Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 326  —  74. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni
um kirkjujarðasamkomulagið frá 1997/1998.


     1.      Hvert er fasteignamat allra þeirra fasteigna sem urðu eign ríkisins samkvæmt 1. gr. samkomulags um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 og eru enn í eigu ríkisins? Svar óskast með lista yfir allar fasteignir ásamt fastanúmeri þeirra og fasteignamati samkvæmt fasteignaskrá.
    Sams konar fyrirspurn var lögð fram á Alþingi á 143. löggjafarþingi frá Birgittu Jónsdóttir um kirkjujarðir o.fl. Í því svari kom eftirfarandi fram:
    „Við gerð samkomulags frá 10. janúar 1997, milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar, var horft til hins ítarlega álits kirkjueignanefndar og þeirrar umfjöllunar á eignum sem þar kemur fram. Ekki var farið í sjálfstæða rannsókn eða verðmat á öllum þeim eignum sem til álita komu enda hefði þurft að rannsaka sögu hverrar landspildu eða jarðar fyrir sig, í sumum tilvikum jafnvel margar aldir aftur í tímann. Þegar forsagan lægi fyrir hefði síðan þurft að taka ákvörðun um lögfræðilega stöðu viðkomandi eignar og komast svo að sameiginlegri niðurstöðu fulltrúa ríkis og þjóðkirkjunnar hvorum megin einstakar eignir áttu að lenda og hvert væri áætlað verðmæti þeirra. Forræði þessara eigna var á hendi fleiri ráðuneyta svo sem landbúnaðar-, menntamála- og dóms- og kirkjumálaráðuneyta. Ómögulegt er því að segja til um verðmæti allra þeirra landspildna, fasteigna og jarða sem tilheyra ríkissjóði samkvæmt samkomulaginu. Þetta á bæði við um verðmæti þessara eigna á þeim tíma og virði þeirra nú.
    Enginn ákveðinn listi liggur fyrir yfir þær jarðir og kirkjueignir sem urðu eftir hjá íslenska ríkinu og ríkið fékk við samning sinn við þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997, þótt vísa megi í umfjöllun í áliti kirkjueignanefndar um kirkjujarðir. Þar sem ekki er hægt að skoða tilteknar eignir eða jarðir sem ákveðið eignasafn er óhjákvæmilega ekki hægt að svara efni […] fyrirspurnar þessarar.“

     2.      Hver hafa verið heildarútgjöld ríkissjóðs á verðlagi ársins 2018 vegna kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997/1998?
    Samkvæmt samkomulagi ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar er annars vegar um að ræða greiðslur til biskupsstofu og hins vegar greiðslur til Kristnisjóðs og eru þessar fjárhæðir aðgreindar. Heildarframlögin á tímabilinu 1998–2018 eru orðin rúmlega 42 milljarðar kr. á uppreiknuðu verðlagi miðað við árið 2018. Hér á eftir fer tafla sem sýnir framlög samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu vegna tímabilsins 1998–2018. Fyrri hluti töflunnar sýnir framlögin á verðlagi hvers árs en seinni hlutinn á verðlagi ársins 2018.Undanfarin ár hefur kirkjan fengið viðbót í fjáraukalögum sem svarar til þess að samkomulagið sé efnt en fjárhæðin í töflunni fyrir árið 2018 miðast við að framlög til kirkjunnar verði skert áfram með því fyrirkomulagi sem var tekið upp eftir bankahrunið. Þetta má sjá í töflunni þar sem framlagið er 2,4 milljarðar kr. árið 2017 en fellur niður í 1,9 milljarð kr. árið 2018. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2018 er ekki komið fram þegar þetta er ritað.
    Samningaviðræður standa yfir um hvernig samkomulaginu og framlögum verði háttað. Standa vonir til þess að niðurstaða fáist í þær viðræður á allra næstu vikum.

Fjárhæðir á verðlagi hvers árs Fjárhæðir á verðlagi 2018
m.v. vísitölu neysluverðs
Ár Biskup Íslands Kristni-sjóður Samtals Biskup
Íslands
Kristni-sjóður Samtals Vísitala
1998 590,8 35,2 626,0 1.466,4 87,4 1.553,8 183,3
1999 692,6 40,0 732,6 1.662,0 96,0 1.757,9 189,6
2000 732,2 41,2 773,4 1.673,1 94,1 1.767,3 199,1
2001 801,6 46,9 848,5 1.717,0 100,5 1.817,5 212,4
2002 914,6 47,7 962,3 1.869,3 97,5 1.966,8 222,6
2003 1.073,3 69,1 1.142,4 2.148,3 138,3 2.286,6 227,3
2004 1.143,0 65,1 1.208,1 2.216,6 126,2 2.342,9 234,6
2005 1.275,2 72,8 1.348,0 2.376,8 135,7 2.512,4 244,1
2006 1.290,3 87,3 1.377,6 2.252,6 152,4 2.405,0 260,6
2007 1.395,2 82,8 1.478,0 2.319,2 137,6 2.456,8 273,7
2008 1.478,8 89,7 1.568,5 2.186,5 132,6 2.319,2 307,7
2009 1.445,8 97,3 1.543,1 1.908,8 128,5 2.037,3 344,6
2010 1.335,2 82,2 1.417,4 1.672,5 103,0 1.775,5 363,2
2011 1.294,4 76,3 1.370,7 1.559,2 91,9 1.651,1 377,7
2012 1.416,9 74,0 1.490,9 1.622,5 84,7 1.707,3 397,3
2013 1.403,9 73,1 1.477,0 1.547,7 80,6 1.628,2 412,7
2014 1.480,2 73,1 1.553,3 1.599,2 79,0 1.678,2 421,1
2015 1.660,6 72,0 1.732,6 1.765,2 76,5 1.841,7 428,0
2016 1.992,9 166,6 2.159,5 2.082,9 174,1 2.257,0 435,3
2017 2.246,8 129,5 2.376,3 2.307,5 133,0 2.440,5 443,0
2018 1.790,1 75,0 1.865,1 1.790,1 75,0 1.865,1 455,0
Alls 27.454,4 1.596,9 29.051,3 39.743,5 2.324,7 42.068,2
     *Framlög úr ríkissjóði samkvæmt kirkjujarðasamkomulagi á árunum 1998–2018 (árin 1998–2016 samkvæmt ríkisreikningi, árið 2017 samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum og árið 2018 samkvæmt fjárlögum).