Ferill 200. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 340  —  200. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um fulltrúa af landsbyggðinni í stjórnum, nefndum og ráðum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig er skipulagi og stuðningi háttað við einstaklinga sem hafa verið tilnefndir af þingmönnum og skipaðir í stjórnir, nefndir og ráð á vegum ráðuneytisins og búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins? Hvernig er farið með kostnað við flug, akstur, gistingu og mat og annan kostnað sem hlýst af fundafyrirkomulaginu? Væri mögulegt að viðhafa þá reglu að tímasetja fundi þannig að fulltrúar af landsbyggðinni gætu nýtt sér innanlandsflug samdægurs?

    Við ákvörðun greiðslu ferðakostnaðar landsbyggðarfulltrúa í stjórnum og fastanefndum á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins er höfð hliðsjón af ferðakostnaðarreglum ríkisins, m.a. auglýsingu um akstursgjald ríkisstarfsmanna. Þá hefur ráðuneytið sett nánari viðmiðunarreglur í gæðahandbók. Samkvæmt þeim ber að skipuleggja fundi þannig að tími fulltrúa sem fer í að sækja þá sé sem stystur. Gengið er út frá því að fulltrúi komist til síns heima samdægurs. Þá er kveðið nánar á um fyrirkomulag flugbókana og um greiðslur fyrir akstur á eigin bifreiðum. Lögð er áhersla á að ávallt sé leitað hagkvæmustu kjara með hagsmuni ríkissjóðs að leiðarljósi. Þannig hefur t.a.m. reynst ódýrara að útvega bílaleigubíl ef ferðast er lengra en frá Keflavík, Borgarnesi og Hveragerði í stað aksturs á eigin bifreið.
    Fulltrúum af landsbyggðinni sem sitja í stjórnum og fastanefndum stendur til boða að fá greiddan akstur samkvæmt akstursdagbók, bílaleigubíl eða flugmiða eftir nánara samkomulagi enda sé fyllsta hagkvæmni höfð að leiðarljósi. Í síðastnefnda tilfellinu getur einnig verið um að ræða að greitt sé fyrir bílaleigu- eða leigubifreið innan borgarmarkanna. Almennt hefur ekki tíðkast að greiða dagpeninga, en boðið er upp á veitingar á fundarstað. Gengið er út frá þeirri meginreglu að landsbyggðarfulltrúar beri ekki persónulegan kostnað vegna fundarsóknar á vegum ráðuneytisins á höfuðborgarsvæðinu.
    Þegar um er að ræða starfshópa á vegum ráðherra kann að vera samið sérstaklega um ferðakostnað og er tilhögun með þeim hætti að viðkomandi nefndarmaður greiðir ferðakostnaðinn og endurkrefur ráðuneytið á verktakareikningi.
    Í ráðuneytinu er til staðar fullkominn fjarfundabúnaður og eru formenn nefnda og starfshópa hvattir til að nýta þá aðstöðu eftir atvikum.
    Ákvörðun um fundartíma er alla jafnan í höndum formanna þeirra stjórna, nefnda og ráða sem um ræðir og ber þeim að gæta jafnræðis og hagkvæmni við ákvarðanir sínar.