Ferill 277. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 308  —  277. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um opinbera háskóla og lögum um háskóla.

Flm.: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Óli Björn Kárason,
Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir,
Teitur Björn Einarsson, Vilhjálmur Árnason, Páll Magnússon.


I. KAFLI
Breyting á lögum um háskóla, nr. 63/2006, með síðari breytingum.
1. gr.

    Á eftir orðinu ,,stúdentsprófi“ í 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: sveinsprófi.

II. KAFLI
Breyting á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008.
2. gr.

    Á eftir orðinu ,,stúdentsprófi“ tvívegis í 2. mgr. og í a-lið 3. mgr.18. gr. laganna kemur: sveinsprófi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla að nemendur sem hafa lokið sveinsprófi eigi þess kost að fá inngöngu í háskóla. Frumvarpinu er ætlað að gera iðn-, verk- og starfsnámi jafnhátt undir höfði og bóknámi í löggjöf um inntökuskilyrði í háskóla. Í frumvarpinu er því bætt inn í lög um háskóla og lög um opinbera háskóla að sveinspróf sé jafngilt stúdentsprófi. Með frumvarpinu er löggjafinn að opna dyr nemenda að háskólum sem hafa lokið öðru námi en stúdentsprófi. Nú þegar er í lögunum kveðið á um þær undantekningar að háskólum sé heimilt að innrita nemendur sem ekki hafa lokið stúdentsprófi eða öðru jafngildu prófi ef þeir hafa öðlast reynslu eða ráða yfir þekkingu og færni sem svarar til krafna skólans um undirbúning fyrir nám á háskólastigi. Ljóst er að slíkt undanþáguákvæði gerir það að verkum að inntaka slíkra nema mætir ávallt afgangi. Í mörg ár hefur verið bent á nauðsyn þess að fjölga iðn- og tæknimenntuðu fólki hér á landi, að auka virðingu fyrir verknámi og mikilvægi þess að gera starfsnám að raunverulegum valkosti í skólakerfinu.
    Háskólum á vera í sjálfsvald sett hvaða inntökuskilyrði þeir setja fyrir einstakar deildir og greinar innan skólans, hvort þeir hafi inntökupróf eða geri kröfu um stúdentspróf eða sveinspróf. Það er engin ástæða fyrir löggjafann að setja háskólanum skorður um inntökuskilyrði því enginn er betur til þess fallinn að meta þau en skólarnir sjálfir. Nánari útfærslur á þessu fyrirkomulagi geta verið í höndum stofnana á háskólastigi. Þannig má sem dæmi taka að hugsanlega þarf að gera auknar kröfur um stærðfræðiþekkingu sem skilyrði á tilteknum námsbrautum og auknar kröfur um raungreinaþekkingu á öðrum. Í þessu samhengi er þó mikilvægt að auka valfrelsi verðandi háskólanema til að sækja sér aukna menntun.
    Á tímum þar sem tæknin tekur stöðugum framförum og störf framtíðarinnar hafa yfir sér mikla dulúð verður það stöðugt meiri áskorun fyrir atvinnulífið að viðhalda samkeppnishæfni sinni. Mikilvægt er að atvinnulífið eigi kost á fleiri iðn- og tæknimenntuðum einstaklingum. Fjórða iðnbyltingin er fyrir nokkru hafin og hefur nú þegar haft mikil áhrif á atvinnulífið. Því er brýnna en nokkru sinni fyrr að gera nám á háskólastigi aðgengilegra til að einstaklingar geti bætt við sig þekkingu. Fjölbreytt val fyrir einstaklinga með mismunandi bakgrunn er grunnþáttur til að efla atvinnulífið og er iðnnám ein grunnstoð afkastamikils og öflugs atvinnulífs. Skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki er orðinn hamlandi fyrir starfsemi fjölda fyrirtækja og þar með auknum framförum á Íslandi.
    Í könnunum hefur það sýnt sig að ungt fólk vill meira starfsnám en erfiðlega hefur gengið að breyta gömlum viðhorfum um að bóknám sé ávallt skör hærra en starfs- eða iðnnám. Eftirspurn eftir starfsmönnum með grunn í iðn- og verkgreinum hefur aukist með hverju ári. Á sama tíma hefur atvinnuleysi einstaklinga með háskólapróf jafnframt aukist. Þrátt fyrir þessa auknu þörf eftir iðn-, verk- og tæknimenntuðu fólki rata of fáir nýnemar í verk- eða starfsnámsbrautir. Samkvæmt tölum um innskráningar haustið 2018 sést samt talsverð breyting, en 16% nýnema skráðu sig þá í verk- eða starfsnámsbrautir miðað við 12% árið 2017.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Í starfsnámi á framhaldsskólastigi hafa verið um 30% nemenda og hefur það lítið breyst á síðastliðnum tíu árum. Innan Evrópusambandsins stunda hins vegar 47% framhaldsskólanema starfsnám á framhaldsskólastigi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Breytingin sem lögð er til með frumvarpi þessu snýst sem fyrr segir um að löggjafinn geri bóknámi og iðnnámi jafnhátt undir höfði þegar kemur að inngöngu í háskóla. Mikil skekkja hefur skapast milli námsvals og eftirspurnar eftir vinnuafli á Íslandi og mikilvægt er að brugðist verði við þessari stöðu sem allra fyrst. Þetta frumvarp er einungis hluti af þeim breytingum sem þarf að gera til að gera iðnnámi hærra undir höfði.
    Að efla iðn-, verk- og starfsnám er í þágu öflugara og fjölbreyttara samfélags sem á þess kost að takast á við nýjar áskoranir. Að taka stór skref til að breyta áherslum kerfisins og gera iðnnámi jafnhátt undir höfði og bóknámi í löggjöf er mikilvægt skref til aukinna framfara og hagsældar. Atvinnulífið þróast hratt og menntakerfið og áherslur þess mega ekki sitja eftir.