Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 398  —  81. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003 (hafnsaga).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd .


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Frey Björnsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Gísla Gíslason frá Hafnasambandi Íslands og Guðjón Atlason og Friðjón Axfjörð Árnason frá Samgöngustofu.
    Nefndinni barst umsögn frá Samgöngustofu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, á þann veg að það sé skýrt að höfnum sé heimilt að mæla fyrir um hafnsögu innan hafnsvæða. Þá eru einnig lagðar til breytingar þannig að réttindi og skyldur leiðsögumanna samkvæmt lögunum verði skýrari en nú er.
    Nefndin telur frumvarp þetta til mikilla bóta enda mikilvægt að lagastoðin fyrir hafnsögu sé skýr. Verndarhagsmunir hafnsögu eru ótvíræðir, þ.e. öruggar siglingar og vernd gegn mengun hafs og stranda o.fl., og nauðsynlegt að kveðið sé á um hafnsögu og heimild hafna til að mæla fyrir um hafnsöguskyldu með skýrum hætti.
    Fram komu athugasemdir við 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins en samkvæmt þeirri málsgrein er leiðsögumanni heimilt að banna hverjum þeim sem ekki á lögmætt erindi að koma um borð í skip meðan hann hefur ekki lokið starfi sínu. Bent var á að ákvæðið væri ekki í samræmi við meginregluna um æðsta vald skipstjóra um borð í skipi eins og hún kemur fram í sjómannalögum, nr. 35/1985, og siglingalögum, nr. 34/1985. Brýnt væri að verkaskipting skipstjóra og leiðsögumanns væri skýr, þ.e. að skipstjóri beri ábyrgð á skipinu og siglingu þess en leiðsögumaður aðeins á leiðsögunni. Það sé skipstjóra að tryggja að leiðsögumaður verði ekki truflaður við störf sín að óþörfu, t.d. með því að banna þeim sem ekki eiga lögmætt erindi að koma um borð í skip. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins verði felld brott.
    Bent var á að óskýrt væri hvernig leiðsögumaður ætti að uppfylla þá skyldu sína sem fram kemur í 4. málsl. 2. mgr. 2. gr. að hann skuli reyna með öllum tiltækum ráðum að halda útbreiðslu mengunar í lágmarki. Nefndin bendir á að ekki er um nýtt ákvæði að ræða en þessa skyldu er að finna í 2. málsl. 2. mgr. 14. gr. gildandi laga. Framkvæmdin að þessu leyti er því óbreytt.
    Í ljósi framangreindra sjónarmiða leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    4. mgr. 2. gr. falli brott.

    Helga Vala Helgadóttir, Karl Gauti Hjaltason, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 8. nóvember 2018.

Bergþór Ólason,
form.
Ari Trausti Guðmundsson,
frsm.
Hanna Katrín Friðriksson.
Jón Gunnarsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.