbrigðisstarfsmanni, sem kemur beint að meðferð sjúklings, svo sem lækni, hjúkrunarfræðingi eða félagsráðgjafa, ber að huga að rétti barna og þörfum skv. 1. mgr. á eftirfarandi hátt:
     1.      Kannað verði hvort sjúklingur með geðsjúkdóma, fíknisjúkdóma eða illvíga líkamlega sjúkdóma eigi barn undir lögaldri. Eigi sjúklingur barn undir lögaldri skal heilbrigðisstarfsmaður sjá til þess eins fljótt og unnt er að rætt sé við sjúklinginn um rétt og stöðu barnsins vegna veikinda foreldrisins. Að gættri trúnaðar- og þagnarskyldu skal heilbrigðisstarfsmaður bjóða barninu og þeim sem annast barnið í veikindum foreldris samtal skv. 3. mgr. Ef við á skal viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður, í samráði við foreldri, forsjáraðila eða forráðamann, hafa frumkvæði að samvinnu við skóla barnsins skv. 22. gr. a laga um leikskóla, 17. gr. a laga um grunnskóla eða 34. gr. a laga um framhaldsskóla.
     2.      Þegar einstaklingur andast skal læknir sem gefur út dánarvottorð kanna hvort hinn látni hafi átt barn undir lögaldri. Reynist svo vera skal viðkomandi læknir eins fljótt og unnt er tilkynna andlát foreldrisins til heilsugæslunnar þar sem barnið á lögheimili. Að gættri trúnaðar- og þagnarskyldu skal heilbrigðisstarfsmaður heilsugæslunnar eins fljótt og unnt er bjóða barninu og þeim sem annast barnið samtal skv. 3. mgr. Ef við á skal viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður, í samráði við foreldri, forsjáraðila eða forráðamann, hafa frumkvæði að samvinnu við skóla barnsins skv. 22. gr. a laga um leikskóla, 17. gr. a laga um grunnskóla eða 34. gr. a laga um framhaldsskóla.
    Í samtali við barn samkvæmt þessari grein skal gætt að aldri þess og þroska varðandi þátttöku, upplýsingagjöf, leiðbeiningar, aðstoð og eftirfylgni. Sérstaklega skal hugað að því að aðstoða barnið við að fá aðgang að viðeigandi úrræðum og veita því upplýsingar um lagalega stöðu þess, svo sem rétt þess til umgengni samkvæmt barnalögum við nána vandamenn þess foreldris sem glímir við alvarleg veikindi eða foreldris sem andast eða aðra nákomna barni, og hvaða félagsleg úrræði eru til staðar.
    Foreldri, forsjáraðili eða forráðamaður barns á rétt á reglubundnum viðtölum við heilbrigðisstarfsmann. Markmið þeirra viðtala er aðstoð við að styðja barnið og treysta velferð þess.
    Söfnun og meðferð upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þessa með reglugerð.

2. gr.


    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Sérreglur um sjúk börn og börn sem aðstandendur.    

II. KAFLI
Breyting á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, með síðari breytingu.
3. gr.

    Á eftir 1. mgr. 13. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heilbrigðisstarfsmaður skal huga sérstaklega að rétti og stöðu barna sem aðstandenda, sbr. 27. gr. a laga um réttindi sjúklinga.

III. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.
4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. a laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Ef foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Umgengni við aðra þegar foreldri er á lífi.

5. gr.


    Á eftir 46. gr. a laganna kemur ný grein, 46. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Umgengni við aðra þegar annað foreldra barns er látið eða bæði.


    Ef annað foreldra barns er látið eða bæði á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða foreldra eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.
    Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. og 3.–5. mgr. 46. gr. eiga við um umgengni skv. 1. mgr.
    Sýslumaður getur boðið eftirlifandi foreldri og nánum vandamönnum hins látna foreldris eða öðrum nákomnum barni ráðgjöf skv. 33. gr. eða ákveðið að sátta verði leitað milli aðila eftir ákvæði 33. gr. a.
    Þegar sýslumanni berst tilkynning um andlát sem ber með sér að hinn látni eigi barn undir lögaldri skal hann kanna tengsl barns við nána vandamenn þess eða aðra nákomna því. Sýslumaður skal vekja athygli á rétti barnsins og gefa barni og foreldri, forsjáraðila eða forráðamanni þess tækifæri til að mæta á fund sýslumanns á tilteknum tíma. Sýslumaður skal hafa samráð við barn eftir því sem aldur og þroski þess gefur tilefni til sem og við foreldri, forsjáraðila eða forráðamann þess, og skal hann leiðbeina þeim um inntak umgengnisréttar skv. 1. mgr. og um réttaráhrif hans. Barn sem er 15 ára eða eldra getur sjálft gert kröfu um umgengni.

6. gr.


    Á eftir orðunum „skv. 46. gr. a“ í 7. mgr. 47. gr. laganna kemur: og 46. gr. b.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um leikskóla, nr. 90/2008, með síðari breytingum.
7. gr.

    Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Stuðningur við börn sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri.


    Leikskólabörnum, sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri eða missa foreldri, skal tryggður viðeigandi stuðningur og ráðgjöf innan leikskólans í samvinnu við heilbrigðisstofnun þar sem foreldrið er til meðferðar eða sem hefur móttekið tilkynningu um andlát foreldris og foreldra eða aðra þá sem annast barnið. Gefa skal barni kost á að tjá sig í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess.
    Söfnun og meðferð upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þessa í reglugerð.

V. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.
8. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Stuðningur við nemendur sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri.


    Grunnskólabörnum, sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri eða missa foreldri, skal tryggður viðeigandi stuðningur og ráðgjöf innan grunnskólans í samvinnu við heilbrigðisstofnun þar sem foreldrið er til meðferðar eða sem hefur móttekið tilkynningu um andlát foreldris og foreldra eða aðra þá sem annast barnið. Gefa skal barni kost á að tjá sig í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess.
    Söfnun og meðferð upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þessa í reglugerð.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum.
9. gr.

    Á eftir 34. gr. laganna kemur ný grein, 34. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Stuðningur við nemendur sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri.


    Nemendum í framhaldsskóla, sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri eða missa foreldri, skal tryggður viðeigandi stuðningur og ráðgjöf innan framhaldsskólans í samvinnu við heilbrigðisstofnun þar sem foreldrið er til meðferðar eða sem hefur móttekið tilkynningu um andlát foreldris og foreldra eða aðra þá sem annast barnið og nemandann sjálfan hafi hann orðið lögráða eftir að stuðningur hófst. Gefa skal barni kost á að tjá sig í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess.
    Söfnun og meðferð upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þessa í reglugerð.

10. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 148. löggjafarþingi (665. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú lagt fram að nýju og hefur tekið þónokkrum breytingum.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var lögfestur hér á landi með lögum nr. 19/2013. Í 8. gr. samningsins skuldbinda aðildarríki sig til að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þ.m.t. fjölskyldutengslum.
    Hér á landi hefur lítið verið hugað að rétti barna sem eiga foreldri sem glímir við alvarleg veikindi eða barna sem missa foreldri, annað eða bæði, vegna sjúkdóms eða af slysförum. Staða þessara barna hefur á hinn bóginn verið í brennidepli í nágrannalöndum okkar. Þó var gerð rannsókn á stöðu þessara barna að frumkvæði Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra, og var rannsóknin undir forustu dr. Sigrúnar Júlíusdóttur með stuðningi Ólafar Nordal, þáverandi innanríkisráðherra. Árangur rannsóknarinnar er þrjár skýrslur sem gefnar voru út 2015, 2017 og 2018 í ritröð Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd. Rannsóknin sýnir að brotalamir eru bæði á upplýsingum og stuðningi við börn í þeim aðstæðum í heilbrigðis-, skóla- og félagsþjónustu. Rannsóknin náði til fagfólks í heilbrigðisþjónustu, skólastjórnenda og reynslu fjölskyldnanna sjálfra þar sem foreldri hefur greinst með krabbamein og látist af völdum þess. Fram kom að ekki er gefinn gaumur að þörfum barnanna, þau eru afskipt í veikindum foreldrisins og þurfa oft að þola kunnáttuleysi og klaufaskap í viðmóti hinna fullorðnu. Það átti einkum við um heilbrigðisstarfsfólk og í skólanum.
    Þá eru þess dæmi að eftir andlát foreldris sé þess ekki gætt að viðhaldið sé fjölskyldutengslum barnsins við nána vandamenn hins látna foreldris eða aðra nákomna barni. Það hefur jafnvel komið fyrir að börn sem misst hafa foreldri sitt hafa verið ættleidd frá fjölskyldu hins látna foreldris án þess að nánir aðstandendur þess hafi vitað af því eða haft nokkuð um það að segja. Þetta ranglæti í löggjöf hefur nú verið leiðrétt með lögum nr. 35/2018, um breytingu á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum (umsögn nákominna).
    Betur má ef duga skal því það er á fleiri sviðum sem tryggja þarf rétt þessa hóps barna. Þá skal tekið fram að það er réttur barnsins að viðhalda tengslum og þekkja uppruna sinn en rannsóknir sýna að það er liður í að treysta velferð barnsins. Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að áföll í bernsku, eins og það að missa foreldri, geta haft afdrifarík áhrif á barnið til langframa, heilsu þess, námsframvindu og framtíð þess sem samfélagsþegns. Allur stuðningur við börn sem lenda í þessari stöðu er því mikilvægur og nauðsynlegur fyrir hvert og eitt þeirra. Um leið hefur stuðningur við börn í þessum aðstæðum almenn forvarnaráhrif, dregur úr kostnaði og líkum á langtímaáhrifum og getur þannig stuðlað að virkri og farsælli samfélagsþátttöku þeirra til framtíðar.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi sjúklinga, lögum um heilbrigðisstarfsmenn, barnalögum og lögum um öll skólastigin, þ.e. lögum um leikskóla, lögum um grunnskóla og lögum um framhaldsskóla, til að tryggja að börnum sem missa foreldri, vegna sjúkdóms eða vegna andláts, sé tryggður viðeigandi stuðningur og ráðgjöf í þessum kringumstæðum og að virtur sé m.a. réttur þeirra til umgengni við nána vandamenn hins látna foreldris eða aðra nákomna barni.
    Í Noregi er kveðið á um rétt barna sem aðstandenda í lögum um heilbrigðisstarfsmenn (helsepersonelloven) og lögum um sérhæfða heilbrigðisþjónustu (spesialist-helsetjenesteloven), en í lögunum er m.a. kveðið á um skyldu heilbrigðisstarfsmanna til að tryggja réttindi þessara barna sem aðstandenda sem og skyldu stofnana sem bjóða upp á sérhæfða heilbrigðisþjónustu til að hafa starfsmann sem ber ábyrgð á þessum málaflokki. Með þeim lagabreytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu er fetað í fótspor helstu nágrannalanda sem mörg hver hafa sett lagaákvæði um börn sem aðstandendur og með því tryggt börnum sjálfstæðan rétt til stuðnings, ráðgjafar og umgengni í þessum kringumstæðum.
    Jafnframt er með þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til leitast við að tryggja að ákveðnir verkferlar fari í gang hjá tilgreindum aðilum og tryggja að börn í þessari stöðu verði upplýst um lagalega og félagslega stöðu sína og fái þá þjónustu og þann stuðning sem lagabreytingunum er ætlað að tryggja þeim.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á VI. kafla laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, þannig að við kaflann bætist ný grein, 27. gr. a, þar sem fjallað er um að börn eigi rétt á viðeigandi ráðgjöf og stuðningi sem aðstandendur foreldris sem glímir við alvarleg veikindi eða foreldris sem andast. Með greininni er leitast við að mynda ferla hjá heilbrigðisstofnunum sem eiga að tryggja það að barn sem á langveikt foreldri eða sem missir foreldri fái ráðgjöf og stuðning og að þess sé m.a. gætt að barn sé upplýst um rétt sinn til umgengni við fjölskyldu hins látna foreldris. Þá er markmið ákvæðisins að tryggja ákveðna eftirfylgni með barni með hliðsjón af þörfum þess. Ákveðnar skyldur eru með þessu lagðar á herðar heilbrigðisstarfsmönnum.
    Gert er ráð fyrir að þegar sjúklingur glímir við geðsjúkdóma, fíknisjúkdóma eða illvíga líkamlega sjúkdóma beri heilbrigðisstarfsmanni sem kemur beint að meðferð sjúklingsins, svo sem lækni, hjúkrunarfræðingi eða félagsráðgjafa, að kanna hvort sjúklingur eigi barn undir lögaldri. Komi í ljós að sjúklingur á barn undir lögaldri ber þessum heilbrigðisstarfsmanni að sjá til þess að rætt sé við sjúklinginn um rétt og stöðu barnsins, m.a. um þörf þess til þátttöku, upplýsinga, leiðbeininga og aðstoðar vegna veikinda foreldrisins. Þá er og gert ráð fyrir að viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður hafi frumkvæði að samvinnu við skóla barnsins til að tryggja að barnið fái þann stuðning sem það á rétt á samkvæmt þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til á lögum um leikskóla, lögum um grunnskóla og lögum um framhaldsskóla. Samvinna heilbrigðisstarfsmanna við viðkomandi skólastofnanir á jafnframt að tryggja eftirfylgni í ákveðinn tíma. Gert er ráð fyrir að ráðherra útfæri framkvæmdina nánar í reglugerð, svo sem til hvaða sjónarmiða heilbrigðisstarfsmaður skuli horfa þegar lagt er mat á það hversu mikla eftirfylgni barn þarf og hversu lengi hennar er þörf.
    Með sama hætti gerir ákvæðið ráð fyrir að þegar foreldri andast skuli læknir, sem gefur út dánarvottorð, kanna hvort hinn látni á barn undir lögaldri. Komi í ljós að svo er á læknirinn eins fljótt og unnt er að tilkynna andlát foreldrisins til heilsugæslunnar þar sem barnið er búsett og heilbrigðisstarfsmaður viðkomandi heilsugæslu á eins fljótt og unnt er að sjá til þess að rætt sé við barnið, í samráði við foreldra eða forráðamann, og því tryggður stuðningur og ráðgjöf, þar á meðal að barni sé kynntur réttur þess til umgengni jafnt við fjölskyldu hins látna foreldris og þess sem eftir lifir. Heilbrigðisstarfsmaður heilsugæslunnar skal enn fremur hafa frumkvæði að framangreindri samvinnu við skóla barnsins og tryggja eftirfylgni með barninu. Gert er ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um framkvæmd þessa í reglugerð.
    Þá er jafnframt mikilvægt að foreldri, forsjáraðila eða forráðamanni verði boðinn aðgangur að sérhæfðri þjónustu í þessum aðstæðum með það að markmiði að stuðla að velferð barnsins.
    Ljóst er að framangreindar upplýsingar um foreldri sem glímir við alvarleg veikindi eða andlát foreldris geta flokkast sem viðkvæmar persónuupplýsingar sem og upplýsingar er varða barnið sjálft, svo sem um heilbrigðisþjónustu sem það fær. Því er áréttað að samvinna þarf að vera við foreldra eða forráðamenn og barn þarf að fá tækifæri til að tjá sig í samræmi við aldur þess og þroska sem og að söfnun og meðferð persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. er lagt til að breytt verði 13. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, þannig að á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein.
    Í hinni nýju málsgrein er áréttað að heilbrigðisstarfsmaður skuli huga sérstaklega að rétti og stöðu barna sem aðstandenda og síðan vísað í þá nýju grein sem lagt er til að komi í lög um réttindi sjúklinga. Þetta er gert til að leitast við að tryggja að þeir ferlar sem frumvarpið leggur til virki sem skyldi. Með viðbótinni er einnig áréttað hve mikilvægu hlutverki heilbrigðisstarfsmenn gegna í þessu sambandi.

Um 4. gr.


    Í III. kafla frumvarpsins eru lagðar til tvær breytingar á barnalögum, nr. 76/2003. Annars vegar er í 4. gr. lögð til breyting á 1. mgr. 46. gr. a laganna. Sú breyting felur í sér að felld er úr greininni umfjöllun um börn sem misst hafa foreldri. Ákvæðið fjallar því einungis um rétt barnsins til umgengni við aðra ef foreldri sem er á lífi er ókleift að rækja umgengnisskyldur við barn eða foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni. Rétt þykir hins vegar að um umgengni barns við nána vandamenn látins foreldris eða aðra nákomna barni sé fjallað í sérstakri lagagrein, sbr. athugasemd við 5. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að á eftir 46. gr. a laganna komi ný grein, 46. gr. b, sem fjallar sérstaklega um rétt og stöðu barna sem misst hafa annað foreldri sitt eða bæði. Áréttað er að í þessum tilvikum er það réttur barnsins að viðhalda tengslum og þekkja uppruna sinn.
    Í 1. mgr. er fjallað um rétt barnsins til umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni ef annað foreldra barns er látið eða bæði. Skv. 2. mgr. gilda að mestu sömu ákvæði um skilgreiningu og framkvæmd umgengnisréttar og gilda þegar foreldrar eiga í hlut, t.d. um samninga og staðfestingu þeirra.
    Í 3. mgr. er eftirlifandi foreldri barns og nánum vandamönnum tryggður aðgangur að ráðgjöf og sáttameðferð.
    Í 4. mgr. er fjallað um það hvernig sýslumaður skuli bregðast við þegar dánartilkynning berst um einstakling sem ber með sér að hinn látni á barn undir lögaldri. Í þeim tilvikum ber sýslumanni að hafa frumkvæði að því að vekja athygli á rétti barnsins og gefa barni og foreldri, forsjáraðila eða forráðamanni tækifæri til að mæta á fund sýslumanns. Ákvæðið kveður á um skyldu sýslumanns til að kanna hver séu tengsl barns við nána vandamenn foreldris eða aðra nákomna í samráði við foreldri, forsjáraðila eða forráðamann. Í því felst að sýslumaður kanni jafnframt hvort barnið fái notið réttar síns. Þá er lögð skylda á sýslumann til að kynna inntak umgengnisréttar skv. 5. gr. frumvarpsins og réttaráhrif hans. Mikilvægt er að sýslumaður tryggi að rætt sé við barn og þann sem sinnir barninu eftir andlát foreldris og veiti þeim nauðsynlega ráðgjöf um lagaleg réttindi barnsins, svo sem um mikilvægi þess að tryggja rétt barnsins til að þekkja uppruna sinn, t.d. með því að viðhalda tengslum við nána vandamenn eða aðra nákomna. Gert er ráð fyrir að nánari útfærsla á framkvæmd þessa verði í reglugerð.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 7.–9. gr.


    Í 7.–9. gr. eru lagðar til breytingar á lögum um leikskóla, nr. 90/2008 (7. gr.), lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (8. gr.), og lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (9. gr.).
    Breytingarnar eru sambærilegar að orðalagi. Í öllum tilvikum er gert ráð fyrir að á viðeigandi stað í hverjum lögum komi ný lagagrein sem tryggi nemendum á viðeigandi skólastigi, sem eiga langveikt eða deyjandi foreldri eða sem missa foreldri, viðeigandi ráðgjöf og stuðning innan þess skóla sem þeir sækja. Hér er helst um að ræða að börn séu upplýst um lagalega stöðu sína og hvaða félagsleg úrræði séu til staðar og að barnið sé aðstoðað við að fá aðgang að viðeigandi úrræðum, eftir því sem við á, og þannig tryggt að hægt sé að mæta þörfum barnsins. Sá stuðningur skal vera í samvinnu við heilbrigðisstofnunina þar sem foreldrið er til meðferðar eða sem hefur móttekið tilkynningu um andlát foreldris, og foreldra eða aðra þá sem annast barnið. Ef barn er í framhaldsskóla og hefur orðið lögráða í ferlinu er gert ráð fyrir að stuðningurinn verði í samráði við nemandann sjálfan. Í öllum tilvikum er þó gert ráð fyrir að barn fái að tjá skoðanir sínar í samræmi við aldur og þroska. Að lokum er gert ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um framkvæmd þessa í reglugerð.
    Með þessum breytingum er leitast við að tryggja að skólakerfið komi með virkum hætti að stuðningi við börn í þessum kringumstæðum því rannsókn sú sem gerð hefur verið hér á landi sýnir með áþreifanlegum hætti að það er mjög nauðsynlegt að börn fái stuðning í skóla sínum.