Ferill 170. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 356  —  170. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um fæðuþörf Íslendinga og íslensk matvæli.


     1.      Liggja fyrir tölur um fæðuþörf Íslendinga og magn framleiddra matvæla úr íslensku hráefni? Ef svo er, hversu hátt hlutfall matvæla sem fullnægja áætlaðri fæðuþörf er framleitt á Íslandi?
    Embætti landlæknis hefur tekið saman upplýsingar um fæðuframboð. Síðustu tölur voru reiknaðar árið 2014. Fæðuframboð veitir upplýsingar um það magn matvara sem er á boðstólum fyrir þjóðina. Við útreikninga á fæðuframboði er tekið tillit til framleiðslu, innflutnings og útflutnings. Fæðuframboð nær í flestum tilfellum lítið til unninnar vöru, til dæmis er kjöt gefið upp í heilum skrokkum og fiskur gefinn upp óslægður. Þó að fæðuframboðstölur veiti ekki beinar upplýsingar um fæðuþörf og neyslu gefa þær vísbendingar um þróun á mataræði þjóðarinnar yfir lengri tíma.
    Búnaðarstofa Matvælastofnunar safnar upplýsingum og birtir árlega skýrslu um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu. Á sama hátt safnar Fiskistofa upplýsingum um afla og hvernig hann er unnin. Þá tekur Hagstofa Íslands saman tölur um heildarframleiðslu matvæla hér á landi, útflutning og innflutning.
    Ljóst er að heildarframleiðsla matvæla hér á landi er umtalsvert meiri en sem nemur fæðuþörf landsins. Þau hlutföll eru þó misjöfn milli einstakra tegunda og flokka matvæla. Þá verður að hafa í huga að innlend matvælaframleiðsla byggist að miklu leyti á innflutningi aðfanga eins og olíu, áburði, fóðri o.fl. Miklu skiptir því fyrir matvælaöryggi landsins að erlend viðskipti séu greið en jafnframt þarf að huga að aukinni framleiðslu aðfanga til matvælaframleiðslu hér á landi. Innlend framleiðsla aðfanga getur jafnframt dregið úr kolefnisspori innlendrar matvælaframleiðslu.

     2.      Hyggst ráðherra leggja fram áætlun um hvernig auka megi matvælaframleiðslu á landinu til að bæta fæðuöryggi þjóðarinnar?
    Af þessu tilefni er ástæða til að rifja upp umfjöllun um fæðuöryggi í skýrslu nefndar landbúnaðarráðherra frá árinu 2010. Þar kemur fram að árið 1996 stóð Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) að ríkjaþingi um fæðuöryggi (e. World Food Summit). Þar var samþykkt svonefnd Rómaryfirlýsing, en í henni segir að „fæðuöryggi sé til staðar þegar allir menn, á öllum tímum, hafa raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, heilnæmum og næringarríkum mat sem fullnægir þörfum þeirra til að lifa virku og heilsusamlegu lífi“. Þessu markmiði verði náð, samkvæmt yfirlýsingunni, með skipulagningu á öllum stigum. Hver þjóð verði að gera áætlun á grundvelli möguleika sinna til að ná eigin markmiðum um fæðuöryggi, og vinna um leið með öðrum þjóðum, svæðisbundið og á alþjóðavísu, við að skipuleggja sameiginlegar aðgerðir til að leysa úr viðfangsefnum sem ógna fæðuöryggi á heimsvísu.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og að tryggja eigi áframhaldandi samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum. Einnig kemur fram að nýta ber tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi, þróa á lífhagkerfi enn frekar og stuðla að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurða og byggðafestu. Til að vinna að framgangi þessa hefur ráðherra skipað verkefnisstjórn til að móta matvælastefnu fyrir Ísland. Meðal þeirra þátta sem hafðir verða að leiðarljósi við mótun stefnunnar er sjálfbær framleiðsla, bætt aðgengi að hollum matvælum, nýsköpun og upprunamerkingar, og aðgengi að upplýsingum. Þá er lögð áhersla á að draga úr matarsóun og auka samkeppnishæfni á alþjóðlegum mörkuðum. Með þessu er komið inn á þætti sem snerta fæðuöryggi, en hafa verður í huga í þessu tilliti að segja má að viðfangsefni sem lúta að fæðuöryggi séu á málefnasviði fleiri ráðherra. Gert er ráð fyrir að stefna þessi liggi fyrir eigi síðar en í lok næsta árs.