Ferill 78. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 301  —  78. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Nirði Sigurðssyni um uppbyggingu náms og húsnæðis á Reykjum í Ölfusi.


     1.      Hver er stefna ráðherra um uppbyggingu náms á garðyrkjubrautum við Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi?
    Námskrár sex námsbrauta í garðyrkju við Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi voru staðfestar af ráðherra 20. júlí 2018 og birtar í Stjórnartíðindum með auglýsingu nr. 757/2018. Þessar námsbrautir eru blómaskreytingar, garð- og skógarplöntuframleiðsla, lífræn ræktun matjurta, skógrækt, skrúðgarðyrkja og ylrækt. Allar þessar brautir eru með námslok á þriðja hæfniþrepi og einni braut, skrúðgarðyrkju, lýkur með sveinsprófi enda er það löggilt iðngrein.

     2.      Hefur af hálfu Landbúnaðarháskólans verið mótuð stefna um uppbyggingu náms á Reykjum í Ölfusi og ef svo er, hver er hún?
    Landbúnaðarháskólinn hefur í samstarfi við viðkomandi atvinnugreinar, unnið að endurskoðun námskráa garðyrkjubrauta og niðurstaða þeirrar vinnu endurspeglast í nýsamþykktum námskrám skólans, sbr. svar við 1. lið hér að framan. Landbúnaðarháskólinn leggur áherslu á að áframhaldandi uppbygging náms og aðstöðu garðyrkjunáms verði á Reykjum í Ölfusi.

     3.      Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að auknu fé verði varið í viðhald fasteigna og uppbyggingu húsnæðis á Reykjum?
    Árið 2017 var 70 millj. kr varið til framkvæmda á Reykjum, 25 millj. kr árið 2018 og áætlað er að árið 2019 fari 30 millj. kr í framkvæmdir. Vinnu við endurbætur á skrifstofuálmu skólans er að ljúka þessa dagana, brugðist hefur verið við athugasemdum Brunavarna Árnessýslu og fyrirhugað er að fara í klæðningu á vesturvegg skólans og þaki á skrifstofu á næstu vikum. Vinna við hönnun og útboð á endurbótum á garðskála skólans er í fullum gangi og miðað er við að hafist verði handa við þær framkvæmdir næsta sumar.