Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 394  —  273. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um gjaldtöku Isavia á Keflavíkurflugvelli.


     1.      Hvaða reglur gilda um töku lendingargjalda, farþegagjalda, stæðisgjalda, flugverndargjalda, flugleiðsögugjalda og annarra gjalda sem við kunna að eiga á Keflavíkurflugvelli? Óskað er svara um gjöld innlendra sem erlendra flugfélaga og um gjaldskrá, greiðslufresti og úrræði til að innheimta gjöldin.
    Um töku notendagjalda, þ.e. lendingargjalda, farþegagjalda, stæðisgjalda og flugleiðsögugjalda sem og flugverndargjalda, gilda ákvæði 71. gr., 71. gr. a og 71. gr. b laga um loftferðir, nr. 60/1998, um gjaldtöku, notendanefnd og gagnsæi gjalda.
    Á grundvelli þeirra ákvæða og samkvæmt heimild í 10. gr. laga nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl, hefur verið sett notendagjaldskrá 1 Keflavíkurflugvallar og gjaldskrá fyrir flugleiðsögugjöld Isavia sem byggjast aðallega á tilmælum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) um gjaldtöku á alþjóðaflugvöllum. Þessi tilmæli koma fram í „ICAO's Policies on Charges for Airports and Air Navigation Services“ 2 og „ICAO's Airport Economics Manual“. 3 Þá er í gildi reglugerð um störf notendanefnda flugvalla 4 þar sem eitt af meginverkefnum nefndarinnar er að „taka til umræðu tillögur rekstraraðila um ákvörðun á hækkun gjalds; breytingu gjalds, nýtt gjald eða aðrar mikilvægar ráðstafanir sem snerta beint hagsmuni notenda“.
    Reglur um gjaldtöku af erlendum flugfélögum á Keflavíkurflugvelli eru þær sömu og af innlendum flugfélögum og má finna upplýsingar um gjaldtökuna undir meðfylgjandi hlekk. 5
    Upplýsingar um greiðslufresti koma fram í skilmálum Keflavíkurflugvallar. 6
    Hvað varðar úrræði Isavia til að innheimtu á flugtengdum tekjum þá standa félaginu til boða öll almenn innheimtuúrræði, auk þess sem hægt er að beita stöðvunarheimild skv. 136 gr. laga nr. 60/1998, um loftferðir. 7

     2.      Hvaða reglur gilda í tilvikum þar sem einstök flugfélög borga ekki framangreind gjöld:
                  a.      eru reiknaðir dráttarvextir af gjöldunum eða öðrum sektarúrræðum beitt,
                  b.      er jafnræði milli flugfélaga hvað þetta varðar,
                  c.      hvaða tryggingar þurfa flugfélög að setja fyrir greiðslu skulda?

    Hvað varðar dráttarvexti er vísað til greinar 9.2 í notendaskilmálum Keflavíkurflugvallar. 8
    Félagið leggur áherslu á jafnræði milli flugfélaga hvort sem um er að ræða gjaldtöku, innheimtu eða aðra þætti.
    Flugfélög þurfa almennt ekki að leggja fram tryggingar fyrir greiðslu viðskiptaskulda enda hafa úrræði eins og stöðvunarheimild tryggt greiðslu í flestum tilvikum.

     3.      Hve háum skuldum hafa einstök flugfélög safnað frá og með árinu 2013? Hverjar eru fjárhæðir stærstu skuldunauta? Hversu stór hluti skuldanna var kominn fram yfir gjalddaga?
    Málefni einstakra flugfélaga eru trúnaðarmál Isavia og viðkomandi flugfélags. Almennt greiðslufyrirkomulag er að tekin eru saman gjöld í lok hvers mánaðar og flugfélag hefur síðan annan mánuð í gjaldfrest.

     4.      Hefur einhverjum flugfélögum verið neitað um viðskipti vegna vangreiddra gjalda frá og með árinu 2013 og ef svo er, hversu mörg eru þau og í hvaða löndum voru þau skráð?
    Frá og með árinu 2013 hefur Isavia beitt stöðvunarheimild gagnvart einum flugrekanda en að öðru leyti hefur engum flugrekanda verið synjað um viðskipti vegna vangreiddra gjalda enda verður ekki séð að það sé heimilt. Um var að ræða stöðvun á flugvél í þjónustu Air Berlin sem kyrrsett var haustið 2017. Nokkur eldri sambærileg dæmi eru til um þetta.
1     www.isavia.is/en/corporate/business/keflavik-airport/aviation/airport-charges-and-terms-of-service
2     www.icao.int/publications/Documents/9082_9ed_en.pdf
3     www.icao.int/publications/Documents/9562_en.pdf
4     www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/947-2010
5     www.isavia.is/media/1/airport-charges-kef_july2017.pdf
6     www.isavia.is/media/1/terms-of-services2017.pdf
7     www.althingi.is/lagas/nuna/1998060.html
8     www.isavia.is/media/1/terms-of-services2017.pdf