Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 399  —  331. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir til að auka hlutfall vistvænna bifreiða í eigu eða umsjá ríkisins.


Flm.: Þorsteinn Víglundsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Ísleifsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að vinna samkvæmt eftirfarandi aðgerðaáætlun til að fjölga hlutfallslega vistvænum bifreiðum í eigu eða umsjá ríkisins:
     1.      Frá og með 1. júlí 2019 skuli einungis kaupa losunarfríar bifreiðar sem eigi að vera í eigu eða umsjá ríkisins og stofnana þess. Heimilt sé þó að víkja frá þessari meginreglu ef ekki er unnt að fá losunarfría bifreið sem hentar ætluðum notum hennar.
     2.      Frá og með 1. júlí 2020 verði losunarfríar bifreiðar 25% af heildarfjölda þeirra bifreiða sem eru í eigu eða umsjá ríkisins.
     3.      Frá og með 1. júlí 2022 verði losunarfríar bifreiðar 50% af heildarfjölda þeirra bifreiða sem eru í eigu eða umsjá ríkisins.
     4.      Ráðherra skuli tryggja fullnægjandi fjárframlög til viðkomandi ríkisstofnana til að mæta hærri stofnkostnaði sem framangreindum kröfum fylgi.
    Aðgerðaáætlunin taki til þeirra bifreiða sem keyptar séu eða teknar á rekstrarleigu á grundvelli reglugerðar nr. 1281/2014, um bifreiðamál ríkisins. Ráðherra vinni eftir aðgerðaáætluninni í samráði við bílanefnd, Ríkiskaup og þær ríkisstofnanir sem að kaupum eða rekstrarleigu koma.
    Til losunarfrírra bifreiða teljist:
     1.      Bifreiðar með brunahreyfil, sem ganga fyrir metani og hafa skráða eigin þyngd sem er minni en 1.600 kg.
     2.      Bifreiðar sem ganga eingöngu fyrir rafmagni (rafgeymabílar) og hafa skráða lengd sem er minni en 5 m.
     3.      Bifreiðar sem ganga fyrir vetni og hafa skráða lengd sem er minni en 5 m.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi er mikilvægt skref í átt að aukinni umhverfisvernd og sömuleiðis þýðingarmikill skerfur ríkisins til orkuskipta í samgöngum. Markmið tillögunnar er að stuðla að því að ríkið auki hlutfall vistvænna bifreiða í eigu og umsjá sinni stöðugt til ársins 2022. Að þeim tíma loknum er eðlilegt að aðgerðaáætlunin verði endurskoðuð og ný og metnaðarfyllri markmið sett.
    Ríkið hefur með aðgerðum sínum í skattamálum stutt við fjölgun vistvænna ökutækja í umferð. Þeim aðgerðum hefur ríkið þó ekki fylgt eftir með innleiðingu slíkrar tækni í bifreiðum í eigu og umsjá opinberra stofnana. Með því að bæta þar úr sýnir ríkið mikilvægt frumkvæði í umhverfisvernd og lætur einnig í ljós að fullur vilji sé til að ná tilætluðum árangri í orkuskiptum í samgöngum.
    Innkaupsverð vistvænna bifreiða er í mörgum tilvikum hærra en verð hefðbundinna bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Gera má ráð fyrir því að stofnkostnaður bifreiðakaupa hækki við framfylgd aðgerðaáætlunarinnar en að sama skapi er víst að hvort tveggja, rekstrarkostnaður ríkisins af bifreiðum og útblástur vegna bílaflota ríkisins, muni á móti lækka til frambúðar.
    Vistvæn ökutæki eru nú fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr og notagildi þeirra, sér í lagi bifreiða sem knúnar eru raforku, hefur aukist verulega með aukinni drægni. Mörg slík ökutæki hafa um og yfir 250 km drægni, sem telja verður að uppfylli þarfir flestra opinberra stofnana. Á markað eru einnig komnar vetnisknúnar bifreiðar sem hafa tvö- til þrefalda þessa drægni og er áfyllingartími þeirra hinn sami og hefðbundinna dísil- og bensínbifreiða. Þá er á markaði nokkurt framboð metanknúinna bifreiða og gera má ráð fyrir að framleiðsla á metani aukist verulega á næstu árum með tilkomu gasgerðarstöðvar Sorpu.
    Í hlutfallstölum aðgerðaáætlunarinnar er gert ráð fyrir takmörkunum vegna minna framboðs á sérútbúnum bifreiðum og vegna skorts á innviðum, sérstaklega á landsbyggðinni. Gert er ráð fyrir því að samhliða framfylgd áætlunarinnar verði innviðir til áfyllingar og viðhalds vistvænna bifreiða styrktir um allt land.