Ferill 288. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 465  —  288. mál.
Leiðrétt tafla.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ingibjörgu Þórðardóttur um húshitun.


     1.      Hver hefur árlegur og endanlegur húshitunarkostnaður verið, frá árinu 2011 á verðlagi ársins 2018, fyrir 180 fermetra einbýlishús á eftirtöldum orkuveitusvæðum:
                  a.      RARIK – þéttbýli,
                  b.      RARIK – dreifbýli,
                  c.      Orkubú Vestfjarða – þéttbýli,
                  d.      Orkubú Vestfjarða – dreifbýli,
                  e.      Reykjavík,
                  f.      Akureyri,
                  g.      Egilsstöðum,
                  h.      Selfossi,
                  i.      Ísafirði,
                  j.      Seyðisfirði,
                  k.      Vestmannaeyjum?

    Meðfylgjandi upplýsingar byggjast á gögnum frá Orkustofnun sem fer með framkvæmd niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar samkvæmt lögum nr. 78/2002. Við útreikninga á endanlegum kostnaði var notast við þau verð sem voru í gildi 1. apríl ár hvert. Dreifbýlisframlag ríkisins fyrir raforku í dreifbýli breytist árlega á þeim tímapunkti og dreifiveiturnar breyta í kjölfarið gjaldskrám sínum.
    Þegar kemur að því að reikna orkuverð hjá hitaveitum og kyntum hitaveitum skiptir máli það hitastig sem notandi fær inn til sín og skilar út frá sér eftir notkun. Hver gráða sem nýtist lækkar orkuverð um u.þ.b. 2%. Misjafnt er hversu vel hitaveitur halda utan um þessar upplýsingar og láta margar hverjar nægja að mæla hitastig vatnsins við dælustöð. Því er hitastig vatnsins óljóst þegar það kemur loks til notanda og einnig þegar hann skilar því frá sér. Í sumum tilfellum þarf því að notast við áætlaðar tölur.
    Nánar er vísað til eftirfarandi taflna um þróun árlegs heildarkostnaðar og orkuverðs frá 2011.

Tafla 1. Árlegur heildarkostnaður 180 m2 íbúðarhúsnæðis vegna húshitunar samkvæmt verðlagi í október 2018. Tölur eru í íslenskum krónum, án allra skatta.

Orkuveitusvæði 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
a. RARIK – þéttbýli 262.056 260.907 244.352 241.106 235.109 206.899 214.484 218.137
b. RARIK – dreifbýli 286.353 293.674 272.190 255.844 240.698 206.899 214.484 218.137
c. OV – þéttbýli 251.643 252.251 241.299 237.704 222.814 198.095 205.127 207.582
d. OV – dreifbýli 287.221 286.874 270.572 249.797 227.657 198.095 205.127 207.582
e. Reykjavík 110.670 118.229 118.267 118.975 118.371 118.350 118.571 118.598
f. Akureyri 104.313 101.514 99.838 95.858 97.464 102.249 101.018 102.139
g. Egilsstaðir 91.586 91.586 93.060 93.060 93.060 93.060 93.811 93.811
h. Selfoss 80.178 85.659 85.672 85.672 87.834 87.834 101.903 102.367
i. Ísafjörður 224.427 240.469 232.550 224.811 208.238 189.648 186.045 200.562
j. Seyðisfjörður 232.284 245.963 242.756 241.552 229.794 194.003 194.003 190.236
k. Vestmannaeyjar 163.720 145.396 150.763 151.655 176.829 149.672 152.735 149.512

Tafla 2. Orkuverð fyrir 180 m2 íbúðarhúsnæði samkvæmt verðlagi í október 2018. Tölur eru í kr./kWst., án allra skatta.

Orkuveitusvæði 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
a. RARIK – þéttbýli 7,57 7,53 7,06 6,96 6,79 5,97 6,19 6,30
b. RARIK – dreifbýli 8,27 8,48 7,86 7,39 6,95 5,97 6,19 6,30
c. OV – þéttbýli 7,27 7,28 6,97 6,86 6,43 5,72 5,92 5,99
d. OV – dreifbýli 8,29 8,28 7,81 7,21 6,57 5,72 5,92 5,99
e. Reykjavík 3,20 3,41 3,41 3,44 3,42 3,42 3,42 3,42
f. Akureyri 3,01 2,93 2,88 2,77 2,81 2,95 2,92 2,95
g. Egilsstaðir 2,64 2,64 2,69 2,69 2,69 2,69 2,71 2,71
h. Selfoss 2,32 2,47 2,47 2,47 2,54 2,54 2,94 2,96
i. Ísafjörður 6,48 6,94 6,71 6,49 6,01 5,48 5,37 5,79
j. Seyðisfjörður 6,71 7,10 7,01 6,97 6,64 5,60 5,60 5,49
k. Vestmannaeyjar 4,73 4,20 4,35 4,38 5,11 4,32 4,41 4,32

    Hinn 1. apríl 2016 tók gildi breyting á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, þar sem í fyrsta sinn var niðurgreitt að fullu dreifing og flutningur á raforku til húshitunar, innan þeirra takmarkana sem í gildi voru. Þessi breyting skýrir þá lækkun sem varð á milli áranna 2015 og 2016.

     2.      Hversu stór hluti landsmanna er á dreifisvæðum þar sem notast er við rafhitun eða kyntar hitaveitur?
    Ekki eru til staðfest gögn með þessum upplýsingum. Ef horft er til lögheimilisskráningar á þeim dreifiveitusvæðum þar sem notast er við rafhitun eða kyntar hitaveitur má áætla að u.þ.b. 32.500 einstaklingar (9,2% þjóðarinnar) séu búsettir þar. Miðað við þróun síðustu ára fer þessi tala lækkandi á komandi árum. Nokkrar hitaveitur hafa sett fram áætlanir og óskað eftir stofnstyrkjum til þess að stækka dreifikerfi sitt til þess að ná til fleiri notenda. Einnig eru uppi áform um að á næstu árum verði komnar í gagnið nýjar hitaveitur, t.d. á Höfn í Hornafirði, Tálknafirði og Hólmavík. Stofnun nýrrar hitaveitu er oft að stórum hluta háð því hvenær hún getur fengið greiddan stofnstyrk og hvort hún uppfyllir skilyrði laga nr. 78/2002 þess efnis.

     3.      Hversu mikið mundi það kosta ríkissjóð að niðurgreiða rafhitun til íbúðarhúsnæðis á þeim svæðum þar sem notast er við rafhitun eða kyntar hitaveitur til þess að kostnaður notenda við húshitun yrði sambærilegur við veginn meðalkostnað af húshitun á veitusvæði Reykjavíkur, Akureyrar, Egilsstaða og Selfoss?
    Raforkuverð skiptist í tvo hluta: dreifingu og flutning, og svo orkusölu. Um dreifingu og flutning fer samkvæmt sérleyfum til starfseminnar á viðkomandi svæði. Vegna þessa fyrirkomulags kemur ríkið að því að niðurgreiða þann kostnað notenda á raforkuverði til húshitunar. Hinn hlutinn, orkusalan, er á samkeppnismarkaði og lögum samkvæmt hefur ríkið enga heimild til þess að koma að málum þar. Niðurgreiðslur til rafhitunar á svæðum með kyntum hitaveitum eru reiknaðar þannig að það verð sem notendur greiða sé sambærilegt og dýrasta hitaveituverðið. Hér er átt við vegið meðalverð kyntu hitaveitnanna.
    Til þess að fá einhverja sýn á það hversu mikið það myndi kosta ríkissjóð að niðurgreiða rafhitun til íbúðarhúsnæðis á svæðum þar sem notast er við beina rafhitun eða kyntar hitaveitur er hægt að setja dæmið upp með einföldum hætti. Ef horft er á notkun sem af er árinu og áætlað að verði síðustu mánuðina má áætla að það myndi kosta ríkissjóð um 770 millj. kr. aukalega að niðurgreiða rafhitun til íbúðarhúsnæðis svo kostnaður hennar yrði sambærilegur og veginn meðalkostnaður húshitunar í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi á þessu ári.
    Benda má á að einnig má líta til annarra leiða til þess að lækka húshitunarkostnað á þeim svæðum þar sem notast er við rafhitun eða kyntar hitaveitur. Þannig má nefna að í níu ár hefur notendum með rafhitun staðið til boða að sækja um eingreiðslu til uppsetningar á varmadælum eða vegna annarra sambærilegra aðgerða. Orkusjóður hefur styrkt slík verkefni og hefur fjármagnið sem verið hefur til ráðstöfunar undanfarin ár ekki annað eftirspurn. Einnig má nefna að stjórnvöld veittu 300 millj. kr. styrk, með sérstakri heimild í fjárlögum, til uppsetningar á miðlægri varmadælu í Vestmannaeyjum sem mun hafa umtalsverð jákvæð efnahagsleg og umhverfisleg áhrif og draga úr rafhitun. Möguleikar á sviði varmadælna hafa almennt verið álitnir hagstæðustu og bestu lausnirnar til að lækka kostnað fyrir bæði einstaklinga og ríkið vegna rafhitunar, og til eflingar á auknu orkuöryggi í landinu.