Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 390  —  327. mál.




Fyrirspurn


til forseta Alþingis um undirbúningsvinnu við nýja skrifstofubyggingu Alþingis.

Frá Birni Leví Gunnarssyni.


     1.      Hver var upprunaleg kostnaðaráætlun við undirbúningsvinnu við nýja skrifstofubyggingu Alþingis og hvernig var sú áætlun sundurliðuð?
     2.      Hver er núverandi staða uppfærðs kostnaðarmats miðað við sömu sundurliðun?
     3.      Hversu oft hefur þurft að uppfæra teikningar nýbyggingarinnar, hver hefur kostnaður verið við uppfærslurnar og hvers vegna þurfti að uppfæra þær?
     4.      Hver tekur ákvörðun um að hannað skuli sérstakt hús fyrir forseta, eins og fyrirhugað er samkvæmt auglýstum teikningum, og hver ber ábyrgð á ákvörðun um að slíkt hús standist kröfur eða þarfir? Ef ábyrgðin á hvoru tveggja er á hendi forseta, telur forseti rétt að hann leggi bæði fram þarfalýsingu og samþykki hönnun?
     5.      Hafa notkunarkröfur til byggingarinnar breyst frá útboði og ef svo er, af hverju?
     6.      Hefur hluta af hugmyndavinnu hönnuða verið hafnað? Ef svo er, eru reikningar greiddir vegna hönnunarvinnu sem ekki nýtist og ef svo er, hvers vegna? Ef hönnunin hefur tekið breytingum, telur forseti það vera merki um ónákvæmar kröfulýsingar?
     7.      Hvaða kröfur hefur forseti gert til nýbyggingarinnar til að lágmarka viðhalds- og rekstrarkostnað hennar? Hvað tryggir helst að vel takist til á því sviði?
     8.      Hvernig hefur forseti tryggt að unnt verði að breyta skipulagi hússins án mikils kostnaðar þar sem fjöldi þingflokka getur verið breytilegur? Eru tæknilegar kröfur uppfylltar í ljósi þess að fjórða iðnbyltingin kallar á mikinn sveigjanleika í hönnun og nýtingarmöguleikum nýbygginga?
     9.      Hefur Alþingi yfir húsakynnum að ráða sem teljast óhagkvæm í rekstri? Ef svo er, á hvaða forsendum byggist það mat? Hvers vegna er teikningum ekki breytt þannig að fyrirhuguð bygging rúmi allt starfsfólk þingsins og að unnt verði að leigja út eða ráðstafa á annan hátt húsnæði í eigu þingsins sem telst óhagkvæmt?


Skriflegt svar óskast.