Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 311  —  280. mál.




Beiðni um skýrslu


frá dómsmálaráðherra um stöðu þjóðkirkjunnar og tengsl hennar við ríkisvaldið umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög.

Frá Jóni Steindóri Valdimarssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Þorsteini Víglundssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Andrési Inga Jónssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Steinunni Þóru Árnadóttur og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að ráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu þjóðkirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu. Í skýrslunni verði fjallað um:
     1.      lögboðin verkefni og skyldur sem þjóðkirkjan og stofnanir hennar hafa umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög á landinu,
     2.      þjónustu þjóðkirkjunnar sem fellur ekki undir lögboðin verkefni og skyldur,
     3.      samninga sem eru í gildi milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar og gildistíma þeirra,
     4.      greiðslur sem þjóðkirkjan og stofnanir hennar hafi hlotið úr ríkissjóði á hverju ári sl. 20 ár umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög, miðað við fjölda skráðra meðlima,
     5.      tekjur þjóðkirkjunnar á hverju ári sl. 20 ár umfram greiðslur úr ríkissjóði, t.d. vegna gjalda sem notendur þjónustunnar hafi greitt þjóðkirkjunni, og
     6.      hvaða aðila ráðherra þætti mikilvægt að fá til samráðs verði tekin ákvörðun um að afnema sérstöðu þjóðkirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu.

Greinargerð.

    Markmið skýrslubeiðninnar er að draga saman á einn stað upplýsingar sem eru forsenda þess að unnt sé að vanda til undirbúnings að afnámi sérstöðu þjóðkirkjunnar í samanburði við önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Markmið beiðenda er ekki að vinna að því að þjóðkirkjan verði lögð niður eða að grafa undan sögulegri eða menningarlegri stöðu hennar.
    Frá byrjun árs 2009 hefur skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað jafnt og þétt og standa nú 114.235 Íslendingar eða rétt tæpur þriðjungur þjóðarinnar utan hennar samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Til samanburðar voru tæp 89% þjóðarinnar skráð í þjóðkirkjuna um aldamótin. Kannanir gerðar á undanförnum árum sýna að talsverður meiri hluti landsmanna styður aðskilnað ríkis og kirkju, seinast könnun Maskínu í janúar 2018.
    Þjóðkirkjan hefur lagalega sérstöðu umfram önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög á landinu og nýtur að sama skapi aukinna greiðslna úr ríkissjóði, m.a. á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins sem undirritað var 1997. Kostnaður sem fellur á ríkissjóð á grundvelli þess samkomulags hefur verið greindur, m.a. í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn um kirkjujarðasamkomulagið á 148. þingi (þskj. 1002, 99. mál). Staða þjóðkirkjunnar innan íslensks samfélags hefur þó ekki verið greind með heildstæðum hætti.
    Í skýrslubeiðninni er óskað upplýsinga um þau lögboðnu verkefni og skyldur sem þjóðkirkjan og stofnanir hennar sinna umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög, sem og um aðra þjónustu sem hún veitir. Má þar sem dæmi nefna trúarlegar athafnir, sálgæslu og félagsstarf fyrir eldri borgara. Einnig er óskað upplýsinga um samninga sem í gildi eru milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Eðlilegt er að því fylgi upplýsingar um kostnað ríkissjóðs af umræddum samningum, ef einhver er.
    Einnig er í skýrslubeiðninni óskað upplýsinga um hversu háar greiðslur þjóðkirkjan hljóti, þegar greiðslum er deilt á fjölda skráðra meðlima, í samanburði við greiðslur annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga deilt á fjölda skráðra meðlima í þeim félögum. Markmið þess er að greina hver kostnaður ríkissjóðs sé í hlutfalli við skráða meðlimi þjóðkirkjunnar og hvort hann hafi farið hækkandi sl. 20 ár. Í tengslum við það er að auki óskað upplýsinga um tekjur þjóðkirkjunnar, á sama tímabili, sem stafa með beinum hætti frá meðlimum hennar og öðrum aðilum, t.d. fyrir veitingu þjónustu.
    Að lokum óska skýrslubeiðendur mats ráðherra á því hvaða hagsmunaaðila væri rétt að fá til samráðs um lagalegan aðskilnað ríkisins og þjóðkirkjunnar svo að hugsanlegur aðskilnaður geti farið fram í víðtækri sátt og án þess að grafið verði undan starfsgrundvelli þjóðkirkjunnar.