Ferill 65. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 296  —  65. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um málefni kirkjugarða.


     1.      Hyggst ráðherra standa við samkomulag sem gert var árið 2005 við kirkjugarðaráð um fjárveitingar til kirkjugarða?
    Frá árinu 2009 sættu mörg verkefni sem fjármögnuð eru með fjárveitingum úr ríkissjóði skerðingum. Á það einnig við um samkomulag ríkisins við kirkjugarðaráð og er það gert í samræmi við 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins frá 2005, þar sem kveðið er á um að allar fjárhæðir séu háðar ákvörðun Alþingis um fjárveitingar á fjárlögum. Samkomulagið hefur að öðru leyti verið virt og upp reiknað í samræmi við efni þess. Fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 gerir ekki ráð fyrir leiðréttingum á einingarverðum samkomulagsins.

     2.      Telur ráðherra þörf á að endurskoða gjaldalíkan sem samkomulagið er reist á? Telji ráðherra svo vera, hvaða þáttum líkansins telur ráðherra þörf á að breyta og með hvað að markmiði?
    Ráðuneytið hefur haft til skoðunar greiðslur kirkjugarðaráðs til presta vegna þjónustu þeirra við útfarir. Niðurstaða liggur ekki fyrir og er háð samkomulagi við kirkjuna sem nú er unnið að.

     3.      Telur ráðherra unnt að ná hagræðingu í rekstri kirkjugarðaráðs og kirkjugarðanna og ef svo er, hvernig?
    Almennt er talið svigrúm til hagræðingar í öllum rekstri á hverjum tíma. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir slíkri hagræðingu á flestum sviðum í fjárveitingum hins opinbera til einstakra verkefna á komandi árum. Þeim sem bera ábyrgð í rekstri eða útfærslu einstakra verkefna er eftirlátið að útfæra hagræðinguna og er ekki gert ráð fyrir að hugmyndir að slíku komi frá ráðuneytunum.