Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 331  —  226. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um ráðstöfun ríkisjarða.


     1.      Hafa reglur um ráðstöfun ríkisjarða frá 13. júlí 2011 verið felldar úr gildi? Ef svo er, hvernig?
    Þrátt fyrir að umræddar reglur hafi ekki formlegt gildi hafa Ríkiseignir tekið mið af vinnureglum Jarðeigna ríkisins um ráðstöfun ríkisjarða á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 13. júlí 2011. Þá er jafnframt vakin athygli á því að í gildi er á vegum ráðuneytisins reglugerð nr. 1280/2014, um ráðstöfun eigna ríkisins, sem nær m.a. til allra fasteigna ríkisins, þ.m.t. ríkisjarða.

     2.      Verða þær ríkisjarðir þar sem ábúð var sagt upp á árunum 2017 og 2018 auglýstar lausar til ábúðar eða til sölu? Ef svo er ekki, hvers vegna?
    Gert er ráð fyrir að jarðir verði auglýstar til sölu þegar þær losna úr ábúð eða þegar markaðsaðstæður leyfa. Þá kemur einnig til skoðunar að auglýsa jarðir til leigu með breyttu fyrirkomulagi ef sérstakar ástæður eru fyrir því að tiltekin jörð eigi að vera áfram í ríkiseigu.

     3.      Á hversu mörgum ríkisjörðum var ábúð sagt upp á árunum 2010–2018? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Á árunum 2010–2018 hefur ábúð verið sagt upp að hálfu ábúenda á 26 ríkisjörðum. Sjá nánari sundurliðun eftir árum í svari við 4. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Hversu margar af þeim ríkisjörðum þar sem ábúð var sagt upp á árunum 2010–2018 hafa verið auglýstar lausar til ábúðar? Hversu mörgum af þeim hefur verið ráðstafað til ábúðar eða á annan hátt?
    Á árunum 2010–2018 hefur 10 jörðum verið ráðstafað í ábúð á ný eftir ábúandi hefur sagt upp ábúð. Þá hefur 11 jörðum á þessu tímabili verið ráðstafað á annan hátt, einkum með sölu á almennum markaði. Samkvæmt þessu hefur 21 af 26 jörðum verið ráðstafað á ný í ábúð eða á annan hátt. Þess má einnig geta að til viðbótar eru tvær jarðir nú þegar komnar í söluferli og unnið að því að koma þremur öðrum jörðum í viðeigandi ferli.
    Þess má geta að inn í þeim tölum sem fram koma um ábúð eru ekki ný byggingarbréf vegna kynslóðaskipta á ríkisjörðum, svo sem vegna erfðaábúðar. Enda losna jarðirnar ekki úr ábúð þegar afkomandi ábúanda tekur við ábúð með samþykki landeiganda. Sjá eftirfarandi töflu með sundurliðun eftir árum.

Jarðir losnað úr ábúð Í ábúð á ný Ráðstafað á annan hátt
2010 2 1 1
2011 1 1 0
2012 2 2 0
2013 5 2 3
2014 3 3 0
2015 4 0 3
2016 3 0 2
2017 3 1 1
2018 3 0 1

     5.      Hefur verið lagt mat á árlegt verðmætatap og/eða samfélagslegt tap sem hlýst af því þegar jörð sem nýta mætti til búsetu og framleiðslu er ekki setin?
    Ekki hefur verið lagt sérstakt mat á árlegt tap sem hlýst af því þegar jörð sem nýta mætti til búsetu og framleiðslu er ekki setin.
    Fram kemur í nýlegri úttekt sem gerð var á ríkisjörðum að þjóðhagslegt gildi ábúðarkerfisins virðist lítið. Miðað við þá niðurstöður má telja að ólíklegt sé að samfélagslegur ábati af ábúðarkerfinu sé nægilegur til að réttlæta kostnað og áhættu ríkisins af núverandi fyrirkomulagi. Hins vegar getur búseta haft verulegt gildi fyrir einstakar byggðir og er því talið mikilvægt að stuðla að áframhaldandi búsetu á jörðum sem losna úr ábúð.

     6.      Er unnið að stefnumótun varðandi nýtingu og ráðstöfun þeirra jarða sem ríkið á eða hefur til ráðstöfunar? Ef svo er, hvernig var slík stefna unnin og hvað var lagt til grundvallar?
    Hagfræðistofnun Íslands vann úttekt á ábúðarjörðum í eigu ríkisins þar sem lagt var mat á kosti og galla þess að setja ríkisjarðir í ábúð. Ráðuneytið hefur jafnframt unnið að gerð eigandastefnu vegna jarða, landa, lóða og auðlinda í eigu ríkisins sem tekur m.a. til ábúðarjarða í eigu ríkisins. Síðastliðið haust voru birt drög að meginþáttum nýrrar eigandastefnu sem auk annarra þátta byggðist á úttekt Hagfræðistofnunar. Eigandastefnan er sem stendur í samráðsferli innan Stjórnarráðsins og að því loknu er stefnt að því að birta lokadrög á samráðsgátt þar sem allir áhugasamir aðilar geta skilað inn umsögn og athugasemdum.