Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 461  —  1. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


Efnahagshorfur.
    Blikur er á lofti í efnahagsmálum. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að verðbólga aukist samfara gengisveikingu, sem þegar er hafin, og hækkunar á verði olíu. Nýleg stýrivaxtahækkun Seðlabankans undirstrikar áhyggjur af vaxandi verðbólgu. Kjarasamningar mikils meiri hluta vinnumarkaðarins renna út í lok ársins og byrjun næsta árs og því ríkir mikil óvissa um launaþróun ársins 2019 og síðar. Launaforsendur umfram forsendur fjárlaga vega mjög þungt í lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs. Búist er við að atvinnuleysi aukist jafnt og þétt út spátímann samfara minni spennu í þjóðarbúskapnum. Í fjárlagafrumvarpinu er of mikill útgjaldavöxtur. Ekki er búið nægilega vel í haginn fyrir það sem fram undan er. Ef forsendur bresta er óljóst til hvaða úrræða stjórnvöld ætla að grípa. Sýna hefði átt meira aðhald í ríkisbúskapnum á tímum góðæris. Óraunhæf er af stjórnvöldum að treysta áfram á mikinn hagvöxt.
    Ekkert bendir til að lækkun á gengi krónunnar undanfarið um 10–15% komi til með að ganga til baka. Lækkunin kemur til með að hafa áhrif á gengistryggð lán ríkissjóðs. Þeir þættir sem hér hafa verið nefndir benda eindregið til þess að afgangur í ríkisfjármálum upp á 1% af landsframleiðslu eða 29,7 milljarða kr. sé ekki nægilegur. Afgangurinn er of lítill miðað við þanda tekjustofna og afgang af síðasta hagvaxtarskeiði. Uppsveiflur taka enda og svo virðist sem ríkisstjórnin sé ekki nægilega meðvituð um það. Greinilegt er að það hægir hratt á vexti hagkerfisins. Minni hagvöxtur dregur úr tekjum ríkissjóðs. Verði hagvöxtur minni en spár gera ráð fyrir gæti afkoma ríkissjóðs hæglega breyst í halla. Lítið má því út af bregða. Mikilvægt er að hafa í huga í þessu sambandi að útgjaldaaukning frá frumvarpi til fjárlaga og umframkeyrsla frá fjárlögum til ríkisreiknings er regla fremur en undantekning. Í 22 ár samfleytt hafa útgjöld aukist frá frumvarpi til ríkisreiknings. Líklegt er því að útgjöld verði töluvert meiri en lagt er upp með í frumvarpinu. Boginn er hátt spenntur í útgjöldum hins opinbera og svigrúmið því lítið til að breyta tekjuöflun og skerpa á tekjujöfnunarhlutverki beinna skatta.
    Ríkisútgjöld munu aukast um 57 milljarða kr. á árinu 2019, eða um rúmlega 1 milljarð kr. á viku, samkvæmt frumvarpinu. Ríkisútgjöld á hvern Íslending hafa aldrei verið meiri, mælt á föstu verðlagi, og eru opinber umsvif ein þau mestu meðal þróaðra ríkja. Af hverjum 100 kr. sem verða til í hagkerfinu er 38 kr. ráðstafað af hinu opinbera og ljóst er að vandinn í opinberum rekstri liggur í skorti á forgangsröðun en ekki á fjármagni. Þetta kemur m.a. fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjárlagafrumvarpið.
    Í frumvarpinu er athyglisverður en stuttur kafli á bls. 91 sem ber yfirskriftina: Efnahagslegir óvissuþættir. Þar kemur m.a. fram að 40% stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins telja að aðstæður í atvinnulífinu muni versna á næstu sex mánuðum en aðeins 7% telja að þær muni batna. Uppsagnir á starfsfólki eru þegar byrjaðar. Þrátt fyrir aðvaranir úr ýmsum áttum er enn bætt í ríkisbáknið og ríkisútgjöldin í hæstu hæðum. Fyrirhyggja til framtíðar er því af skornum skammti.
    Ferðaþjónustan er orðin okkar mikilvægasta atvinnugrein og stendur hún undir 42% af útflutningsverðmætum þjóðarinnar. Því er ljóst að verði mikill samdráttur í greininni mun það hafa veruleg áhrif á þjóðarbúskapinn. Nú þegar hefur dregið úr komu erlendra ferðamanna til landsins. Nauðsynlegt er að gerðar verði sviðsmyndagreiningar um áhrif þess ef mikill samdráttur verður í greininni. Því er ekki fyrir að fara og verður það að teljast töluverður annmarki á fjármálastjórnun ríkisins, sérstaklega í ljósi umfangs ferðaþjónustunnar á tekjuöflunarhlið ríkissjóðs.
    Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að skuldir og vaxtagreiðslur ríkisins muni halda áfram að lækka. Ánægjulegt er að sjá þann árangur sem náðst hefur í þessum málum og hafa margir utanaðkomandi þættir skipt þar verulegu máli. Gert er ráð fyrir að hlutfall brúttóskulda af VLF verði 31% í lok næsta árs en skuldahlutfallið var hæst 86% af VLF árið 2011. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru hins vegar enn mjög miklar þó að þær hafi lækkað með lægri skuldum ríkissjóðs. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er reiknað með að þær verði um 40 milljarðar kr. á næsta ári, sem er lækkun um 26 milljarða kr. frá árinu 2011.
    Að mati 3. minni hluta sýnir ríkisstjórnin af sér óþarfa ábyrgðarleysi með því að falla frá markmiðum sínum í fjármálaáætlun um að afgangur á fjárlögum nemi 1%. 3. minni hluti bendir á að fjárlög eiga að vera í samræmi við fjármálaáætlun og því ber ríkisstjórninni að bregðast við því í síðasta lagi við 3. umr. til þess að standast eigin og lögboðin markmið.
    Í bréfi fjármála- og efnahagsráðherra til fjárlaganefndar, dagsett 13. október sl. segir að tekjuáætlun frumvarpsins hafi verið uppfærð með hliðsjón af gögnum sem fallið hafa til síðan áætlunin var gerð í júní sl. Þar beri helst að nefna endanlegt tekjuuppgjör ríkisreiknings 2017, o.fl. Í því sambandi er rétt er að benda á að ríkisreikningur fyrir árið 2017, sem kom nýlega út, er gefinn út án álits Ríkisendurskoðunar. 3. minni hluti telur umhugsunarvert fyrir Alþingi að Ríkisendurskoðun telji sér ekki fært að gefa út umrætt álit og hvaða afleiðingar það kann að hafa. Það hlýtur að vera krafa Alþingis að ríkisreikningur sé þannig úr garði gerður að hann sé hægt að árita án fyrirvara, því í honum er gerð grein fyrir öllum tekjum ríkissjóðs og ráðstöfun þeirra. Allt annað hlýtur að vera óásættanlegt.
    Gagnrýnisvert er að ríkisstjórnin ætlar að fjármagna breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið vegna breytinga í hagspá, sem og breytingar, sem ríkisstjórnin gerir við frumvarpið við 2. umr., með sölu losunarheimilda koltvísýrings að fjárhæð a.m.k. 4 milljarðar kr. 3. minni hluta sýnist margt benda til þess að í framtíðinni þurfi stjórnvöld að kaupa þessa kvóta til baka á mun hærra verði þar sem ekki virðist líklegt að Ísland geti haldið sig innan losunarheimilda. 3. minni hluti telur að ríkisstjórnin þurfi að rökstyðja að þessi ráðstöfun sé skynsamleg til framtíðar litið áður en fjárlög verða afgreidd, ellegar draga þessa fyrirætlun til baka.

Ísland er háskattaríki.
    Ísland er háskattaríki í alþjóðlegum samanburði. Skattahækkanir fyrri ára standa að mestu óhreyfðar. Það ætti að vera forgangsmál að draga til baka þær skattahækkanir sem gripið var til kjölfar bankahrunsins. Á síðasta ári var fjármagnstekjuskattur hækkaður en um leið lofað að endurskoða skattstofninn. Hvergi er minnst á slíka endurskoðun í fjárlagafrumvarpinu. Þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp var lágt skatthlutfall rökstutt með breiðum skattstofni. Nú er skattstofninn enn breiður en skatthlutfallið hefur tvöfaldast. Miðflokkurinn leggur áherslu á að nú þegar skuldir ríkisins lækka hratt sé ráðrúm til að huga að lækkun skatta á fólk og fyrirtæki í landinu en ekki stækka ríkisbáknið eins og ríkisstjórnin er sérstaklega áhugasöm um.

Frekari lækkun tryggingargjalds nauðsynleg og skynsamleg.
    Skattheimta á íslensk fyrirtæki er há í alþjóðlegum samanburði og nú sú næsthæsta á Norðurlöndunum á eftir Noregi. Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir eftir efnahagshrunið 2008 í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu. Skattabreytingar þessar hafa hins vegar verið að festast í sessi síðan. Mikil tregða hefur verið hjá ríkisvaldinu að lækka tryggingagjaldið en það er einn stærsti tekjustofn ríkissjóðs en samkvæmt frumvarpinu mun það skila 14,4% af skatttekjum ríkissjóðs á næsta ári.
    Þriðji minni hluti lýsir yfir vonbrigðum með það að í fjárlagafrumvarpinu skuli ekki vera gert ráð fyrir meiri lækkun tryggingagjalds en raun ber vitni. Hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtækjum þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar.
    Hátt tryggingagjald veikir samkeppnishæfni þessara fyrirtækja mest. Bætt samkeppnishæfni Íslands er mjög mikilvæg og sérstaklega nú þegar hægir hratt á efnahagslífinu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega lögð áhersla á lækkun tryggingagjaldsins en hún er hins vegar ekki nægileg, um það hafa m.a. Samtök iðnaðarins ályktað.
    Þrátt fyrir boðaða lækkun tryggingagjaldsins um 0,25% er reiknað er með því að tryggingagjaldið skili rúmlega 100,8 milljörðum kr. í ríkissjóð á næsta ári, sem er meira en á þessu ári. Skýringin fellst í því að laun hafa hækkað. Ríkið fær því meira í kassann þrátt fyrir lækkun gjaldsins.
    Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur versnað á undanförnum árum vegna innlendra kostnaðarhækkana mældra í erlendri mynt. Sú þróun er nú sýnileg í minni verðmætasköpun útflutningsgreina og þeirra fyrirtækja á innlendum markaði sem keppa við erlend fyrirtæki.
    Fyrir efnahagshrunið árið 2008 var tryggingagjaldið 5,34% en var hækkað í 8,65% í kjölfar þess. Hækkunin var hugsuð sem tímabundin aðgerð til þess að standa straum af stórauknum útgjöldum vegna skyndilegs atvinnuleysis. Forsendurnar fyrir hækkuninni og þau rök sem þá voru notuð til að hækka gjaldið eiga ekki lengur við þar sem atvinnuleysi hefur verið mjög lítið í langan tíma, en 1. september sl. var það einungis 2,3%. ASÍ hefur stutt að mikilvægt sé að skila hækkun tryggingagjaldsins til baka.
    Það sætir nokkurri undrun hversu treg stjórnvöld hafa verið til að lækka tryggingagjaldið. Staðreyndin er hins vegar sú að tryggingagjaldið hefur í vaxandi mæli verið notað til að fjármagna önnur útgjöld ríkissjóðs en því var ætlað.
    Eigi lækkunin að þjóna þeim tilgangi að stuðla að jafnvægi á vinnumarkaði og að launahækkanir á næsta ári leiði síður til verðbólgu þarf hún að vera mun meiri en 0,25%.
    Gjaldið er reiknað sem hlutfall af þeim launum sem fyrirtækið greiðir til starfsmanna sinna. Því fleiri krónur sem fyrirtækið greiðir í laun, því hærri fjárhæð þarf það að greiða í tryggingagjald. Því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er, því dýrari er hver starfsmaður fyrir fyrirtækið. Því hærri sem prósentan er, því minni launahækkunum getur fyrirtækið staðið undir. Gjaldið dregur úr getu fyrirtækja til að fjárfesta og búa til störf. Vaxtarmöguleikar einkafyrirtækja eru því skertir með háu tryggingagjaldi.
    Þriðji minni hluti mun flytja breytingartillögu við frumvarpið um að tryggingagjaldshlutfallið lækki um 0,5% á næsta ári í stað 0,25% eins og segir í frumvarpinu. Við breytingartillöguna muni gjaldið þá lækka úr 6,85% í 6,35%.
    Eðlilegt er að miða við að þessi skattheimta verði ekki meiri en hún var fyrir hrun, þegar atvinnustigið var sambærilegt og nú. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að gjaldið lækki aftur árið 2020 og þá um önnur 0,25%. Þrátt fyrir það mun enn vanta heilt prósentustig upp á að tryggingagjaldið verði sama hlutfall af launagreiðslum fyrirtækja og það var fyrir fjármálahrunið.
    Í frumvarpinu segir að tekjuáhrif af lækkun tryggingagjalds um 0,25% á næsta ári séu neikvæð fyrir ríkissjóð um 4 milljarða kr. Því kynnu einhverjir að álykta sem svo að lækkun um 0,5% myndi þýða tekjulækkun fyrir ríkissjóð upp á 8 milljarða kr. Svo er ekki þar sem lækkunin gerir fyrirtækjum auðveldara með að ráða nýtt starfsfólk og að gera betur við það sem fyrir er, sem eykur síðan skatttekjur ríkissjóðs. Ávinningurinn af góðri lækkun gjaldsins er því mikill og ekki síst nú þegar erfiðar kjaraviðræður eru fram undan.

Stefnulaus kolefnisskattur – ekki jafnað niður á landsmenn á sanngjarnan hátt.
    Kolefnisgjald er nýr skattur á Íslandi. Í frumvarpinu kemur fram að tekjur af kolefnisgjaldi séu áætlaðar 5,9 milljarðar kr. árið 2019. Gjaldið hefur nú þegar hækkað um 50% á mjög skömmum tíma eða frá 2017. Skatttekjurnar eru ekki eyrnamerktar aðgerðum í loftslagsmálum og aðeins hluti þeirra rennur þangað. Að mati 3. minni hluta er hækkun gjaldsins úr öllu hófi. Gert er ráð fyrir enn frekari hækkun eða 10% á næsta ári og er áætlað að það skili ríkissjóði 550 millj. kr. í tekjur að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Kolefnisgjaldi nemur nú um 11 kr. á hvern lítra af bensíni og 12,6 kr. á dísilolíu. Þessar auknu álögur á eldsneyti bitna sérstaklega á landsbyggðinni. Færa má rök fyrir því að með kolefnisgjaldinu sé verið að skattleggja landsbyggðarfólk umfram aðra enda er rafbílavæðingin mun auðveldari á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni þar sem innviðir eins og hleðslustöðvar eru mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu. Engu síður hafa rafbílaeigendur kvartað yfir því að innviðir fyrir rafbíla séu engan veginn fullnægjandi í höfuðborginni, hvað þá á landsbyggðinni. Innviðauppbygging er einfaldlega of skammt á veg komin. Auk þess nota íbúar á landsbyggðinni í mun ríkara mæli bifreiðar knúnar með jarðefnaeldsneyti, aka meira vegna fjarlægðar og kaupa því meira eldsneyti.
    Eðlilegt er að samhliða hækkun kolefnisgjalds lækki gjöld og skattar á umhverfisvæna starfsemi, ef markmiðið er það eitt að draga úr mengun. Svo er þó ekki.
    Meginmarkmið kolefnisgjaldsins er að hvetja bæði heimili og fyrirtæki til þess að draga úr losun með því að skipta yfir í hreina orku. Í fyrsta lagi er það alls ekki á færi allra að skipta yfir í rafmagnsbifreið og í öðru lagi henta rafmagnsbifreiðar síður á landsbyggðinni enn sem komið er. Lýtur það fyrst og fremst að drægni bifreiðanna og fjölda hleðslustöðva. Kolefnisgjaldið leggst því með öðrum hætti á íbúa höfuðborgarsvæðisins annars vegar og íbúa landsbyggðarinnar hins vegar. Það er því í raun munur á gjaldheimtu milli þessara hópa. Þannig bitnar skatturinn hlutfallslega verst á þeim tekjulægri og íbúum landsbyggðarinnar.
    Hvatning til orkuskipta er góðra gjalda verð en hún verður að vera í takti við raunveruleikann. Orkuskipti fyrir sjávarútvegsfyrirtæki, ýmsan iðnað og atvinnutæki er ekki raunhæfur kostur sem stendur. Kolefnisskatturinn hefur bein efnahagsleg áhrif á hagkerfið. Án nokkurra mótvægisaðgerða dregur skatturinn þrótt úr hagkerfinu og minnkar samkeppnishæfni fyrirtækja. Hugmyndafræðin er göfug en stjórnvöld verða að ígrunda vel tilgang, forsendur og markmið með skattheimtunni, sérstaklega hverja er verið að skattleggja og hverja ekki. Markmiðið með gjaldinu er að draga úr losun án þess að grafa undan samkeppnishæfni atvinnulífs og ætti það sama að gilda hér á landi. Í öðrum löndum hafa því aðrir skatta verið lækkaðir á móti gjaldinu eða undanþágur gefnar frá öðrum sköttum. Ísland er t.d. eina ríkið í Evrópu þar sem fiskiskipaflotinn nýtur engrar undanþágu eða styrkja hvað varðar eldsneytisskatta. Það minnkar samkeppnishæfnina enn frekar.
    Hagstofa Íslands hefur gert rannsóknir á útgjöldum heimilanna og þar kemur fram að eldsneytisnotkun er þó nokkuð meiri í dreifbýli. Munurinn endurspeglar þá staðreynd að íbúar landsbyggðarinnar þurfa jafnan að ferðast um lengri veg. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur viðurkennt að áhrif kolefnisgjaldsins séu meiri á íbúa í dreifbýli. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi fyrir skömmu. Kolefnisgjaldið er því í raun klassísk skattahækkun á fólk og fyrirtæki þar sem skattlagningin kemur þyngra niður á landsbyggðinni. Þessari nýju skattbyrði er því ekki jafnað niður á landsmenn á sanngjarnan hátt. Við þetta má bæta að umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sagt að erfitt sé að meta nákvæmlega árangur af gjaldinu, mældan í minni losun en ella hefði verið hefði gjaldið ekki verið lagt á. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi.
    Engar aðgerðir eru boðaðar í frumvörpum tengdum fjárlagafrumvarpinu, sem koma til móts við landsbyggðina vegna gjaldsins. Auk þess er ekki að sjá að ívilna eigi umhverfisvænni starfsemi eða að aðrir skattar verði lækkaðir til mótvægis. Breytingar á kolefnisgjaldi er skattahækkun, klædd í búning græns skatts. Eðlilegt væri þá að lækka gjöld á aðra umhverfisvæna þætti. Við verðum einnig að horfa til annarra landa í þessum efnum. Í Danmörku fóru stjórnvöld t.d. of geyst á stað þegar þau hækkuðu skatta vegna umhverfismála á fyrirtæki. Í Noregi er kolefnisgjald lægra en á Íslandi og að hluta til endurgreitt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Kolefnisgjaldið má ekki auka kostnað íslenskra fyrirtækja umfram það sem erlendir samkeppnisaðilar búa við. Slíkt dregur úr samkeppnishæfni, rýrir afkomu íslensku fyrirtækjanna og þar með svigrúm til fjárfestinga. Um leið dregur úr líkum á því að markmiðinu með gjaldinu verði náð.
    Það sem minnkar samkeppnishæfnina enn frekar er að aðilar sem ekki eru virðisaukaskattsskyldir hér á landi eru undanþegnir kolefnisgjaldinu. Þannig þurfa erlend skip sem taka olíu hér á landi ekki að greiða gjaldið en í sumum tilvikum eru þau við veiðar á sömu veiðislóð og þau íslensku. Hvorki erlend fiskiskip, skemmtiferðaskip né flutningaskip greiða kolefnisgjald við eldsneytistöku hér á landi og ekkert kolefnisgjald er greitt af flugeldsneyti hérlendis í ríkissjóð.
    Þótt tækniframþróun sé hröð í þessum efnum er það ekki svo að hægt sé að fá stærri ökutæki, vinnuvélar og sum iðnaðartæki þannig að þau nýti endurnýjanlega orkugjafa. Það á t.d. við í jarðvinnugeiranum og landbúnaði. Orkuskipti er því ekki raunhæfur kostur sem stendur, sér í lagi fyrir iðnað og atvinnutæki sem nota svokallaða litaða olíu en möguleikar slíkra aðila til orkuskipta eru hverfandi.
    Kolefnisgjaldið er skattur sem leggst með mismunandi hætti á atvinnugreinar og eðlilegt að gerð sé krafa um að til sé heildstæð stefna í málaflokknum áður en lengra er haldið.
    Miðflokkurinn leggur því til að boðuð hækkun kolefnisgjaldsins í fjárlagafrumvarpinu um 10% komi ekki til framkvæmda og að auki verði 50% hækkun gjaldsins frá 2017 felld niður þar til heildstæð stefna liggur fyrir um hvernig Ísland ætlar að nota kolefnisgjöld í baráttunni við loftslagsbreytingar, án þess að þær bitni á landsbyggðinni eða samkeppnishæfni atvinnugreina og dragi þróttinn úr hagkerfinu. Halli ríkissjóðs vegna þess er áætlaður um 2,3 milljarðar kr., en til að mæta því verði eigið fé ríkisbankanna lækkað samsvarandi í formi arðgreiðslu til ríkissjóðs.
    Lækkunin á kolefnisgjaldinu mun draga úr verðbólguþrýstingi með lækkun á verði eldsneytis.

Séreignarsparnaður – mikilvægt úrræði fellt niður þvert á ráðleggingar.
    Að greiða niður skuldir er árangursrík leið til eignamyndunar og eiga stjórnvöld á hverjum tíma að leitast við að skapa aðstæður sem hvetja íbúðareigendur til að greiða niður skuldir eins og kostur er. Með því að greiða inn á íbúðalán með viðbótarlífeyrissparnaði nýtur viðkomandi skattaafsláttar og mótframlags launagreiðanda auk þess sem innborgunin lækkar heildarvaxtagreiðslur og -verðbætur. Hér hefur verið um mikilvægt úrræði að ræða sem felur í sér skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar til íbúðakaupa og inn á höfuðstól húsnæðislána. Samkvæmt upplýsingum frá lífeyrissjóðum hefur þetta úrræði verið töluvert notað. Rúmlega 6.500 einstaklingar hafa sótt um úrræðið vegna kaupa á fyrstu íbúð. Í október sl. var greitt inn á lán hjá tæplega 3.000 einstaklingum og í sama mánuði bárust 408 umsóknir samkvæmt nýjustu upplýsingum frá ríkisskattstjóra.
    Við íbúðakaup hafa þeir sem nýtt hafa sér þetta úrræði getað fengið séreign útborgaða skattfrjálst upp í kaup á íbúð. Inn á höfuðstól húsnæðislána hefur verið heimilt að greiða allt að 4% framlag launþega og 2% framlag launagreiðanda, hámark 500.000 kr. á ári fyrir einstakling en 750.000 kr. á ári fyrir hjón, eða aðra sem uppfylla skilyrði til samsköttunar.
    Verð á fasteignum hér á landi hefur hækkað verulega á undanförnum árum. Framboð íbúða annar engan veginn eftirspurn. Flestir undirliggjandi þættir vísa því til þess að fasteignaverð, sem er í hæstu hæðum, lækki ekki í bráð. Þrátt fyrir þetta hefur ríkisstjórnin ákveðið að falla frá heimild til nýtingar séreignarsparnaðar til íbúðakaupa og niðurgreiðslu íbúðalána. Þetta kemur fram í frumvarpinu á bls. 114 og á að taka gildi um mitt ár 2019. Að mati 3. minni hluta er hér um að ræða óskynsamlega ráðstöfun að hálfu ríkisstjórnarinnar. Draga mun auk þess úr uppsöfnun séreignarsparnaðar í stað þess að auk ætti heimildir hvað þetta sparnaðarform varðar. Starfshópur sem forsætisráðherra skipaði (júní 2017) til að fara yfir hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs lagði einmitt áherslu á að auka svigrúm til séreignar- og húsnæðissparnaðar. Hópurinn skilaði vandaðri skýrslu í byrjun þessa árs.
    Starfshópurinn leggur til, að því gefnu að lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð verði hækkað úr 12% af launum í 15,5%, að stjórnvöld skoði í samráði við hagsmunaaðila að lögum verði breytt þannig að einstaklingar fái auknar heimildir til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til húsnæðissparnaðar og jafnframt að sjóðfélagar geti ráðstafað 3,5% af 15,5% lágmarksiðgjaldi í séreign eða til húsnæðissparnaðar að eigin vali. Enn fremur verði tryggður sveigjanleiki sjóðfélaga til að nýta séreignarsparnaðinn til að greiða inn á húsnæðislán og/eða við kaup á íbúð.
    Með útreikningum hefur verið sýnt fram á að einstaklingar, sem leggja fyrir 15,5% af launum í lífeyrissjóð alla starfsævina, munu safna upp tiltölulega góðum eftirlaunaréttindum. Með viðbótarlífeyrissparnaði geta eftirlaun jafnvel orðið meiri en atvinnutekjur. Starfshópur leggur því til að stjórnvöld skoði að auka heimildir til séreignarsparnaðar og til að nýta launatengdan lífeyrissparnað til húsnæðissparnaðar.
    Ekki verður annað séð en að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fella almenna úrræðið um úttekt iðgjalda séreignarsparnaðar, til kaupa á íbúð eða til þess að greiða niður húsnæðislán, gangi þvert á tillögur starfshópsins og eru það mikil vonbrigði. Því leggur 3. minni hluti til breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að heimildarákvæðið til nýtingar séreignarsparnaðar til íbúðakaupa og niðurgreiðslu íbúðalána verði framlengt ótímabundið þegar ákvæðið á að renna út um mitt næsta ár.

Húsnæðismál og vaxtabætur – verklítil ríkisstjórn.
    Ríkisstjórnin státar sig af því að samtals nemi húsnæðisstuðningurinn 25,5 milljörðum kr. Þessi stuðningur er að mestu leyti við eftirspurnarhlið íbúðamarkaðarins, t.d. vaxta- og húsnæðisbætur upp á 9,6 milljarða kr. Ekki verður séð að ríkisstjórnin taki á þeim húsnæðisvanda sem hér ríkir með raunhæfum lausnum. Reynsla síðustu ára ber augljóslega með sér að þessi aðferð hefur ekki náð tilætluðum árangri. Stuðningur við eftirspurnarhliðina hækkar verð og ýtir undir sveiflur. Auka þarf húsnæðisframboðið sem leiðir síðan til lækkunar á húsnæðisverði. Gríðarlegar hækkanir á húsnæðisverði á síðustu árum eru fyrst og fremst komnar til vegna skorts á húsnæði. Lítið framboð þýðir hærra verð. Íbúðum á markaði fjölgar ekkert þó svo að ríkisstjórnin setji meiri fjármuni í vaxtabætur. Það þarf að ráðast gegn rótum vandans, sem er skortur af íbúðahúsnæði á markaði. Nóg framboð af húsnæði þýðir lægra verð.
    Stjórnvöld eiga að ráðast í aðgerðir til að lækka byggingarkostnað. Lækkun byggingarkostnaðar skapar aukinn hvata til að byggja. Þannig eykst framboðið og verðið tekur að lækka. Skipulagsferlið er of svifaseint. Einfalda þarf regluverkið í byggingaiðnaði en flókið regluverk og ríkar kröfur auka tíma og kostnað sem fer í byggingu húsnæðis hér á landi. Auk þess er stofnanaumhverfið í þessum málaflokki óskilvirkt. Samræma þarf reglur um lóðaúthlutanir og ríkisvaldið þarf að styðja sveitarfélögin í því að drífa ferlið áfram. Stytta þarf byggingartímann t.d. með því að nota einingahús í ríkara mæli, hvort heldur er úr timbri eða steinsteypu, þar sem uppsetning er hröð og einföld.
    Í frumvarpinu kemur fram að hækka eigi vaxtabætur um 13% milli ára og 3,4 milljarðar kr. verði lagðir í þennan málaflokk. Engu að síður er hér um sögulega lága upphæð að ræða. Hin mikla hækkun á húsnæðisverði undanfarin ár hefur étið upp vaxtabæturnar. Einn helsti skerðingarþáttur vaxtabóta er hækkun á verðmæti eignar, aðrir þættir hafa þarna einnig áhrif eins og hækkun launa og fjármagnstekjur. Frá árinu 2010 hafa vaxtabætur lækkað um rúma 8 milljarða kr. og þeim fjölskyldum sem eiga rétt á þeim fækkað um rúm 30 þúsund. Það er því búið að taka vaxtabæturnar af fjölda fólks. Það er því ekki raunverulegt peningasjóðsstreymi í þessari boðuðu hækkun bótanna. Bótagreiðslur til húsnæðiseigenda hafa hríðlækkað á sama tíma og skattar á húseigendur hafa hækkað umtalsvert. Það sem skiptir höfuðmáli í þessu eru skerðingarmörkin, þ.e. hvenær byrja vaxtabæturnar að skerðast. Skerðingar- og niðurfellingarmörk vaxtabóta hafa engan veginn fylgt verðlagi. Auk þess hafa hámarksgreiðslur vaxtabóta nánast haldist þær sömu síðan 2011. Árið 2009 fengu 69% einhleypra fasteignaeigenda vaxtabætur, árið 2017 var þessi tala komin niður í 28%. Skerðingar- og niðurfellingarmörkum vaxtabóta verður að breyta. Ekki verður séð að það standi til í frumvarpinu svo neinu nemi. Reiknireglur vaxtabóta haldast óbreyttar. Viðmiðunarstærðir vaxtagjalda og hámarksvaxtabóta hækka um 5% og nettóeigna um 10% frá yfirstandandi ári.
    Ef reglunum verður ekki breytt er þessi boðaða hækkun á vaxtabótum tilgangslaus. Vaxtabótakerfið eins og það er nú þjónar ekki tilgangi sínum. Að bæta peningum í slíkt kerfi er slæm ráðstöfun. Vaxtabótakerfið gerir ekki ráð fyrir hærra húsnæðisverði og hærri vaxtagjöldum. Slíkt kerfi er í raun gagnslaust. Einkum og sér í lagi við þær aðstæður sem húsnæðismarkaðurinn hefur verið í á undanförnum árum en hér á landi hefur hækkun húsnæðisverðs verið mest í heiminum á síðustu fimm árum eða 70%.
    Íbúðalánasjóður hefur bent á að vaxtabætur nái vart því hlutverki að stuðla að húsnæðisöryggi landsmanna miðað við núverandi aðstæður. Því er ljóst að aukin útgjöld ríkisins til þessa málaflokks með þessum hætti er ekki ávísun á árangur. Færa má rök fyrir því að útkoman gæti jafnvel versnað á meðan framboð á húsnæði eykst ekki. Hækkun á vaxtabótum gæti þannig hækkað húsnæðisverðið.
    Miðflokkurinn telur að ráðast verði í allsherjarendurskoðun á vaxtabótakerfinu, það sýni glögglega sú neikvæða þróun sem orðið hefur í kerfinu á undanförnum árum. Vaxtabótakerfið í dag hefur tilhneigingu til þess að hækka vaxtastigið þar sem í því felst niðurgreiðsla á fjármagnskostnaði. Auk þess er það þekkt að bæturnar skapa hvata til skuldsetningar.
    Skoða þarf vandlega hvort ekki sé árangursríkara að falla frá þessu kerfi í núverandi mynd og lækka þess í stað skattbyrði með öðrum hætti. Núverandi kerfi styður við eftirspurnarhlið húsnæðismarkaðarins og er til þess fallið að hækka fasteignaverðið. Vaxtabætur og þær ráðstafanir sem stjórnvöld leggja til fjölga ekki íbúðum á markaði það sjáum við glögglega hér á landi. Nauðsynlegt er og markvissara í þessum efnum að styðja við framboðshliðina. Nýlegar sænskar og bandarískar rannsóknir hafa sýnt að með því að styðja við framboðshliðina, þ.e. að hafa hvata til að fjölga húsbyggingum myndi húsnæðisverð lækka, íbúðareigendum fjölga og skuldir íbúðareigenda lækka. Yrði þessi leið farin hér á landi, sem Miðflokkurinn telur fulla ástæðu til þess að skoða, yrði núverandi vaxabótakerfi lagt niður. Það er til mikils að vinna að skoða nýjar leiðir þegar kemur að húsnæðisstuðningi þar sem núverandi kerfi leysir engan veginn þann stóra húsnæðisvanda sem ríkir. Ríkisstjórnin verður að sýna frumkvæði og djörfung í húsnæðismálum og koma með nýjar lausnir. Þetta er eitt stærsta úrlausnarefnið sem við stöndum frammi fyrir. Ríkisstjórnin er því miður verklítil í þessu mikilvæga málaflokki. Hún kemur ekki fram með neinar nýjar hugmyndir eða lausnir, viðheldur einungis vaxtabótakerfi sem viðheldur vandanum.

Persónuafsláttur og barnabætur.
    Mikið hefur dregið úr útgjöldum til barnabóta á síðustu árum. Því er nægt svigrúm til þess að hækka grunnfjárhæðir án þess að hækka skerðingarprósentur á móti. Stuðningur við barnafjölskyldur hefur minnkað á undanförnum árum og barnabætur hafa rýrnað. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun persónuafsláttar og barnabóta. Það verður hins vegar að segjast eins og er að það er engan veginn sá kaleikur sem gefið er í skyn. Mörg þúsund Íslendingar hafa ekki fengið barna- eða vaxtabætur undafarin ár vegna þess að skerðingar og niðurfellingarmörk hafa staðið í stað árum saman. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 1,6 milljarða kr. hækkun til barnabóta eða um 16%. Við blasir að sífellt færri fá barnabætur og í ljósi reynslunnar er viðbúið að við verðum komin í sama farið í þessum efnum innan skamms, þrátt fyrir hækkun. Spurning er hvort ekki ætti að skoða hvað gangast barnafólki best í þessum efnum. Hvort hækkun persónuafsláttar gæti jafnvel gagnast fleirum og verið markvissari aðgerð. Það er verðugt rannsóknarefni.

Eldri borgara látnir sitja á hakanum.
    Óumdeilt er að kjör þeirra aldraðra sem minnst hafa milli handanna eru í engu samræmi við almenn lífskjör í landinu. Þeir sem engar aðrar tekjur hafa en lífeyri almannatrygginga eru verst settir. Upphæð lífeyris hefur dregist jafnt og þétt aftur úr launum. Samkvæmt frumvarpinu á grunnlífeyrir almannatrygginga einungis að hækka um 3,4% á næsta ári. Í 69. gr. laga um almannatryggingar segir að við ákvörðun bóta skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að bætur hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að styrkja þurfi sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Í þeim hópi eru eldri borgarar sem hafa takmörkuð eða engin réttindi lífeyrissjóðum og stunda ekki launaða vinnu. Þeir sem þannig eru settir þurfa nær eingöngu að reiða sig á ellilífeyri almannatrygginga og eru margir hverjir þeirra á almennum leigumarkaði eða jafnvel skuldsettir. Í þessu hópi eru einnig þeir sem ekki hafa áunnið sér full réttindi til almannatrygginga vegna búsetu erlendis, t.d. innflytjendur.
    Á vormánuðum skipaði félags- og jafnréttismálaráðherra starfshóp sem fjalla á um kjör aldraðra til þess að fá betri yfirsýn yfir þær aðstæður sem eldri borgarar búa við og gera tillögur um hvernig bæta megi kjör þeirra verst settu. Hópurinn hefur enn ekki skilað tillögum sínum en hann átti að skila þeim 1. nóvember sl. og hefði að sjálfsögðu átt að skila af sér fyrr svo ræða mætti tillögurnar í fjárlagavinnunni. Félag eldri borgara hafði frumkvæði að því að starfshópurinn væri skipaður. Félagið hefur margsinnis bent stjórnvöldum á nauðsyn þess að leiðrétta ellilífeyrisgreiðslur. Miðflokkurinn tekur heilshugar undir málflutning félags eldri borgara. Frá árinu 2010 hafa laun hækkað rúmum 11% meira en ellilífeyrir. Lífeyririnn ætti því að vera 266.800 kr. á mánuði í stað 239.500 kr. fyrir skatt. Munurinn er 27 þús. kr. á mánuði og þá sem hafa lítið á milli handanna munar svo sannarlega um þá upphæð. Hins vegar er okkur öllum ljóst að þessi upphæð dugar ekki fyrir framfærslu.
    Þeim fjölgar í hópi eldri borgara sem hafa áhyggjur af fjárhag sínum eða rúm 30%. Þetta kemur m.a. fram í könnun sem Reykjavíkurborg, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara lét gera fyrir tveimur árum.
    Á fundi fjárlaganefndar fyrir skömmu lagði Félag eldri borgara fram vandaðar tillögur um hvernig mætti bæta kjör þeirra verst settu í þessum hópi. Fyrir þessar tillögur ber að þakka. Þær eru raunhæfar og vill 3. minni hluti hvetja ríkisstjórnina til að koma til móts við tillögurnar og taka þær alvarlega.
    Samkvæmt tölum frá OECD rennur lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu og launum á Íslandi til greiðslu ellilífeyris en í löndum eins og Bretlandi, Hollandi, Danmörku og Svíþjóð. Íslendingar fara almennt síðar á lífeyri en íbúar annarra landa og munar miklu hve atvinnuþátttaka aldraðra er meiri og lengri á Íslandi en í hinum löndunum. Atvinnuþátttaka 65–69 ára hér á landi er rúm 50% en í sama aldurshópi í Svíþjóð er atvinnuþátttakan einungis um 20%. Samanburður við áðurnefnd lönd sýnir að Ísland sker sig úr hvað virkan lífeyristökualdur varðar. Íslendingar hefja að jafnaði töku lífeyris 1–2 árum eftir að opinberum lífeyristökualdri er náð, en í hinum löndunum fjórum fer fólk að jafnaði á lífeyri nokkru áður en opinberum aldursmörkum er náð. Íslendingar taka því að jafnaði lífeyri í mun færri ár en tíðkast í hinum löndunum.
    Útgreiðsla úr báðum hlutum lífeyriskerfisins hefst því að jafnaði síðar hér á landi. Meðalaldur íslensku þjóðarinnar er lægri og því er lífeyrisbyrði opinbera kerfisins enn mjög lág í samanburði. Þetta undirstrikar það að stjórnvöld hafa ráðrúm til þess að gera vel við eldri borgara. Þetta er sú kynslóð sem við eigum mest að þakka að hér ríkir almenn velferð. Kynslóð sem braust úr viðjum fátæktar með vinnusemi og dugnaði. Kynslóð sem í dag biður einungis um réttlæti og að fá að lifa við mannsæmandi kjör.

Atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur.
    Kannanir meðal eldri borgara hafa sýnt að nær öllum eða 97% finnst að auðvelda ætti þeim sem komnir eru á lífeyrisaldur að vera virkir á atvinnumarkaði. Atvinnuþátttaka eldri borgara færir þeim aukna virkni í samfélaginu. Aukin virkni stuðlar að vellíðan og lífsánægju og því virkara sem eldra fólk er því meiri lífsgleði upplifir það. Stjórnvöld verða að vera meðvituð um þetta. Þau verða að vera meðvituð um stöðu, væntingar og viðhorf aldraða þegar kemur að atvinnuþátttöku og jákvæðum áhrifum hennar á líðan eldri borgara.
    Eldri borgarar nú á tímum eru betur á sig komnir líkamlega en áður fyrr, fólk getur vænst þess að lifa lengur og þess vegna er þörf á að koma á móts við aldraða til að þeir haldi áfram að vera virkir í samfélaginu og haldi sjálfræði og sjálfstæði sínu eins lengi og kostur er. Þeir sem hafa áhuga og getu til að vinna lengur ættu að fá frekari tækifæri með meiri sveigjanleika um starfslok og atvinnuþátttöku eftir að taka lífeyris hefst. Eldra starfsfólk hefur oft mikla þekkingu og starfsreynslu sem getur nýst vel á mörgum vinnustöðum og er það bæði hagur fyrir þá sem vilja halda áfram að vera á vinnumarkaðinum sem og fyrir samfélagið í heild sinni. Rannsóknir hafa sýnt að það að vera í félagsskap með öðru fólki getur veitt eldra fólki mikla ánægju.
    Miðflokkurinn hefur lagt ríka áherslu á það að afnema tekjutengingu bóta vegna launatekna eldri borgara og flytur flokkurinn breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Rannsóknarsetur verslunarinnar gerði rannsókn fyrir nokkrum árum um áhrif þess á ríkissjóð ef atvinnuþátttaka eldri borgara yrði aukin og ef aldurstengdar bætur yrðu ekki skertar þó að viðkomandi hefði launatekjur. Niðurstaðan var sú að ríkissjóður mundi hagnast með auknum skatttekjum. Ef tekjutenging á bætur eldri borgara yrði afnumin myndi það hvetja þá til að koma í auknum mæli aftur inn á vinnumarkaðinn. Skortur er á vinnuafli hér á landi eins og í verslun og þjónustu og hefur þurft að flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl. Mörgum þessara starfa gætu eldri borgarar sinnt.
    Eldri borgarar eiga að geta tekið þátt á vinnumarkaði eins og hverjum og einum hentar án þess að þurfa að taka á sig skerðingu á lífeyri. Það bætir lífsgæði þeirra og er þjóðhagslega hagkvæmt.

Málefni fatlaðra og NPA.
    Alþingi samþykkti á vormánuðum lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Lögin heimila m.a. gerð svokallaðra NPA-samninga, eða samninga um notendastýrða persónulega aðstoð til handa fötluðu fólki. Lögin fela í sér mikla réttarbót fyrir fatlað fólk. Með því að gera samning um notendastýrða persónulega aðstoð fær notandi greiðslur í stað þjónustu. Notandinn sér sjálfur um verkstjórn, ákveður hvað hann vill gera og hvernig aðstoðarfólk hans nýtist. Frá og með 1. október var hægt að sækja um NPA þjónustu. Ríkið greiðir 25% með hverjum samningi en sveitarfélögin 75%. Hér er um dýrt úrræði að ræða. Þjónustan er að breytast úr stofnanavæðingu yfir í einstaklingsbundna þjónustu. Í sumum tilfellum þarf allt að 4–5 starfsmenn fyrir einn einstakling til að halda utan um þetta nýja fyrirkomulag. Með lögunum er komin lögvarinn réttur fatlaðs fólks til þess að fá þessa þjónustu, sama hvað hún kostar.
    Að sjálfsögðu er þetta mikil réttarbót, en það verða þá að vera til peningar til þess að veita þjónustuna. Sveitarfélögin þurfi einnig að halda úti þeim úrræðum sem voru áður notuð, eins og sambýlum, vegna þess að NPA-einstaklingur á rétt á því að snúa til baka, t.d. í sambýli, óski hann þess. Þetta er allt í boði sveitarfélaganna, verulega aukin þjónusta sem ríkið ákveður, en lætur sveitarfélögin borga 3/ 4 kostnaðarins.
    Það virðist vera regla fremur en undantekning að nægilegir fjármunir frá ríkinu fylgja ekki með þeim verkefnum sem flytjast frá ríki til sveitarfélaganna. Í frumvarpinu á bls. 383 kemur fram að framlag til notendastýrðar persónulegrar aðstoðar er einungis 70 millj. kr. á næsta ári.
    Ekki er enn skýrt hve marga samninga eigi að gera og á hvaða tímabili eða hvert fjárhagslegt svigrúm sveitarfélaganna er. Reglugerð sem skýri útfærsluna er ekki enn tilbúin hjá ráðuneytinu. Sveitarfélögin hafa því ekki getað sett sínar reglur. Sveitarfélögin hafa lýst áhyggjum sínu yfir þeim mikla kostnaði sem sýnt þykir að fylgi þessu nýja þjónustuformi og hafa óskað eftir því að gildistöku laganna verði frestað. Ljóst er að framlag ríkisins fyrir árið 2019 dugir hvergi nærri til
    Minni hækkun til öryrkja í frumvarpinu sem nemur 1.100 millj. kr. kemur mjög á óvart. Formaður fjárlaganefndar hefur getið þess að breytingin sé tilkomin vegna þess að fyrirhugaðar kerfisbreytingar í almannatryggingum til að bæta kjör öryrkja hefjist seinna en áætlað var. Ekki kemur fram hvað hafi valdið töfum við innleiðingu á nýju mats- og framfærslukerfi og er það mjög óheppilegt að stjórnvöld hafi ekki lokið þessari vinnu og breytingarnar taki gildi um áramótin þannig að hækkunin myndi að fullu koma til framkvæmda á nýju ári. Þessi hópur samfélagsins, sem minna má sín, á ekki að þurfa að bíða eftir lausn sinna mála vegna lélegrar verkstjórnar félags- og jafnréttismálaráðherra við að klára mikilvæga vinnu við nýtt mats- og framfærslukerfi. Ósætti innan ríkisstjórnarinnar um þetta mál á ekki að bitna á öryrkjum. „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í september 2017, þá þingmaður í stjórnarandstöðu.
    Miðflokkurinn leggur til breytingartillögu við frumvarpið á þann veg að í stað lækkunar á framlögum til öryrkja að fjárhæð 1,1 milljarður kr. í fjárlagafrumvarpinu verði framkvæmdum frestað við nýbyggingu Húss íslenskra fræða. Nemur sú fjárhæð 800 millj. kr. og 300 millj. kr. verði í formi arðgreiðslu frá ríkisbönkunum. Samtals gera þetta 1.100 millj. kr. og verður upphæðin nýtt til að greiða öryrkjum frá og með næsta ári eins og til stóð.

Bætt í ríkisbáknið sem aldrei fyrr.
    Fjárlagafrumvarpið ber þess merki að það sé ekki ofarlega á verkefnalista ríkisstjórnarinnar að vinda ofan af ríkisbákninu. Þar fer fremstur í flokki Sjálfstæðisflokkurinn sem reglulega hefur hrópaði hátt fyrir kosningar „báknið burt“. Þegar flokkurinn kemst síðan til valda heldur báknið áfram að vaxa. „Við þurfum að taka rækilega til í ríkisfjármálunum og minnka ríkisbáknið,” sagði fjármálaráðherra árið 2010. Nú leggur ráðherra fram fjárlagafrumvarp þar sem enn er bætt í ríkisbáknið. Engin áform eru um að spara í ríkisrekstrinum með því að sameina ríkisstofnanir eða leggja þær niður. Sjálfstæðisflokkurinn fór mikinn í umræðu um Bankasýslu ríkisins fyrir nokkrum árum. Fullkomlega óþörf stofnun, sagði þingmaður flokksins. Þingmaðurinn gekk svo langt í gagnrýni sinni að hann sagði stofnunina hjákátlega og það væri þjóðþrifamál að leggja hana niður. Nú, átta árum síðar, heldur Sjálfstæðisflokkurinn enn lífi í Bankasýslunni og færir henni 60 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2019. Svo er það ríkisstjórnin sjálf, sem hefur slegið met í eyðslunni, með alla sína aðstoðarmenn og 636 millj. kr. í launakostnað á ári. Hækkun um 175 millj. kr. milli ára. Óbyggðanefnd er fastur liður eins og venjulega á fjárlögum, 114 millj. kr. fær þetta ríkisapparat á næsta ári og er þá búið að lifa í 20 ár. Loftlagsráð fær 30 millj. kr. á næsta ári til þess að halda fundi og svo mætti lengi telja.
    Kostnaður vegna skiptingar velferðarráðuneytisins í tvö ráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti nemur tæpum 212 millj. kr. Fjölga á starfsmönnum um sjö. Ekki kemur fram að þessi ráðstöfun sé skynsamleg eða skili ríkissjóði ávinningi. Auk þess má spyrja hvort þetta fé hefði ekki verið betur komið hjá skjólstæðingum velferðarráðuneytisins. Við afgreiðslu fjárlaga kom bersýnilega í ljós að hagur margra bágstaddra þegna hefði vænkast hefði þessum fjármununum verið varið beint í þeirra þágu. Má þar m.a. benda á öryrkja og tiltekna hópa eldri borgara sem ætlað er að lifa undir framfærsluviðmiðum ráðuneytisins.
    Hækkun til utanríkisráðuneytisins milli ára nemur rúmum 1,7 milljarði kr. eða 11,7%. Hækkun til sendiráða nemur tæpum hálfum milljarði kr. milli áranna 2018 og 2019, þar af fara 160 millj. kr. til að mæta vinnu við vegabréfsáritanir á Indlandi og í Bandaríkjunum. Hér er um háa upphæð að ræða. Framlagið sem ætlað er til sendiráðsins á Indlandi er að mestu tilkomið vegna áætlana flugfélagsins Wow air um að hefja áætlunarflug til landsins.
    Hækkun til varnarmála nemur rúmum 300 millj. kr., þar af eru 50 millj. kr. til heræfinga og er það að sjálfsögðu mjög athyglisvert undir forsæti Vinstri grænna í ríkisstjórn.
    Fjárveiting er í frumvarpinu upp á 50 millj. kr. vegna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019–2021. Spyrja má hvort ekki megi nýta betur starfsfólk ráðuneytisins hvað formennskuna varðar og hvort yfirhöfuð þurfi sérstaka fjárveitingu vegna þessa máls.
    Sérstök fjárveiting er vegna Schengen-úttektar um framkvæmd landamæravörslu upp á 836 millj. kr. Tímabært er að skoða kosti og galla þessa samstarfs fyrir Ísland.
    Hækkun til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins nemur 2 milljörðum og 55 millj. kr. eða sem svarar til 11,8%. Hér er um verulega hækkun milli ára að ræða og má þar nefna sérstaklega rétt tæplega 800 millj. kr. hækkun til stjórnsýslu umhverfismála. Sama má segja um málefnasvið fjármála- og efnahagsráðherra en það hækkar um 2 milljarða og 37 millj. kr. eða sem svarar 9,2%. Þar af nemur hækkun til stjórnsýslu ríkisfjármála 525 millj. kr.
    Ekki hefur verið mikil hagræðingarkrafa innan Stjórnarráðsins á síðustu árum. Það er orðið löngu tímabært að ráðast í uppstokkun á opinbera kerfinu og draga úr umsvifum hins opinbera. Það er auk þess óskynsamlegt að bæta enn í ríkisbáknið þar sem erfitt og sársaukafullt getur reynst að vinda ofan af útgjaldaaukningu ef tekjuforsendur ríkisins breytast. Forgangsraða þarf betur í ríkisfjármálunum. Hugmyndir um sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, svo dæmi sé tekið, eiga að fela í sér hagræðingu. Athygli vakti á dögunum þegar sameiningaráformin voru kynnt að þess var sérstaklega getið að ekki stæði til að fækka starfsmönnum. Þetta er röng nálgun. Sameining á að fela í sér sparnað fyrir skattgreiðendur. Laun í ráðuneytunum hafa auk þess hækkað mikið á undanförnum misserum og eru þau há miðað við einkageirann. Hækkanir á fjárveitingum til ríkisstofnana umfram almennar verðlagshækkanir eru regla fremur en undantekning. Ríkisreksturinn verður því stöðugt dýrari skattgreiðendum. Þannig er síaukinn kostnaður vegna eftirlitsstofnana ríkisins. Í frumvarpinu eru aðhaldskröfur til ríkisstofnana litlar. Sjálfstæðisflokkurinn, sem nú fer fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytinu, hefur öll tök á því að taka hér til hendinni eins og hann hefur margoft predikað. Þess í stað bætir hann í ríkisbáknið sem aldrei fyrr.

Ríkisstjórnin áhugalaus um landbúnaðinn.
    Ríkisstjórnin hefur verið sérstaklega áhugalaus um íslenskan landbúnað svo eftir er tekið. Hún hefur ekki veitt landbúnaðinum þann stuðning sem honum er nauðsynlegur og hann á skilið. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hver í sínu horni samþykkt ályktanir um mikilvægi landbúnaðarins. Ekki verður séð að ályktun Framsóknarflokksins um að tryggja sanngjörn starfsskilyrði landbúnaðarins sé í hávegum höfð þegar opnað er fyrir aukinn innflutning á landbúnaðarvörum. Það sama á við um Sjálfstæðisflokkinn sem talaði fyrir því fyrir síðustu kosningar að viðhalda styrk íslensks landbúnaðar en á sama tíma vill flokkurinn ekki hrófla við tollasamningi sem grefur undan landbúnaðinum. Tollasamningurinn við Evrópusambandið er íslenskum landbúnaði mjög óhagstæður. Tollasamningurinn á að færa íslenskum bændum sömu möguleika í Evrópu og ESB fær hér á landi. Það gerir samningurinn ekki. Nauðsynlegt er að segja samningnum upp vegna brostinna forsendna, en úrsögn Bretlands úr ESB gerir það að verkum að okkar stærsta og besta markaðssvæði hverfur úr samningnum á næsta ári. Semja verður upp á nýtt við ESB um tollkvóta á landbúnaðarafurðum.
    Nauðsynlegt er að ráðast í mótvægisaðgerðir til þess að draga úr neikvæðum áhrifum samningsins á íslenska landbúnaðarframleiðslu. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki að finna neinar fjárheimildir til mótvægisaðgerða, engan stuðning til handa bændum til þess að mæta verulega aukinni samkeppni frá Evrópusambandinu og því ójafnvægi sem ríkir milli samningsaðila, Íslandi í óhag.
    Staða sauðfjárbænda og loðdýrabænda er erfið og brýnt að ríkisvaldið mæti þessum vanda. Því miður hefur ríkisstjórnin enga framtíðarsýn fyrir þessar greinar og endurspeglast það í fjárlagafrumvarpinu en engar fjárheimildir eru ætlaðar til að mæta vandanum.
    Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019–2023 undirstrikar áhugaleysi flokkanna á landbúnaðinum. Minnumst þess, á 100 ára afmæli fullveldis, að öflugur landbúnaður, íslensk matvælaframleiðsla og matvælaöryggi er undirstaða fullveldis, þróttmikillar byggðar og mannlífs í landinu.

Heilbrigðismál – niðurskurður til hjúkrunar- og dvalarheimila.
    Hækkun framlaga til heilbrigðismála frá 2018 til 2019 nemur 12,6 milljörðum kr., að frátöldum launa- og verðlagshækkunum. Stór hluti af því fer í framkvæmdir við nýjan Landspítala en áætlað er að verja 7,2 milljörðum kr. til þeirra á næsta ári. Miðflokkurinn hefur margsinnis bent á að bygging nýja þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut er óskynsamleg framkvæmd af mörgum ástæðum. Flokkurinn hefur lagt áherslu á byggt verði nýtt og glæsilegt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað. Gerð verði fagleg og óháð staðarvalsgreining á nýju sjúkrahúsi og hefur flokkurinn flutt þingsályktunartillögu þess efnis.
    Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þurfa enn að glíma við rekstrarvanda vegna þess að fjárveitingar fylgja ekki íbúafjölgun og vegna aukins álag vegna ferðamanna, eins og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Viðvarandi rekstrarhalli hjá þessum stofnunum, vegna vanáætlunar í fjárveitingum, gerir stöðuna enn verri. Brýn þörf er auk þess á auknum fjárveitingum til tækjakaupa, svo sem hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, og til að styrkja þjónustu heilsugæslunnar á Akureyri. Brýnt er að fæðingarþjónusta í Vestmannaeyjum verði endurvakin.
    Hjúkrunarheimilin gegna mikilvægu og vaxandi hlutverki í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Skortur á hjúkrunarheimilum hefur í för með sér að aldraðir einstaklingar ílengjast á sjúkrastofnunum. Forsenda lausnar á þessum vanda er að heimilunum verði sköpuð raunhæf rekstrarskilyrði. Stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarheimila sem ríkisstjórnin boðar í stjórnarsáttmálanum eru hrein öfugmæli þegar horft er á rekstrargrunn hjúkrunarheimilanna í landinu, sem stjórnvöld bera ábyrgð á. Þrátt fyrir fögur fyrirheit í frumvarpinu eru málefnasviðin Hjúkrunarrými og endurhæfing og málefnasviðið Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit, einu svið heilbrigðisþjónustunnar sem fá á sig aðhaldskröfu. Styrking á rekstrargrunni á móti upp á 276 millj. kr. dugir skammt. Rekstur margra hjúkrunarheimila er afar erfiður og hafa þau verið rekin með halla um langt skeið. Hallareksturinn má rekja til þess að kröfulýsing sem hjúkrunarheimilunum er ætlað að starfa eftir er í litlu samræmi við þann tekjuramma sem þeim er markaður með daggjöldum.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru fögur fyrirheit um að hugað verði að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila og jafnframt lögð áhersla á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu. Ekki verður séð að fyrir liggi auknar fjárheimildir til heimahjúkrunar, dagþjálfunar og endurhæfingar.
    Aukin fjárframlög til hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrýma, sem á eingöngu að ráðstafa til nýrra rýma, byggingu þeirra og rekstrar, virðist vera vanreiknuð, eins og bent er á í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SVF) um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023.

Brýnt er að efla heimaþjónustu, heimahjúkrun og auka heilsueflingu aldraða.
    Fjölgað hefur mjög á biðlistum eftir hjúkrunarrými fyrir aldraða og hefur embætti landlæknis lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni. Biðtíminn hefur auk þess lengst. Í september biðu að meðaltali 411 manns eftir hjúkrunarrými. Fjölgun á biðlistum á landsvísu nemur 20%. Þeir sem bíða heima finna oft fyrir miklu óöryggi og vanlíðan. Þeir sem bíða á sjúkrahúsi finnst þeir jafnvel vera fyrir og vera hornrekur. Þetta hefur veruleg áhrif á lífsgæði fólks.
    Miðflokkurinn leggur ríka áherslu á að mæta þessum vanda. Skilvirkasta og fljótlegasta leiðin að mati landlæknis til þess að bæta stöðuna er að efla heimaþjónustu, heimahjúkrun og heilsueflingu aldraða. Miðflokkurinn leggur fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um sérstaka fjárveitingu til þessa málaflokks upp á 270 millj. kr. Skiptist hún þannig: 200 millj. kr. til þess að styrkja sveitarfélögin við að efla heimaþjónustu og heimahjúkrun fyrir aldraða og 70 millj. kr. til heilsugæslunnar á landsvísu, til þess að auka heilsueflingu aldraða.

Styðja þarf betur við mikilvægt starf SÁÁ.
    Fjárhagsstaða margra aðildarfélaga innan SFV er nú þegar orðin alvarleg. Má þar nefna að árið 2018 er framlag ríkisins til meðferðarsviðs SÁÁ 278 millj. kr. lægra en árið 2009 á föstu verðlagi. Framlagið dugar ekki fyrir launakostnaði þrátt fyrir að stöðugildum á meðferðarsviði hafi fækkað um tæplega 11 talsins frá árinu 2000. Í dag greiðir ríkið einungis fyrir 1.530 innritanir á sjúkrahúsið Vog af 2.200 árlegum innritunum. Á árinu 2018 hefur biðlisti á Vog verið í kringum 580–590 manns að staðaldri. Svipaða sögu má segja um Krabbameinsfélagið. Fjárveitingar til Krabbameinsfélagsins hafa minnkað undanfarin ár, á sama tíma og laun og annar rekstrarkostnaður hefur hækkað verulega. Virðist sem enn frekari niðurskurður verði á fjárframlögum til Krabbameinsfélagsins árið 2019.
    Miðflokkurinn flytur breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um sérstakt aukaframlag til SÁÁ upp á 150 millj. kr. og 50 millj. kr. til Krabbameinsfélagsins.
    Nokkur aðildarfélög innan SFV eru samningslaus við Sjúkratryggingar Íslands. Í tilfelli SÁÁ hefur staðan verið sú í nokkur ár hvað varðar alla þætti rekstursins. Ríkið hefur ekki greitt fyrir göngudeildarþjónustu SÁÁ síðan samningur um þjónustuna við Sjúkratryggingar Íslands rann út í árslok 2014. Það er mjög erfitt fyrir rekstraraðila að vera í slíkri stöðu, hvað þá til lengri tíma. Samningar Sjúkratrygginga Íslands hafa oft verið einungis til eins árs í senn og oft runnið út áður en aðilar ná saman að nýju, sem er mjög óheppilegt.
    Aukin framlög ríkisins til heilbrigðiskerfisins virðast helst renna til Landspítalans, sem hefur fengið viðbótarfjármagn á hverju ári frá árinu 2013. Þrátt fyrir það er hallinn á rekstri Landspítalans á þessu ári um 1,6 milljarðar kr. og stefnir í svipaðan halla á næsta ári þannig að uppsafnaður halli verður rúmlega 3 milljarðar kr. Landspítalinn glímir við viðvarandi mönnunarvanda og þá sérstaklega hvað hjúkrunarfræðinga varðar. Þetta hefur í för með sér umtalsverðan kostnaðarauka vegna aukavinnu. Mönnunarvandinn í heilbrigðiskerfinu er einn stærsti bráðavandinn sem heilbrigðisþjónustan stendur frammi fyrir og er brýnt að leitað verði allra leiða til að fjölga hjúkrunarfræðingum. Leggja verður aukið fjármagn til þessa mikilvæga verkefnis.
    Rammasamningur um hjúkrunar- og dvalarrými rennur út um áramótin og ganga viðræður um framlengingu samningsins mjög hægt. Það er áhyggjuefni hvernig stjórnvöld nálgast þennan mikilvæga málaflokk. Tryggja þarf meira fjármagn til þjónustunnar og hækka daggjöld þannig að þau standi undir þeirri þjónustu sem veita á.

Sjávarútvegurinn – veiðigjaldið verði sjálfbært til framtíðar.
    Sjávarútvegurinn er burðarstólpi í íslensku efnahagslífi og mjög mikilvægur mörgum samfélögum á landsbyggðinni. Um 79% atvinnutekna í fiskveiðum/vinnslu kemur frá launafólki á landsbyggðinni. Árið 2016 var hlutdeild atvinnutekna sem rekja má til sjávarútvegs 29% á Vestfjörðum, 20% á Austfjörðum, 18% á Vesturlandi, 15% á Suðurnesjum og 14% á Norðurlandi. Sjávarútvegurinn er auk þess leiðandi í nýsköpun þar sem fjárfesting er lykilatriði. Mikilvægt er að stjórnvöld tryggi góð rekstrarskilyrði greinarinnar og horfi ekki fram hjá þeim miklu útflutningshagsmunum sem eru í sjávarútvegi. Veiðigjaldafrumvarpið horfir til bestu ára greinarinnar. Nauðsynlegt er að stilla það af til framtíðar. Mikilvægt er að viðhalda fjölbreytileika í greininni og gjaldtakan þarf að taka mið af því. Veiðigjaldið þarf að vera sjálfbært til framtíðar og má ekki koma í veg fyrir eðlilegar fjárfestingar. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki keyptu afurðir af íslenskum tækni- og þjónustufyrirtækjum fyrir tæpa 50 milljarða kr. á árinu 2016 og munar um minna. Þessu má ekki gleyma í umræðunni um sjávarútveginn. Auðlindagjaldið í sjávarútvegi ætti síðan að hluta til að renna til uppbyggingar í heimabyggð þeirra fyrirtækja sem greiða gjaldið.

Gjaldskrárhækkanir hins opinbera kynda undir verðbólgu.
    Fastur liður eins og venjulega í tengslum við fjárlagafrumvarpið eru breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga. Til einföldunar er þetta nefnt gjaldskrárhækkanir og taka iðulega gildi um áramót. Þessar hækkanir hafa að sjálfsögðu verðlagsáhrif, hækka vísitölu neysluverðs, hækka lán landsmanna og kynda undir verðbólgu. Inn í komandi kjaraviðræður er þetta að sjálfsögðu óskynsamlegt og 3. minni hluti hvetur stjórnvöld til þess að falla frá þessum áformum. Það gæti jafnvel haft þau jákvæðu áhrif að Seðlabankinn myndi draga nýlega stýrivaxtahækkun til baka og því til mikils að vinna. Ríkisvaldið á að taka virkan þátt í þeirri viðleitni að draga úr hækkun verðlags og efna ekki til hækkana umfram það sem algjörlega nauðsynlegt getur talist. Verðbólga hefur verið lág undanfarin misseri og verður ekki séð að nauðsynlegt sé að ríkisvaldið gangi fram með þessum hætti. Gæta verður ýtrasta aðhalds við gjaldskrárbreytingar. Á það sérstaklega við nú í aðdraganda kjarasamninga.

Nauðsynlegt að efla starfsemi tollgæslu við fíkniefnaeftirlit.
    Fíkniefnavandinn er eitt af alvarlegustu og erfiðustu málum sem steðja að þjóðfélaginu öllu. Sterkari fíkniefni hafa náð fótfestu hér á landi en áður. Neysla ólöglegra fíkniefna veldur einstaklingum, fjölskyldum og samfélögum ómældum skaða og tengist margvíslegri glæpastarfsemi auk heilsufars- og félagslegra vandamála. Fíkniefnasala á netinu hefur mjög færst í vöxt og auðveldað aðgengi að fíkniefnum. Þessi þróun hefur að sumu leyti þyngt róðurinn í baráttunni gegn fíkniefnum. Aukið fíkniefnaeftirlit á landamærum skilar árangri. Miðflokkurinn leggur áherslu á að auka fjárveitingar til þessa mikilvæga málaflokks og flytur breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að sérstakt aukaframlag upp á 100 millj. kr. fari til embættis Tollstjóra, til þess að auka fíkniefnaeftirlit tollgæslunnar á landsvísu. Skiptist fjárveitingin þannig: 60 millj. kr. til þess að fjölga um fimm stöðugildi á Keflavíkurflugvelli, en þó er gert ráð fyrir færanleika þessara stöðugilda, tveir þjálfaðir fíkniefnahundar 2,5 millj. kr., tvær bifreiðar fyrir fíkniefnahunda 8 millj. kr. og 29,5 millj. kr. í tækjabúnað.

Kennitöluflakk meinsemd sem verður að uppræta.
    Kennitöluflakk er meinsemd í íslensku efnahagslífi sem er fólgin í misnotkun á reglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa. Líkindi eru fyrir því að íslenskt samfélag verði af tugum milljarða króna á ári hverju vegna háttsemi sem telst til kennitöluflakks. Flestallir eru sammála um að vandamálið sé til staðar og að ekki hafi náðst viðunandi árangur. Þrátt fyrir það hafa ekki verið gerðar neinar meiri háttar breytingar lögum á undanförnum árum í því skyni að sporna gegn kennitöluflakki. Kennitöluflakki er hægt að lýsa þannig að viðkomandi félag „deyr“ en rekstur þess lifir af og heldur áfram í gegnum annað félag með nýrri kennitölu. Þá er það skilyrði kennitöluflakks að markmiðið með því sé m.a. að komast hjá einhverjum eða öllum lagalegum skyldum félagsins.
    Almenningur og aðrir sem skoða ekki kennitölur félaga þegar þeir eiga viðskipti við þau verða því oft á tíðum ekki varir við þessa breytingu. Nýja félagið rís því úr ösku þess gamla og heldur áfram með rekstur eldra félagsins. Sú háttsemi sem að framan var lýst er ámælisverð og ólögmæt.
    Birtingarmynd kennitöluflakks getur verið með ýmsum hætti. Í grundvallaratriðum er hægt að flokka kennitöluflakk í tvo hópa eftir því hvort upprunalegur tilgangur félagsins hafi verið að standa við allar lagalegar skuldbindingar þess eða ekki. Sú birtingarmynd kennitöluflakks sem líklega kemur fyrst upp í huga margra er þegar félag sem sér fram á að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar við kröfuhafa er látið fara í þrot en áður en það er gert er stofnað nýtt félag af stjórnendum eldra félagsins sem flytur til sín hluta eða allar eignir eldra félagsins á undirverði eða án þess að borga neitt fyrir þær. Nýja félagið er oft starfrækt undir sama viðskiptanafni og hið eldra og heldur þannig viðskiptavildinni. Reksturinn getur því haldið áfram í nýja félaginu og skuldir eldra félagsins eru hreinsaðar.
    Hægt að skilgreina kennitöluflakk sem vísvitandi og oft á tíðum kerfisbundið gjaldþrot félaga með sviksamlegum eða ólögmætum ásetningi til þess að komast hjá sköttum og öðrum lagalegum skuldbindingum, m.a. gagnvart starfsmönnum og halda áfram starfsemi arðvænlega hluta rekstrarins í gegnum nýtt félag.
    Kennitöluflakk getur einnig falið í sér að starfsemi sé haldið áfram undir sama nafni. Stjórnendur nýja félagsins séu þeir sömu og í eldra félaginu eða nákomnir þeim. Starfsmenn eldra félagsins haldi áfram að vinna hjá nýja félaginu, og/eða eitt félag samstæðu verður gjaldþrota. Brotið er gegn samningsbundnum- eða lagalegum skuldbindingum sem geta sætt einkaréttarlegum eða refsiverðum afleiðingum.
    Ekki hafa verið teknar saman tölur hérlendis um umfang kennitöluflakks, né upplýsingar um hvert hlutfall kennitöluflakks sé af heildarfjölda gjaldþrota Starfshópur á vegum ríkisskattstjóra áætlaði þó nýverið að skatttekjur væru ríflega 80 milljörðum kr. lægri á ársgrundvelli en umsvif þjóðfélagsins gæfu vísbendingu um að þær ættu að vera.
    Alþýðusamband Íslands sendi frá sér skýrslu í október 2013, þar sem lagt var mat á samfélagslegt tjón af völdum kennitöluflakks og lagðar fram tillögur um aðgerðir gegn kennitöluflakki. Þar kemur fram að á tímabilinu 1. mars 2012 til 24. janúar 2013 voru lýstar kröfur í þau þrotabú félaga þar sem uppgjöri var lokið tæpir 166 milljarðar kr. Einungis innheimtust 5,2 milljarðar kr. upp í þessar kröfur eða 3,14%.
    Í rannsókn sem gerð var á vegum nemanda við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík árið 2005 kemur fram að stjórnendur rúmlega 73% fyrirtækja sem rannsóknin náði til töldu sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum kennitöluflakks. Þar af taldi ríflega þriðjungur stjórnendanna fyrirtæki sín hafa orðið fyrir tjóni vegna kennitöluflakks oftar en sex sinnum. Könnunin náði til 600 fyrirtækja. Niðurstaða þessi gefur sterka vísbendingu um að umfang kennitöluflakks sé umtalsvert hérlendis.
    Á Íslandi eru kjöraðstæður fyrir kennitöluflakk. Á grundvelli veikrar löggjafar sem er beitt af lítilli festu hafa óprúttnir aðilar séð sér leik á borði með því að hafa af kröfuhöfum fé með ólögmætri háttsemi sem telst til kennitöluflakks. Sterkar líkur eru á því að íslenskt samfélag verði árlega af tugum milljarða króna vegna kennitöluflakks. Þeir sem verða fyrir tjóni vegna þessa eru kröfuhafar viðkomandi félags sem geta einkum verið fyrirtæki, ríkissjóður, stéttarfélög, lífeyrissjóðir og launamenn landsins.
    Kennitöluflakk getur einnig haft keðjuverkandi áhrif og leitt til tjóns fyrir aðra en þá sem eiga kröfu á hendur félaginu. Þá njóta þeir aðilar sem stunda kennitöluflakk ótvíræðs samkeppnisréttarlegs forskots. Að lokum lendir tjónið vegna kennitöluflakks á almenningi sem þarf að bera tjónið í formi skatta, minni þjónustu eða hækkaðs vöruverðs. Þetta kemur m.a. fram í meistaraprófsritgerð í lögfræði eftir Guðmund Heiðar Guðmundsson.
    Miðflokkurinn leggur til breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að settar verði 120 millj. kr. í baráttuna gegn kennitöluflakki. Upphæðin skiptist þannig: 60 millj. kr. til skattrannsóknarstjóra og 60 millj. kr. til ríkisskattstjóra.

Alþingi, 15. nóvember 2018.

Birgir Þórarinsson.