Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 432  —  265. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um mat á kostnaðaráhrifum
laga um jafna meðferð á vinnumarkaði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða upplýsingar lágu til grundvallar mati ráðuneytisins á kostnaðaráhrifum laga um jafna meðferð á vinnumarkaði varðandi þá þætti sem vísað er til í greinargerð með frumvarpi til laganna? Var t.d. kostnaður við eftirlit, ráðgjöf, fræðslu, upplýsingastarfsemi og rannsóknir metinn?

    Í 5. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, er kveðið á um að Jafnréttisstofa skuli annast framkvæmd laganna og að 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skuli gilda eftir því sem við geti átt. Í ljósi framangreinds er Jafnréttisstofu meðal annars falið að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, að sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi og að veita stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf, sbr. 4. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum.
    Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, kemur meðal annars fram að innan útgjaldaramma Jafnréttisstofu hafi verið gert ráð fyrir kostnaði sem leiði af lögfestingu frumvarpsins. Í því sambandi ber að geta þess að í fjárlögum fyrir árið 2015 var gert ráð fyrir auknu fjármagni til Jafnréttisstofu sem nam 20 millj. kr., eða tveimur stöðugildum, á þeim tíma til að stofnuninni væri unnt að takast á við ný verkefni á grundvelli tveggja frumvarpa sem þá lágu fyrir. Um var að ræða frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna en Alþingi hefur samþykkt bæði þessi frumvörp sem lög.