Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 371  —  190. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Haraldi Benediktssyni um tíma fyrir athugasemdir við frummatsskýrslu hjá Skipulagsstofnun.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu langur tími líður að meðaltali þar til athugasemdir berast Skipulagsstofnun við frummatsskýrslu, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000? Hver er lengsti og hver er stysti tími sem hefur liðið eftir að frummatsskýrsla hefur verið lögð fram til kynningar?

    Samkvæmt lögum nr. 106/2000 stendur kynning frummatsskýrslu yfir í sex vikur sem jafnframt er sá frestur sem gefst til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við Skipulagsstofnun, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Almennt má segja að flestar athugasemdir berist á síðustu dögum kynningartíma. Í undantekningartilvikum berast athugasemdir að kynningartíma loknum. Berist athugasemdir skömmu eftir að kynningartíma lýkur hefur Skipulagsstofnun almennt samþykkt að taka á móti þeim í samráði við framkvæmdaraðila. Í þeim tilvikum sem athugasemdir berast mjög seint, en áður en matsskýrsla liggur fyrir, áframsendir Skipulagsstofnun athugasemdir til framkvæmdaraðila sem gefst þá kostur á að fjalla um þær í matsskýrslu.
    Frá árinu 2011 hefur Skipulagsstofnun gefið út 42 álit um mat á umhverfisáhrifum. Samtals komu 293 athugasemdir við frummatsskýrslur á tímabilinu. Stysti tími sem leið frá upphafi kynningartíma þar til Skipulagsstofnun barst athugasemd var sex dagar. Í tilfelli sjö framkvæmda komu athugasemdir að kynningartíma loknum. Í eftirfarandi töflu má sjá hversu löngu síðar þær bárust:

Kynningartíma lauk Athugasemd barst
16. febrúar 19. febrúar
26. nóvember 1. desember
26. mars 30. apríl
6. janúar 7. janúar og 10. febrúar
3. maí 10. maí og 29. maí
21. september 28. september
6. september 25. september

    Í tveimur tilvikum, frá upphafi árs 2011, bárust athugasemdir 35 dögum eftir að kynningartíma lauk. Þar af leiðandi er lengsti tími sem liðið hefur á milli þess að frummatsskýrsla hefur verið lögð fram til kynningar og athugasemd berst sex vikur og 35 dagar, þ.e. 77 dagar.