Ferill 245. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 407  —  245. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um þýðingu á íslenskum lögum og reglugerðum.


     1.      Hafa íslensk lög og reglugerðir verið þýdd á vegum ráðuneytisins og undirstofnana þess? Ef svo er, er óskað eftir að fram komi á hvaða tungumál var þýtt, hvenær þýðing var birt og hvenær þýðing var síðast uppfærð.
    Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins hefur þýtt bæði lög og reglugerðir er falla undir málefnasvið ráðuneytisins samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Í öllum tilfellum hefur verið þýtt af íslensku yfir á ensku. Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins, sem annast þýðingar á lagatextum sem falla undir EES-samninginn, hefur einnig þýtt lög og reglugerðir er falla undir málefnasvið annarra ráðuneyta, samkvæmt beiðni þeirra.
    Lög sem þýdd hafa verið, og falla undir málefnasvið utanríkisráðuneytisins, eru talin upp hér á eftir. Í sviga er skráningardagur þýðingar í kerfi Þýðingamiðstöðvar ráðuneytisins, sem er sami dagur og þýðingin var send frá Þýðingamiðstöð til verkbeiðanda.
          Breyting á lögum um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979 (20.6.2017),
          lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993 (5.6.2014),
          lög um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu, nr. 73/2007 (19.11.2015),
          varnarmálalög, nr. 34/2008 (31.1.2017),
          lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008 (27.5.2016), og
          frumvarp til laga um bann við vissum vopnum, sem lagt var fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi, 2014–15 (11.11.2015).
    Reglugerðir sem þýddar hafa verið, og falla undir málefnasvið utanríkisráðuneytisins, eru taldar upp hér að aftan. Í sviga er skráningardagur þýðingar í kerfi Þýðingamiðstöðvar ráðuneytisins, sem er sami dagur og þýðingin var send frá Þýðingamiðstöð til verkbeiðanda.
          Reglugerð um framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands, nr. 894/2009 (5.4. 2013),
          reglugerð um alþjóðlegar öryggisaðgerðir varðandi gereyðingarvopn, nr. 123/2009 (30.3.2017),
          reglugerð um þvingunaraðgerðir varðandi Íran, nr. 384/2014 (30.3.2017),
          reglugerð um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi, nr. 448/2014 (30.3.2017),
          reglugerð um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu, nr. 361/2016 (13.3.2012) og
          breyting á reglugerð um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu, nr. 361/2016 (26.4.2016).
    Upplýsingar um hvenær þýðing var birt og hvenær þýðing var síðast uppfærð liggja ekki fyrir.

     2.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess markað stefnu eða hyggjast marka stefnu um þýðingar, m.a. í ljósi þeirrar öru fjölgunar sem hefur orðið á fólki sem býr og starfar á Íslandi en hefur íslensku ekki að móðurmáli?
    Sérstök stefna hefur ekki verið mörkuð á þessu sviði. Ef það yrði ráðist í slíka stefnumörkun væri eðlilegt að stefna yrði mörkuð fyrir Stjórnarráðið og ríkisstofnanir í heild sinni.