Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 428  —  252. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um lánveitingu Seðlabanka Íslands til Kaupþings 6. október 2008.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver tók ákvörðun um að Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi 500 millj. evra neyðarlán, tæplega 78 milljarða kr. á þáverandi gengi, hinn 6. október 2008?
     2.      Hvernig ráðstafaði Kaupþing þessum fjármunum?
     3.      Hverjar voru innheimtur Seðlabanka Íslands af þessu láni?


    Með hliðsjón af efni fyrirspurnarinnar óskaði forsætisráðuneytið eftir því við Seðlabanka Íslands að stofnunin veitti ráðuneytinu svör við þeim spurningum sem settar eru fram í fyrirspurninni. Efnisleg svör Seðlabanka Íslands eru svohljóðandi:

    „Seðlabankinn telur rétt að gera grein fyrir því að áður hafa verið veitt svör við sambærilegum fyrirspurnum sem meðal annars hafa birst á opinberum vettvangi. Í þessu samhengi má til að mynda benda á upplýsingar sem Seðlabankinn veitti fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í febrúar 2013.
    Svör Seðlabankans við fyrrgreindum fyrirspurnarliðum eins og þeir birtast í erindi forsætisráðuneytisins eru eftirfarandi.
    Svar við 1. spurningu:
    Tildrög lánveitingarinnar voru þau að hinn 6. október 2008 óskaði Kaupþing hf. eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum í erlendri mynt til skamms tíma. Í ljósi aðstæðna og að höfðu samráði við forsætisráðherra (sbr. samtal sem fram fór símleiðis milli þáverandi formanns bankastjórnar og þáverandi forsætisráðherra) tók bankastjórn Seðlabankans ákvörðun að veita Kaupþingi hf. þrautavaralán, að fjárhæð 500 milljónir evra. Lánið var veitt til fjögurra daga og var ákvörðun um lánveitinguna tekin af bankastjórn Seðlabankans.
    Svar við 2. spurningu:
    Seðlabanki Íslands býr ekki yfir heildstæðum og áreiðanlegum upplýsingum um það hvernig Kaupþing hf. ráðstafaði umræddum fjármunum. Fyrirspurn um þetta efni verður því að beina til Kaupþings ehf.
    Svar við 3. spurningu:
    Endurheimtur lánsins nema í dag tæplega tveimur milljörðum danskra króna. Það samsvarar um 260 milljónum evra eða 52% af upphaflegu láni. Ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um endurheimtur og líklegt að eitthvað innheimtist í viðbót. Það eru hins vegar mjög ólíklegt að það verði í þeim mæli að endurheimtuhlutfallið hækki umtalsvert.
    Þess skal að lokum getið að Seðlabankinn hefur um nokkra hríð unnið að skýrslu um tildrög og eftirmál þrautavaralánveitingar til Kaupþings hf. og er vonast til að svigrúm verði til að ljúka því verki á þessu ári.“

    Hvað varðar svar Seðlabanka Íslands við lið 2 í fyrirspurninni þá hefur ráðherra í hyggju að óska eftir því við Seðlabanka Íslands að bankinn óski svara frá Kaupþingi ehf. um ráðstöfun umræddra fjármuna og jafnframt að bankinn greini frá niðurstöðu þeirra umleitana í skýrslu sinni sem vikið er að í framangreindu svari Seðlabanka Íslands, um tildrög og eftirmál þrautavaralánveitingar til Kaupþings hf., og eftir atvikum að bankinn greini frá því í skýrslunni hvernig fjármununum var varið, að því marki sem bankinn telur slíkt heimilt með hliðsjón af lögum og reglum um bankaleynd og þagnarskyldu sem ríkja skal um slíkar upplýsingar.