Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 317  —  286. mál.
Leiðrétt dagsetning.
Tillaga til þingsályktunar


um að kynjafræði verði skyldunámsgrein.


Flm.: Ingibjörg Þórðardóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að láta fara fram undirbúning að því að kynjafræði verði skyldunámsgrein á öllum skólastigum. Ráðherra skipi starfshóp sem hafi það verkefni að undirbúa breytingar á aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla í þessu skyni og að gera tillögur um breytingu á kennaranámi.
    Ráðherra geri grein fyrir tillögum starfshópsins og stöðu málsins fyrir 1. mars 2019.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 148. löggjafarþingi (525. mál) og er nú endurflutt lítillega breytt.
    Einn af grunnþáttum menntunar er jafnrétti samkvæmt aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þrátt fyrir það sjást þess ekki nægilega skýr merki, hvorki almennt í skólastarfi né þegar námsgreinar eru skoðaðar. Kynjafræði ætti að vera fléttuð inn í nám leikskólanna og vera sérstök námsgrein í grunn- og framhaldsskóla sem allir nemendur þyrftu að taka.
    Mikilvægt er að vinna gegn úreltum hugmyndum um að eðli og hlutverk karla og kvenna sé ólíkt. Slíkar hugmyndir setja konur í veikari stöðu í samfélaginu og hafa einnig skaðleg áhrif á líf karla. Markmiðin með kynjafræðikennslu eru m.a. að:
     a.      vinna gegn úreltum staðalímyndum kynjanna sem hafa áhrif á ráðningar í stjórnunarstörf og dreifingu valds og þar með launakjör,
     b.      hafa áhrif á viðhorf samfélagsins til kynbundins ofbeldis,
     c.      kenna nemendum samfélagslæsi og gagnrýna hugsun og vinna þannig gegn óheilbrigðri félagsmótun sem eykur líkur á sjálfsskaða, sjálfsvígi og áhættuhegðun,
     d.      styrkja sjálfsmynd og sjálfsöryggi stúlkna og auka tilfinningalegt frelsi drengja til að þeir eigi auðveldara með að leita sér hjálpar,
     e.      opna augu nemenda fyrir því að hæfni einstaklings til að hugsa um heimili og ala upp börn er óháð kyni og vinna þannig gegn þeirri úreltu hugmynd að konur séu hæfari foreldrar en karlar,
     f.      vinna að því að útrýma hugmyndum um að sum störf séu karlastörf en önnur kvennastörf.
    Í fyrstu jafnréttislögunum sem voru sett á Íslandi árið 1976, og einnig í 23. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er kveðið á um að jafnréttisfræðsla skuli fara fram á öllum skólastigum. Þessu hefur ekki verið framfylgt nema að örlitlu leyti. Óhætt er að segja að mikill misbrestur sé á framkvæmd þessa lagaákvæðis.
    Um leið og kynjafræðikennslu verður gert hærra undir höfði er mikilvægt að mennta alla starfandi kennara svo að þeir verði hæfir til kennslunnar. Nauðsynlegt er að allir kennarar öðlist lágmarksþekkingu á kynjafræði sem námsgrein og að komið verði á ítarlegra námi í kynjafræði sem búi kennara undir að kenna kynjafræði sem sérstaka námsgrein á öllum skólastigum. Einnig þarf að kynjafræða annað starfsfólk menntastofnana til þess að auka næmi þess á kynjafnrétti og vinna gegn úreltum hugmyndum um kynin.
    Stórir hópar samfélagsins kalla nú á þessa breytingu. Byltingar eins og #höfumhátt, #metoo, #karlmennskan og einnig verkefni eins og #sjúkást hafa sýnt að úrbóta er þörf.
    Besta leiðin til að breyta grunnhugmyndum um kyn er í gegnum menntakerfið.