Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 282  —  264. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum (réttur til sambúðar með maka á öldrunarstofnunum).

Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Ingibjörg Þórðardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


1. gr.

    Við 14. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Heimilismaður sem dvelur til langframa á stofnun fyrir aldraða skal eiga kost á að vera samvistum við maka eða sambúðarmaka sinn þar þegar aðstæður leyfa. Maki skal greiða sanngjarna leigu vegna veru sinnar og greiða þann kostnað sem af dvöl hans hlýst. Maki skal eftir atvikum hafa aðgang að þjónustu stofnunarinnar gegn gjaldi. Maki samkvæmt þessum tölulið er undanþeginn færni- og heilsumati og skal eiga lögheimili utan stofnunarinnar. Maki eða sambúðarmaki getur dvalið á öldrunarstofnuninni í allt að átta vikur eftir fráfall heimilismanns. Á þeim tíma skal meta hvort forsendur eru fyrir áframhaldandi dvöl á stofnuninni og fellur dvalarréttur niður nema niðurstaða færni- og heilsumats skv. 15. gr. verði að forsendur séu fyrir áframhaldandi búsetu og öðlast þá viðkomandi sjálfstæðan rétt sem heimilismaður á stofnun fyrir aldraða.
    Ráðherra setur reglugerð um dvöl maka og sambúðarmaka á öldrunarstofnunum þar sem m.a. skal tilgreina greiðslur, greiðslufyrirkomulag, réttindi, tryggingar og kostnaðarþátttöku ríkisins.

2. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Enginn getur dvalið til langframa í hjúkrunarrými eða dvalarrými án undangengins mats færni- og heilsufarsnefndar á þörf fyrir slíka dvöl nema maki eða sambúðarmaki heimilismanns skv. 14. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp sama efnis hefur tvívegis verið flutt áður, annars vegar á 145. löggjafarþingi (352. mál) og hins vegar á 146. löggjafarþingi (185. mál). Frumvarp svipaðs eðlis var flutt á 148. löggjafarþingi (178. mál). Málin náðu ekki fram að ganga og er þetta mál því lagt fram.
    Frumvarpið snýr að mikilvægum réttindum eldra fólks. Vel er þekkt úr umræðunni hve sárt það getur verið fyrir eldri hjón eða sambúðarfólk sem þarf að skiljast að þegar heilsa annars makans brestur, oft eftir áratuga samvistir. Því er hér leitast við að leysa úr þeim vanda eftir því sem hægt er og taka á þeim álitaefnum sem upp kunna að koma í því sambandi.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að íbúar sem eiga heima á öldrunarstofnunum geti verið áfram samvistum við maka sinn. Markmið frumvarpsins er að gera fólki mögulegt að búa áfram með maka sínum sem hefur af heilsufarsástæðum þurft að flytjast á heimili sem krefst færni- og heilsumats til búsetu. Með samþykkt frumvarpsins yrði ekki lengur áskilið að heilbrigður eða heilbrigðari maki byggi annars staðar en hinn veikari. Frumvarpinu er þannig ætlað að koma í veg fyrir þvinguð sambúðarslit.
    Samkvæmt gildandi lögum getur enginn búið á hjúkrunar- eða dvalarheimili án undangengins færni- og heilsumats. Þess vegna er nauðsynlegt að veita sérstaka undanþágu frá því ákvæði vegna búsetu maka og er gert ráð fyrir því í frumvarpinu. Einnig er nauðsynlegt að gera í lögunum ráð fyrir því hvernig staðið skuli að þessu auk þess sem til þurfa að koma reglugerðarákvæði um búsetuna, þ.m.t. aðgengi að þjónustu, kostnað, réttindi, skyldur og fleira. Þar sem nauðsynlegt er að ekki sé um skilgreinda varanlega búsetu að ræða er mikilvægt að einnig sé gert ráð fyrir að sambúðarmakinn eigi lögheimili annars staðar en á viðkomandi dvalar- eða hjúkrunarheimili.
    Af augljósum ástæðum má ætla að heppilegast væri að sambúðarmakinn hefði að öðru jöfnu aðgang að þjónustu heimilisins, svo sem hjúkrunar-, læknis- og sjúkraþjálfunarþjónustu.
    Við fráfall maka þarf einnig að vera ljóst að áframhaldandi búseta sambúðarmakans gerist ekki sjálfkrafa, heldur eftir atvikum með sama hætti og aðrir íbúar þurfa að lúta, þ.e. með færni- og heilsumati. Í núverandi framkvæmd er gert ráð fyrir að eldri einstaklingar geti dvalist í hvíldar- eða endurhæfingarinnlögn í allt að átta vikur á ári og því gert ráð fyrir því í frumvarpinu að eftir atvikum geti sambúðarmaki dvalist í allt að þann tíma eftir fráfall maka án þess að færni- eða heilsumat liggi fyrir.
    Þar til tryggt hefur verið að allir íbúar á framangreindum heimilum geti búið í einbýli, kjósi þeir það, verður ekki fortakslaust hægt að verða við óskum um sambýli með þeim hætti sem getur í frumvarpinu og því er orðalag fyrri efnismálsliðar 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins í samræmi við það. Þá er einnig líklegt að á lokuðum deildum eða heimilum þar sem einbýli eru lítil eða þröng geti reynst örðugt að verða við óskum sambúðarmaka, nema þar sem svo háttar til að til séu sérstök rými hugsuð til þessara þarfa.