Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 306  —  275. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um kolefnismerkingu á kjötvörur.


Flm.: Þorgrímur Sigmundsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að teknar verði upp upprunamerkingar á kjötvörur með skýrari hætti en nú er, þar sem m.a. komi fram upplýsingar um kolefnisfótspor viðkomandi vöru. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir stöðu málsins fyrir lok apríl 2019.

Greinargerð.

    Nýlega kom út skýrsla loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem varpar ljósi á þær miklu áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir í loftslagsmálum. Þar kemur fram að bregðast þurfi við loftslagsbreytingum strax og vinna markvisst að því að afstýra því að meðalhiti á jörðinni hækki um meira en 1,5 gráður með hörmulegum afleiðingum fyrir lífríkið. Ljóst er því að öll ríki þurfa að bregðast við af krafti og það strax. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en markmiðið með henni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Stefnan er metnaðarfull en betur má ef duga skal og nauðsynlegt að skoða alla kosti við að minnka kolefnisfótsporið.
    Kjötvörur eru fluttar hingað hvaðanæva úr heiminum með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Ljóst er að kolefnisfótspor kjöts sem flutt er t.d. frá Nýja-Sjálandi er mun stærra en kjöts sem er flutt í búðir frá framleiðendum innan lands. Á síðari árum hafa kröfur neytenda um upplýsingar um vöru stóraukist, t.d. um innihald vöru og uppruna hennar. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að neytendur fái upplýsingar um kolefnisfótspor vörunnar, þ.e. hve mikil loftslagsáhrif framleiðsla og flutningur á viðkomandi vöru hefur haft. Þar með getur neytandi tekið upplýsta ákvörðun og valið umhverfisvænni kost kjósi hann svo. Flutningsmenn benda á að ein af aðgerðum í aðgerðaáætlun dönsku ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er að hefja vitundarvakningu meðal fólks um áhrif matvælaframleiðslu á loftslagsmál. Í því felst að matvæli verða merkt með límmiða þar sem fram koma áhrif vörunnar á loftslagið. Þá hafa skráningarfyrirtæki í Svíþjóð í samstarfi við sænsku bændasamtökin búið til merkingarkerfi fyrir matvörur sem sýnir hvaða áhrif framleiðslan hefur haft á loftslagsmál.