Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 369  —  97. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um ráðgjöf og störf við tímabundin eða afmörkuð verkefni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur ráðherra fengið til starfa, tímabundið eða á grundvelli verksamnings, sérfræðinga eða aðra aðila til að veita ráðgjöf, sinna sérverkefnum eða verkefnastjórnun í einstökum verkefnum frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa? Ef svo er, hvaða aðilar eru það, hverjar hafa greiðslur til þeirra verið og hver er lýsing á verkefnum þeirra?

    Frá því að sitjandi ríkisstjórn tók við hefur ráðherra gert verksamninga um aðkeypta ráðgjöf, sérverkefni og verkefnisstjórn við eftirfarandi aðila (allar upphæðir eru án virðisaukaskatts):
     1.      BBA Legal ehf. Álitsgerð vegna dóms EFTA-dómstólsins er varðar innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk. Hinn 10. október höfðu verið greiddar 1.538.460 kr.
     2.      Hagfræðistofnun, Háskóli Íslands. Vinna við svar við fyrirspurn um samkeppni í mjólkuriðnaði og stuðning við hann. Hinn 10. október höfðu verið greiddar 480.000 kr.
     3.      KPMG ehf. Sviðsmyndagreining um mögulegt framtíðarumhverfi landbúnaðar á Íslandi. Hinn 10. október höfðu verið greiddar 7.151.355 kr.
     4.      I2 ehf. Seta í nefnd um endurskoðun búvörusamninga ásamt ráðgjöf tengd verkefninu. Hinn 10. október höfðu verið greiddar 418.820 kr. vegna verkefnisins.
     5.      International Council for the Exploration of the Sea. Yfirferð á aflareglu sumargotssíldar Hinn 10. október höfðu verið greiddar 1.646.937 kr.
     6.      KPMG ehf. Úttekt á afurðarstöðvum. Tilgangur verkefnisins var m.a. að greina kostnað við slátrun, sölu og dreifingu sauðfjárafurða á innlendum markaði. Hinn 10. október höfðu verið greiddar 2.748.975 kr.
     7.      Landslög slf. Greinargerð til að svara tilteknum spurningum og veita lögfræðiráðgjöf vegna vinnu í ráðuneytinu vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins er varðar innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk. Hinn 10. október höfðu verið greiddar 453.284 kr.
     8.      LMN ehf. Vinna við drög að lagafrumvarpi með það að markmiði að lögfesta heimildir sem veita Fiskistofu aðgang að rafrænum vöktunarkerfum í eftirlitsskyni. Hinn 10. október höfðu verið greiddar 599.947 kr.
     9.      London ehf. Vinna við skýrslu starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum. Hinn 10. október höfðu verið greiddar 288.000 kr.
     10.      Neytendasamtökin. Sérfræðiráðgjöf og vinna við endurskoðun búvörulaga ásamt vinnu við endurskoðun á fyrirkomulagi um úthlutun tollkvóta. Hinn 10. október höfðu verið greiddar 300.000 kr.
     11.      Principia slf. Ráðgjöf og aðstoð við samningu frumvarps um veiðigjöld. Hinn 10. október höfðu verið greiddar 2.509.000 kr.
     12.      Teitur Björn Einarsson. Ráðgjöf og aðstoð við samningu frumvarps um veiðigjöld. Hinn 10. október höfðu verið greiddar 1.943.500 kr.
     13.      Hagfræðistofnun. Háskóli Íslands. Uppfærsla á skýrslu frá árinu 2010 um hvalveiðar og mat á áhrifum hvalveiða á atvinnustig, fjárfestingar og útflutningstekjur auk afleiddra áhrifa á ferðaþjónustu og önnur hugsanleg áhrif á aðrar atvinnugreinar. Hinn 10. október höfðu greiðslur ekki verið inntar af hendi enn sem komið var vegna verkefnisins.
     14.      Daði Már Kristófersson. Tölfræðileg greining og ráðgjöf vegna frumvarps um veiðigjöld. Hinn 10.október höfðu verið greiddar 416.601 kr.
     15.      Mið ehf. Úttekt á eftirliti með fiskeldi. Hinn10. október höfðu greiðslur ekki verið inntar af hendi enn sem komið var vegna verkefnisins.