Ferill 162. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 359  —  162. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um bifreiðagjald og lögum um virðisaukaskatt (losunarviðmið, sendi-, vöru- og golfbifreiðar).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt S. Benediktsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Hörð Davíð Harðarson og Hjalta B. Árnason frá tollstjóra, Maríu Jónu Magnúsdóttur, Jón Trausta Ólafsson og Benedikt Eyjólfsson frá Bílgreinasambandinu og Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá tollstjóra, Bílgreinasambandinu og Félagi íslenskra bifreiðaeigenda.
    Megintilgangur frumvarpsins er að bregðast við breytingum á því kerfi sem notað er til að mæla og skrá koltvísýringslosun ökutækja, þ.e. upptöku nýs kerfis sem í frumvarpinu er nefnt samræmda prófunaraðferðin sem tekur við af því kerfi sem hingað til hefur verið notað og er í frumvarpinu nefnt evrópska aksturslotan. Í greinargerð kemur fram að ökutæki mælist að meðaltali með 21% meiri koltvísýringslosun samkvæmt nýja kerfinu en því gamla. Þar sem álagning vörugjalda tekur mið af mældri losun óháð því kerfi sem beitt er við mælinguna samkvæmt gildandi lögum hefði breytingin því í för með sér umtalsverðar vörugjaldshækkanir á innfluttum ökutækjum að óbreyttu. Markmið frumvarpsins er m.a. að koma í veg fyrir að ósamræmi skapist við skattlagningu ökutækja eftir því hvorri aðferðinni er beitt við skráningu losunar. Auk þess eru með frumvarpinu lagðar til breytingar sem varða m.a. skilgreiningu á sendibifreiðum, afnám vörugjalda af rafknúnum golfbifreiðum o.fl. Frumvarpinu er ekki ætlað að hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Bráðabirgðaákvæði í lögunum.
    Í 4. og 5. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um bráðabirgðaákvæði við vörugjaldslögin og fjalla ákvæðin um útreikning vörugjalds á ökutæki sem eingöngu hafa verið mæld samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni og flutt eru til landsins frá gildistöku frumvarpsins fram til 1. janúar 2019 þegar 1. og 3. gr. frumvarpsins, sem hafa að geyma hinar nýju útreikningsreglur vörugjalds, taka gildi. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðunum skal á þessu tímabili miða útreikning vörugjalds ökutækja sem aðeins hafa verið mæld samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni við 17,36% lægri losunartölu en skráð koltvísýringslosun viðkomandi ökutækis segir til um.
    Á fundi með nefndinni bentu fulltrúar Bílgreinasambandsins á að nær engar bifreiðar sem fluttar yrðu inn á tímabilinu frá gildistöku frumvarpsins og fram að áramótum væru einvörðungu skráðar samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni heldur væri losun þeirra skráð samkvæmt báðum aðferðunum. Nú þegar væru komnar fram umtalsverðar hækkanir á bílverði vegna þessa enda féllu ökutæki í hærri vörugjaldsflokk eftir upptöku samræmdu prófunaraðferðarinnar. Því skapaðist mikið ójafnvægi á bílamarkaðinum til áramóta þegar ný útreikningsaðferð tæki gildi. Mælist sambandið til þess að á tímabilinu frá gildistöku frumvarpsins til áramóta verði ekki aðeins lækkuð losunartala þeirra ökutækja sem eingöngu hafa skráða losun samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni við útreikning vörugjalds heldur einnig þeirra ökutækja þar sem báðum aðferðunum hefur verið beitt.
    Nefndin óskaði eftir viðbrögðum tollstjóra við tillögu Bílgreinasambandsins. Í umsögn sem tollstjóri skilaði nefndinni um tillöguna kom fram að hún fæli í sér að allar nýjar bifreiðar sem fluttar yrðu til landsins fram að áramótum hlytu handvirka tollafgreiðslu. Það hefði í för með sér umtalsverðar tafir á tollafgreiðslu ásamt auknu álagi á alla starfsemi tollstjóra. Þá væri ekki vænlegt að leggjast í forritunarvinnu til að leysa málið vegna þess hve stuttan gildistíma tillagan hefði og vegna röskunar á þeirri forritunarvinnu sem þegar væri hafin til að bregðast við aðalefni frumvarpsins. Loks teldi tollstjóri að vörugjöld talsverðs hluta innfluttra bifreiða fram að áramótum mundu ekki hækka þrátt fyrir að ekkert yrði aðhafst enda væri með öllu óljóst að hið umreiknaða losunargildi beggja aðferðanna leiddi sjálfkrafa til hækkunar á gjaldbili skv. 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, auk þess sem hið umreiknaða gildi ætti eingöngu við um ökutæki framleidd eftir 1. september 2018.
    Jafnframt hefur verið bent á að sami vandi og að framan hefur verið lýst eigi við í nágrannaríkjunum þar sem ekki hefur sérstaklega verið brugðist við honum utan Danmerkur þar sem m.a. er farin sú leið að gefa eigendum ökutækja sem flutt hafa verið inn á tímabilinu eftir upptöku samræmdu prófunaraðferðarinnar en fyrir upptöku uppfærðrar aðferðar við útreikning vörugjalda kost á að sækja um endurgreiðslu á mismuninum.
    Nefndin hefur til skoðunar hvort og með hvaða hætti bregðast beri við þessum sjónarmiðum og hyggst eftir atvikum leggja fram tillögu þess efnis eftir 2. umræðu.

Vörugjöld rafknúinna sendibifreiða.
    Við umfjöllun um málið var athygli nefndarinnar vakin á því að rafknúnar sendibifreiðar sem notaðar væru til vöruflutninga nytu ekki sömu ívilnunar og önnur rafknúin ökutæki á borð við bifhjól og golfbifreiðar, yrði frumvarpið óbreytt að lögum. Nefndin telur rétt að rafknúnar sendibifreiðar njóti sömu kjara hvað vörugjöld varðar enda gildi um þær sömu sjónarmið um hvetjandi aðgerðir til að stuðla að orkuskiptum. Leggur nefndin í þessu skyni til að rafknúnar sendibifreiðar bætist við upptalningu 1. tölul. 4. gr. laga nr. 29/1993. Jafnframt leggur nefndin til að skerpt verði á skilgreiningu sendibifreiða með því að fella orðið „aðallega“ brott úr b-lið 2. gr. frumvarpsins.

Viðurlög og innheimta skv. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um hvernig 5. gr. vörugjaldslaga skuli orðast en greinin varðar ívilnanir á vörugjaldi á leigubifreiðar til fólksflutninga, ökukennslubifreiðar og sérútbúnar bifreiðar til fólksflutninga. Ákvæði 3. mgr. greinarinnar hefur að geyma grundvallarskilyrði sem umsækjandi um ívilnun samkvæmt greininni þarf að uppfylla. Skv. 6. mgr. greinarinnar missir kaupandi rétt sinn til að njóta ívilnunar vörugjalds samkvæmt greininni í þrjú ár komi í ljós að skilyrði 3. mgr. hafi ekki verið uppfyllt við álagningu vörugjalds. Í umsögn tollstjóra er lagt til að varnaðaráhrif 6. mgr. verði aukin þannig að hún nái ekki eingöngu til skilyrðanna sem talin eru upp í 3. mgr. heldur til greinarinnar í heild sinni. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur nefndin til að orðalagi 6. mgr. verði breytt í þessa veru.
    Í 7. mgr. sömu greinar er tollstjóra heimilað að innheimta fullt vörugjald að viðbættu 50% álagi sé bifreið notuð til annars en hún er ætluð samkvæmt greininni. Bent hefur verið á að betur færi á að innheimta sem þessi væri skyld en heimil. Jafnframt hefur verið bent á að til standi að gera breytingar á fyrirkomulagi opinberrar innheimtu og að samkvæmt nýju fyrirkomulagi verði innheimta vörugjalda í höndum innheimtumanns ríkissjóðs en ekki tollstjóra. Þar sem álagning gjaldanna er á hendi tollstjóra leggur embættið til að orðalag ákvæðisins miðist að álagningunni en ekki innheimtunni. Nefndin tekur undir tillögu tollstjóra og leggur til að 1. málsl. 7. mgr. 3. gr. frumvarpsins orðist þannig að tollstjóri skuli leggja fullt vörugjald ásamt 50% álagi á skráða eigendur í þeim tilvikum sem þar eru nefnd. Jafnframt komi skýrt fram í ákvæðinu hvenær krafan falli í gjalddaga auk þess sem vísað verði til tollalaga um vexti og fullnustu kröfunnar. Í umsögn tollstjóra kemur enn fremur fram að hagur væri af því að taka fram í ákvæðinu að draga bæri það vörugjald sem kaupandi greiddi við upphaflega álagningu frá þegar fullt vörugjald ásamt álagi væri lagt á samkvæmt ákvæðinu. Nefndin telur auðsýnt að svo sé og telur óþarft að leggja til breytingu á ákvæðinu því til áréttingar. Aðrar breytingartillögur nefndarinnar eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan orðinu „kílómetra“ í 2. tölul. a-liðar 1. gr. komi: ekinn.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Á eftir a-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Við 1. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Sendibifreiðar samkvæmt skilgreiningu g-liðar 2. tölul. sem knúnar eru rafhreyfli að öllu leyti.
                  b.      Orðið „aðallega“ í b-lið falli brott.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      Á undan orðinu „kílómetra“ í b-lið 1. efnismgr. komi: ekinn.
                  b.      Í stað tilvísunarinnar „3. mgr.“ í 6. mgr. komi: grein þessari.
                  c.      Í stað orðanna „er tollstjóra heimilt að innheimta af skráðum“ í fyrri málslið 7. mgr. komi: skal tollstjóri leggja á skráðan.
                  d.      Á eftir fyrri málslið 7. mgr. komi þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Krafan fellur í gjalddaga 10 dögum eftir dagsetningu úrskurðar um álagningu vörugjalds samkvæmt þessu ákvæði. Eindagi er mánuði eftir gjalddaga. Um vexti fer skv. 125. gr. tollalaga, nr. 88/2005.
                  e.      Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um fullnustu kröfunnar fer skv. 128. og 129. gr. tollalaga, nr. 88/2005.
     4.      Við c-lið 4. gr.
                  a.      Í stað orðanna „er tollstjóra heimilt að innheimta af skráðum“ komi: skal tollstjóri leggja á skráðan.
                  b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um fullnustu kröfunnar fer skv. 128. og 129. gr. tollalaga, nr. 88/2005.

    Oddný G. Harðardóttir og Smári McCarthy skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að mikilvægi hvata til að draga úr losun koltvísýrings, hlutverki vörugjalda í því tilliti og hugsanlegum áhrifum þeirra á innflutning á óvistvænum bílum.
    Þorsteinn Víglundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 2. nóvember 2018.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Bryndís Haraldsdóttir. Brynjar Níelsson.
Oddný G. Harðardóttir,
með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Smári McCarthy,
með fyrirvara.
Þorsteinn Víglundsson. Þórunn Egilsdóttir.