Ferill 330. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 393  —  330. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um notkun ávarpsorða á Alþingi.


Flm.: Margrét Tryggvadóttir, Logi Einarsson, Guðjón S. Brjánsson, Smári McCarthy, Björn Leví Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að afleggja þá þingvenju að þingmenn séu í þingræðum ávarpaðir með orðunum „háttvirtur þingmaður“ og ráðherrar með orðunum „hæstvirtur ráðherra“.

Greinargerð.

    Á Alþingi hefur verið föst venja á þingfundum að alþingismenn séu ávarpaðir með orðunum „háttvirtur þingmaður“ og hafa forsetar jafnan gert athugasemdir ef út af er brugðið. Á sama hátt hefur það verið föst venja að ávarpa ráðherra með orðunum „hæstvirtur ráðherra“. Þessi þingvenja á sér þó ekki stoð í lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Skoðun flutningsmanna er sú að þau ávarpsorð sem flestir þingmenn hafa notað hingað til eigi ekki við í nútímaþjóðfélagi, séu úrelt og samræmist ekki þeirri lífsskoðun að allar manneskjur verðskuldi virðingu og að samfélag okkar skuli byggt á jafnrétti. Verðskuldi fólk sérstaka virðingu umfram aðra borgara ávinni það sér hana með störfum sínum og breytni en ekki stöðu eða hlutverkum.
    Í 66. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, segir: „Þingmaður, sem hefur óskað að taka til máls og fengið leyfi til þess, skal mæla úr ræðustól. Þó getur forseti heimilað ræðumanni að tala úr sæti sínu ef nauðsyn krefur. Sama gildir um ráðherra. Ræðumaður skal jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins en eigi ávarpa nokkurn einstakan þingmann. Kenna skal þingmann við kjördæmi hans eða nefna hann fullu nafni.“ Flutningsmenn leggja ekki til að þessari grein þingskapa verði breytt. Þingmenn skulu hér eftir sem hingað til beina máli sínu til forseta þingsins og ræða um aðra þingmenn og ráðherra í 3. persónu og nefna fullu nafni.
    Í helstu nágrannaríkjum okkar eru þingmenn og ráðherrar ávarpaðir með ýmsu móti í þingræðum. Í Danmörku er kveðið á um ávörp í þingræðum í 26. gr. þingskapalaga. Ræðumanni er þar ekki heimilt að beina orðum sínum til einstakra þingmanna í umræðum. Þingmenn, aðra en ráðherra, skal kalla herra eða frú að viðbættu nafni en án titils. Ráðherrar eru hins vegar ávarpaðir með embættisheiti en ekki nafni. Þingforseti er almennt ekki ávarpaður í danska þinginu. Við munnlegar fyrirspurnir nefnir forseti danska þingsins embættisheiti ráðherrans við upphaf og lok umræðunnar, annars kallar forseti hann aðeins „ráðherrann“. Forsetinn nefnir ekki nafn fyrirspyrjandans heldur kynnir hann einungis sem „fyrirspyrjandann“.
    Í Finnlandi er ekkert að finna í lögum um þingsköp um hvernig ávarpa skuli þingmenn og ráðherra og hið sama er að segja um norska þingið. Þar kynnir forsetinn þingmenn með embættisheiti og nafni áður en þeir fá orðið en þingmenn ávarpa hvorki forsetann né aðra. Í andsvörum eru þingmenn ekki nefndir áður en þeir fá orðið. Ekki er heldur ákvæði um ávörp í þingskapalögum sænska þingsins en þar er þingforseti kallaður herra eða frú. Þingmenn geta hver annars með nafni án þess að tilgreina titil eða kjördæmi. Ráðherrar eru nefndir með embættisheiti en forseti kynnir ræðumenn ekki hverju sinni.
    Flutningsmenn þessarar tillögu telja að hin hefðbundnu ávarpsorð sem tíðkast hafa á Alþingi séu arfur frá liðinni tíð og endurspegli þjóðfélag þar sem við hæfi þótti að sýna fólki ólíka framkomu eftir þjóðfélagsstöðu. Sem betur fer þykir það ekki sjálfsagt lengur. Þá eru ávarpsorðin flestum borgurum framandi og notkun þeirra í ræðustól á Alþingi kann að auka enn á þá tilfinningu þeirra að stjórnmálamenn séu í litlum tengslum við raunveruleikann og að það sem fram fari í þingsal sé líkara leikriti en innihaldsríkum umræðum. Þá hefur einnig borið á því að ávarpsorðin „háttvirtur þingmaður“ og „hæstvirtur ráðherra“ séu notuð til að hæðast að stjórnmálamönnum og hafa þá snúist upp í andhverfu sína.