Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 274  —  256. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um stöðu barna tíu árum eftir hrun.


Flm.: Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Andrés Ingi Jónsson, Þorsteinn Víglundsson, Willum Þór Þórsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Inga Sæland, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Þór Ólafsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp til þess að kanna með heildrænum hætti stöðu barna á Íslandi tíu árum eftir hrun. Starfshópurinn hafi samráð við umboðsmann barna, Barnaverndarstofu, UNICEF á Íslandi, Velferðarvaktina, Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur félagasamtök og stofnanir sem málefnið snertir. Starfshópurinn skili skýrslu til ríkisstjórnarinnar innan sex mánaða frá skipun starfshópsins en skýrslan verði kynnt Alþingi eigi síðar en fyrir lok 149. löggjafarþings.

Greinargerð.

    Í athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna (CRC/C/ISL/CO/3-4) er m.a. komið inn á áhrif efnahagshrunsins á börn og fjölskyldur þeirra, sérstaklega efnaminni fjölskyldur. Jafnframt er í athugasemdunum lögð áhersla á mikilvægi þess að með vænkandi hag ríkissjóðs yrði leiðréttur sá niðurskurður sem var á sviði velferðar-, heilbrigðis- og menntamála í kjölfar hrunsins. Nú þegar tíu ár eru liðin frá efnahagshruninu er ástæða til að kanna hvort börn hafi fengið og notið bætts efnahagsástands landsins en ekki liggur fyrir greining á stöðu þeirra barna sem eru fædd á árunum 1990–2011. Þá má þess geta að barnaréttarnefndin hefur ítrekað bent á að það skorti heildstætt kerfi um söfnun, vinnslu og greiningu gagna um stöðu barna hér á landi, enda er slík gagnasöfnun forsenda þess að raunverulega sé hægt að vinna að auknu jafnræði meðal barna á Íslandi.
    Í upphafi hrunsins var mikið rætt um möguleg langtímaáhrif þess á börn. Því er full ástæða til að skoða stöðu barna á þessu tíu ára tímabili, 2008–2018, og meta áhrif hrunsins á stöðu þeirra og líðan, svo sem. út frá félagslegum, sálrænum og efnahagslegum áhrifum, sem og hvar þjónusta við börn var skorin niður og hvort úrbætur hafi átt sér stað á þessu sviði. Slík könnun nær jafnframt til viðtækra þátta og þarf sérstaklega að hafa í huga ýmsar breytur, svo sem kyn, uppruna, fötlun, efnahagslega stöðu, búsetu, fjölskyldumynstur o.s.frv. Mikilvægt er að leggja mat á áhrif hrunsins á börn og grundvallarkerfi þjóðfélagsins, m.a. í velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfinu. Aðgerðir samkvæmt þingsályktunartillögu þessari eru jafnframt mikilvægt framlag til þess að nýta tímamótin þegar tíu ár eru liðin frá hruni til að safna saman reynslu sem fengist hefur á framangreindu tímabili og til þess að líta fram á veginn og meta hvort, og þá hvernig, áhrif hrunsins geti mögulega haft áhrif á líf þessarar kynslóðar, þ.e. barna fæddra á árunum 1990–2011, t.d. innan skólasamfélagsins og vinnumarkaðarins.
    Til eru ýmsar rannsóknir og greiningar sem gerðar hafa verið á stöðu og líðan barna á undanförnum árum, sem þó virðist aldrei hafa verið lagt heildstætt mat á með þeim hætti sem hér er lagt til. Áhersla er lögð á að við gerð skýrslunnar verði m.a. haft samráð við umboðsmann barna, Barnaverndarstofu, Samband íslenskra sveitarfélaga, Velferðarvaktina, UNICEF á Íslandi og önnur félagasamtök og stofnanir sem koma að málefninu. Þá verði m.a. horft til rannsókna um hagi og líðan barna og ungmenna á vegum rannsóknamiðstöðvarinnar Rannsókn og greining, alþjóðlegrar rannsóknar um heilsu og lífskjör skólanema (e. Health Behaviors in School-Aged Children (HBSC), skýrslu UNICEF frá 2016 um börn sem líða efnislegan skort, rannsókna og skýrslna Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF) við Háskóla Íslands, upplýsinga frá Hagstofu Íslands, kannana og athugana umboðsmanns barna og Barnaverndarstofu og skýrslna eða upplýsinga sem hafa farið fram á vegum velferðarsviða sveitarfélaga, svo sem rannsóknir velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um hagi og líðan grunnskólanemenda.
    Lagt er til að ríkisstjórninni verði falið að skipa starfshóp sem hafi samráð við helstu stofnanir og félagasamtök á málefnasviðinu. Þá er lagt til að starfshópurinn skili skýrslu innan sex mánaða sem verði kynnt Alþingi eigi síðar en fyrir lok 149. löggjafarþings.