Ferill 61. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 380  —  61. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um fýsileikakönnun á stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hefur ráðuneytið undirbúið fýsileikakönnun um kosti þess og þörf á að stofna sérstakt embætti, sem fari með málefni flóttamanna önnur en úrskurðar- og rannsóknarvald, og kynna átti Alþingi með skýrslu fyrir 1. september 2017, sbr. þingsályktun nr. 67/145?

    Dómsmálaráðuneytið í samráði við velferðarráðuneytið tók málið til skoðunar í samræmi við þingsályktun nr. 67/145 og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að aðhafast frekar varðandi stofnun sérstaks embættis umboðsmanns flóttamanna. Ráðuneytið hefur endurnýjað samning milli Rauða krossins á Íslandi og Útlendingastofnunar um að annast talsmannaþjónustu við umsækjendurna auk ákveðinnar félagslegrar þjónustu. Það var gert í kjölfar útboðs á þjónustunni. Hlutverk talsmanns er að leiðbeina skjólstæðingi varðandi meðferð máls fyrir stjórnvöldum, veita virka aðstoð sem fyrst og fremst tekur mið af hagsmunum og réttarstöðu skjólstæðingsins og veita hlutlausar og óhlutdrægar upplýsingar ásamt annarri einstaklingsmiðaðri þjónustu.
    Lögð er áhersla á að þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd sé aðgengileg og flækjustigi haldið í lágmarki fyrir þá einstaklinga sem eiga í hlut. Þá hefur nefnd um samræmda móttöku flóttafólks einnig unnið að kortlagningu á þeirri þjónustu sem flóttafólk hefur fengið í kjölfar þess að hafa sótt um alþjóðlega vernd og gerð tillagna að samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk.