Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 342  —  113. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um breytingar á hjúskaparlögum.


     1.      Telur ráðherra ástæðu til að breyta hjúskaparlögum til að koma í veg fyrir að hægt sé að tefja lögskilnaðarferli úr hófi, m.a. tefja jafnvel árum saman fyrir fólki að slíta hjónabandi þar sem ofbeldi hefur viðgengist?
    Lögskilnaður samkvæmt hjúskaparlögum, nr. 31/1993, fer fram með þeim hætti að sýslumenn veita leyfi til lögskilnaðar ef aðilar eru sammála um það. Að öðrum kosti þurfa aðilar að leita til dómstóla með ágreining sinn.
    Samkvæmt hjúskaparlögum á maki rétt á lögskilnaði einu ári eftir að skilnaður að borði og sæng var veittur eða dómur gekk. Ef hjón eru sammála um að óska lögskilnaðar geta þau fengið lögskilnað sex mánuðum eftir að skilnaður að borði og sæng var veittur eða dómur gekk. Sýslumaður getur veitt lögskilnað á grundvelli undangengins skilnaðar að borði og sæng ef maki fellst á kröfuna. Rísi ágreiningur um hvort veita skuli lögskilnað á grundvelli undanfarins skilnaðar að borði og sæng má leita til dómstóla með skilnaðarkröfuna. Er þá hægt að krefjast lögskilnaðar ef meira en 12 mánuðir eru liðnir frá skilnaði að borði og sæng.
    Þá getur hvort um sig krafist lögskilnaðar hjá sýslumanni, án undanfarandi skilnaðar að borði og sæng, ef hjón hafa ekki búið saman vegna ósamlyndis í tvö ár eða lengur. Jafnframt getur annað hjóna krafist lögskilnaðar, án þess að skilnaður að borði og sæng hafi áður verið veittur, ef tiltekin atvik eru fyrir hendi. Í þeim tilvikum getur verið um að ræða hjúskaparbrot, tvíkvæni, líkamsárás eða kynferðisbrot sem bitnar á hinu eða barni sem býr hjá þeim eða atferli sem veldur alvarlegum ótta um líkamsárás eða kynferðisbrot. Til að sýslumaður geti veitt lögskilnað á grundvelli einhverra framangreindra atvika þarf maki að fallast á lögskilnaðarkröfu á þeim grundvelli. Einnig þurfa hjónin að vera sammála um að leita lögskilnaðar hjá sýslumanni. Ef sá sem krafa beinist að samþykkir hana ekki getur sýslumaður ekki veitt lögskilnaðarleyfi. Er þá alltaf unnt að leita til dómstóla með kröfuna.
    Samkvæmt hjúskaparlögum er skylt að leita um sættir með hjónum sem eiga ósjálfráða barn, annað eða bæði, er þau hafa forsjá fyrir. Þetta á þó ekki við ef hjón krefjast sameiginlega lögskilnaðar að undangengnum skilnaði að borði og sæng. Ef ágreiningur er um forsjá eða lögheimili barns í tengslum við samvistarslit verður að leita til dómstóla til að leysa úr honum. Áður en höfðað er mál um forsjá eða lögheimili er foreldrum skylt samkvæmt barnalögum, nr. 76/2003, að leita sátta. Ef foreldrum tekst ekki að gera samning um forsjá eða lögheimili eða ef foreldrar mæta ekki á sáttafund gefur sáttamaður út vottorð um sáttameðferð. Skilnaðarleyfi verður ekki gefið út nema fyrir liggi samkomulag um forsjá eða ágreiningur um forsjá hafi verið lagður fyrir dómstóla. Við skilnað ber hjónum jafnframt að ákveða hvernig meðlagsgreiðslum með börnum skuli háttað. Ef ágreiningur er um meðlagsgreiðslur getur sýslumaður úrskurðað um slíkan ágreining. Hjón þurfa að gera með sér skriflegan fjárskiptasamning og leggja hann fram og staðfesta samkomulag við fyrirtöku skilnaðarmálsins hjá sýslumanni. Ef hjón eru ekki sammála um fjárskiptin þarf að bera málið undir dóm og óska þess að opinber skipti á búinu fari fram til fjárslita. Sýslumaður getur ekki veitt skilnaðarleyfi nema annaðhvort liggi fyrir samningur hjóna um fjárskipti eða úrskurður héraðsdóms um að opinber skipti skuli fara fram, að því gefnu að hjónin lýsi ekki yfir eignaleysi.
    Ráðherra fundaði með sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í sumar þar sem meðferð skilnaðarmála hjá embættinu var til umræðu og óskaði ráðherra sérstaklega eftir afstöðu sýslumanns til þess hvort breyta þyrfti hjúskaparlögum eða framkvæmd í þeim málum til að greiða fyrir afgreiðslu þeirra hjá embættinu. Sýslumaður taldi ekki þörf á því en að skoða þyrfti mögulega frekar lög um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, að því er snýr að opinberum skiptum til fjárslita milli hjóna, sem og gjafsóknarreglur. Þá ber að geta þess að ráðherra breytti reglugerð í ágúst síðastliðnum þar sem viðmiðunarfjárhæðir gjafsóknar voru hækkaðar. Fjárhæðirnar taka framvegis mið af vísitölu neysluverðs.
    Ráðherra telur frekari skoðun þurfa að fara fram á hjúskaparlögum og framkvæmd þeirra hjá sýslumanni áður en unnt er að taka afstöðu til þess hvort gera þurfi breytingar á löggjöfinni.

     2.      Ef svo er, hvaða vinna er í gangi í ráðuneytinu við undirbúning að þeim breytingum og hvenær hyggst ráðherra leggja fram frumvarp til breytinga á hjúskaparlögum?
    Að svo stöddu hefur engin ákvörðun verið tekin um breytingar á hjúskaparlögum hvað framangreind atriði varðar.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að sýslumenn landsins breyti verklagi sínu þegar kemur að framkvæmd hjúskaparlaga?
    Ef farið yrði í þá vinnu að greina hjúskaparlög og framkvæmd þeirra yrði einnig skoðað hvort talin sé ástæða til að sýslumenn breyti verklagi sínu þegar kemur að framkvæmd hjúskaparlaga.