Ferill 95. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 341  —  95. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um ráðgjöf og störf við tímabundin eða afmörkuð verkefni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðherra fengið til starfa, tímabundið eða á grundvelli verksamnings, sérfræðinga eða aðra aðila til að veita ráðgjöf, sinna sérverkefnum eða verkefnastjórnun í einstökum verkefnum frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa? Ef svo er, hvaða aðilar eru það, hverjar hafa greiðslur til þeirra verið og hver er lýsing á verkefnum þeirra?

    Ráðuneytið hefur frá 30. nóvember 2017, þegar núverandi ríkisstjórn tók til starfa, gert verksamninga við þrjá lögfræðinga vegna aðstoðar við vinnu frumvarpa.
    Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fjölskyldu- og erfðarétti við Háskóla Íslands, veitir ráðgjöf og aðstoð við að semja drög að lagafrumvarpi til breytinga á barnalögum; skipt búseta, meðlag og breytingar á öðrum lögum. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði allt að 1.250 þús. kr.
    Sigrún Jóhannesdóttir var fengin til að vinna við frumvarp til laga um meðferð persónuupplýsinga í löggæslutilgangi vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2016/680 um vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu lögbærra yfirvalda á persónuupplýsingum. Gert er ráð fyrir að kostnaður við vinnuna verði allt að 2 millj. kr.
    Hafsteinn Dan Kristjánsson lögfræðingur veitti ráðgjöf við gerð umsagnar sem ríkislögmaður óskaði eftir frá ráðuneytinu vegna greinargerðar íslenska ríkisins til Mannréttindadómstóls Evrópu. Kostnaður við vinnuna var 1,1 millj. kr.
    Fjárhæðir þóknunar eru á grundvelli samninga ráðuneytisins við aðila. Einungis eru tiltekin sérgreind verkefni eða verkefnastjórnun þar sem ráðuneytið hefur gert verksamning eða ráðið inn tímabundið. Ekki eru tilgreind reglubundin innkaup á þjónustu við innri rekstur ráðuneytisins, svo sem túlkaþjónusta eða aðstoð við ráðningar.