Ferill 328. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 391  —  328. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um stöðu transfólks og intersex-fólks.


Flm.: Margrét Tryggvadóttir, Guðjón S. Brjánsson, Logi Einarsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Smári McCarthy, Björn Leví Gunnarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.


    Alþingi ályktar að Ísland taki forustu meðal þjóða heims þegar við kemur mannréttindum transfólks og intersex-fólks og sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga til að skilgreina kyn sitt. Alþingi fordæmir þá aðför sem nú er gerð að réttindum transfólks víða um heim.

Greinargerð.

    Kynvitund fólks er ekki alltaf í samræmi við það kyn sem fólki er úthlutað við fæðingu. Auk þess fæðast fjölmörg börn ár hvert með óráðin eða ódæmigerð kyneinkenni en það hefur stundum verið kallað breytileiki í líffræðilegu kyni.
    Réttarstaða transfólks og intersex-fólks á síðustu árum og áratugum hefur sem betur fer batnað þótt enn sé langt í land. Ísland er í 16. sæti á hinu svokallaða regnbogakorti sem Evrópusamtök hinsegin fólks (e. ILGA-Europe) gefa út árlega um réttindi hinsegin fólks. Ísland hefur dregist aftur úr en landið var í 14. sæti árið 2016. Þá standa önnur Norðurlönd Íslandi framar á kortinu. Malta trónir á toppnum en þar voru lög um réttindi transfólks og intersex-fólks samþykkt árið 2015. Ljóst er að við þetta verður ekki unað. Gera verður gangskör að því að tryggja réttindi transfólks og intersex-fólks hér á landi í hvívetna. Fyrirhugað frumvarp félags- og jafnréttismálaráðherra um kynrænt sjálfræði er þar skref í rétta átt. Samkvæmt þingmálaskrá 149. löggjafarþings er gert ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fram í febrúar 2019.
    Mannréttindi þessara hópa eru víða um heim virt að vettugi. Nú eru blikur á lofti og fréttir hafa borist af því að ríkisstjórn Donalds Trumps íhugi að afmá skilgreiningar á transfólki úr lögum og að kyn verði aðeins skilgreint sem tvö líffræðileg kyn sem fólki er úthlutað við fæðingu. Verði það að veruleika kæmi það illa niður á þeim viðkvæma hópi sem transfólk er, réttindi þeirra til að lifa í sátt við kynvitund sína væru afnumin og vernd transfólks væri engin. Breytingin hefði áhrif á 1,4 milljónir Bandaríkjamanna sem hafa kosið að skilgreina kyn sitt með öðrum hætti en það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu, með eða án aðgerða. Auk þess væri hún verulegt bakslag í réttindabaráttu transfólks og intersex-fólks um heim allan og setti hættulegt fordæmi. Full ástæða er til að fordæma þessa aðför að grundvallarmannréttindum transfólks sem felst í slíkum breytingum en þær mundu auk þess leiða til aukinna fordóma og jaðarsetningar transfólks og hefta verulega aðgengi þess að þjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, og hefta jafnframt þátttöku transfólks í samfélaginu.
    Sagan kennir okkur að fyrir öllum réttindum þarf að berjast. Víða um heim eru mannréttindi transfólks enn fótum troðin og hér á Íslandi mætti staðan svo sannarlega vera betri þótt ýmislegt hafi áunnist á síðustu árum. Mikilvægt er að standa vörð um þann árangur sem þegar hefur náðst og halda baráttunni áfram, innan lands sem utan.