Ferill 267. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.         
Prentað upp.

Þingskjal 289  —  267. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um skipan starfshóps er leggi til breytingar til að auka hlutfall bólusetninga barna.


Flm.: Hildur Sverrisdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Óli Björn Kárason, Þórunn Egilsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Ólafur Ísleifsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Willum Þór Þórsson, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson, Björn Leví Gunnarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Valgerður Gunnarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Teitur Björn Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Páll Magnússon, Karl Gauti Hjaltason, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem greini hvaða breytingar er hægt að gera til að auka hlutfall bólusetninga barna og komi með tillögur þar um. Sérstaklega verði hugað að úrbótum á verklagi við framkvæmd og utanumhald bólusetninga á heilsugæslustöðvum, svo sem við upplýsingagjöf og eftirfylgni. Greint verði hvort forsendur séu fyrir nauðsynlegum laga- eða reglugerðarbreytingum þess efnis. Starfshópurinn leggi greinargerð sína og tillögur fyrir ráðherra eigi síðar en 15. apríl 2019.
    Ráðherra kynni tillögurnar fyrir Alþingi eigi síðar en 1. maí 2019.

Greinargerð.

    Síðastliðin ár hefur komið í ljós að tilefni er til að huga að málum sem tengjast ónæmisaðgerðum á börnum og meta þörf fyrir aðgerðir og úrbætur. Má ætla að rót þess liggi einkum í því að smitsjúkdómar hafa verið að gera vart við sig að nýju víða á Vesturlöndum.
    Landlæknisembættið hefur lagt á það meiri áherslu upp á síðkastið en áður var gert að halda saman tölum um ónæmisaðgerðir á börnum á landsvísu og birta þær. Síðasta skýrsla embættisins um þetta efni kom út í sumar og ber heitið Þátttaka í almennum bólusetningum barna á Íslandi 2017. Uppgjör 2018. Hafa þessar upplýsingar orðið tilefni til fyrirspurna og umræðna um bólusetningar. Í skýrslunni kemur fram að ef þátttaka í bólusetningum minnki enn frekar megi búast við að hér á landi muni koma upp sjúkdómar sem ekki hafi sést um árabil og að sérstaklega séu mislingar áhyggjuefni.
    Á vef embættis landlæknis kemur fram að höfnun bólusetninga sé fremur sjaldgæf hér á landi og að miklu algengara sé að skoðun í ung- og smábarnavernd falli niður af óljósum orsökum. Í viðtali við sóttvarnalækni í lok ágúst sl. kom fram að verið sé að reyna að bæta innköllunarkerfi í tengslum við bólusetningar, sérstaklega í 12 mánaða, 18 mánaða og 4 ára bólusetningunum. Þá kemur fram að sóttvarnalæknir telji að foreldrar gleymi að mæta með börn sín í bólusetningar fremur en að þeir ætli meðvitað ekki að mæta með þau. Hann telur að sá hópur fólks sem er á móti því að bólusetja börnin sín sé ekki stór hér á landi og bendir t.d. á að bólusetningar barna 3 og 5 mánaða sé yfir 95%.
    Í umræðum hefur komið fram að hluti vandans sé ekki síst sá að það farist fyrir hjá foreldrum að láta bólusetja börn sín af andvaraleysi eða öðrum ástæðum frekar en vegna vísvitandi ákvarðana. Tillaga þessi er viðleitni til þess að gerðar verði úrbætur innan heilsugæslukerfisins til að tryggja að sem flestir ljúki öllum nauðsynlegum bólusetningum barna sinna með þeim hætti sem landlæknisembættið ráðleggur svo viðhalda megi hjarðónæmi.