Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 466  —  236. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um jafnréttismat.


     1.      Hvernig framkvæmdi ráðuneytið jafnréttismat við vinnslu eftirtalinna frumvarpa sem lögð voru fram á 148. löggjafarþingi:
                  a.      frumvarps til laga um breytingu á raforkulögum og lögum um stofnun Landsnets hf. (ýmsar breytingar), á þskj. 184 (115. mál),
                  b.      frumvarps til laga um breytingu á lögum um einkaleyfi, nr. 17/1991, með síðari breytingum (EES-reglur, lyf fyrir börn o.fl.), á þskj. 394 (292. mál),
                  c.      frumvarps til laga um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008 (innheimtustarfsemi félaga í eigu lögmanna), á þskj. 552 (395. mál),
                  d.      frumvarps til laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, á þskj. 694 (484. mál)?

    Frumvörpin sem spurt er um eru meðal fyrstu frumvarpa í innleiðingu jafnréttismats frumvarpa. Matið hefur og mun taka breytingum með aukinni reynslu og þekkingu. Undanfarið ár hafa verið haldin námskeið fyrir þá starfsmenn sem koma að frumvarpasmíði og gefnar út nýjar leiðbeiningar. Leiðarvísirinn sem lá fyrir þegar umrædd frumvörp voru metin á ekki lengur við, en breytt ferli við frumvarpssmíði hafði þau áhrif að móta þurfti nýtt verklag og verkferli við jafnréttismat á frumvörpum, sbr. svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um jafnréttismat (þskj. 1114 á 148. löggjafarþingi). Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinnur nú að innleiðingu breytts verklags í samræmi við nýjar leiðbeiningar.
    Jafnréttismat ofantalinna lagafrumvarpa var framkvæmt í samræmi við leiðarvísi forsætisráðuneytisins um mat á jafnréttisáhrifum frumvarpa frá árinu 2012. Í honum kom fram að áður en jafnréttismat er framkvæmt beri að hafa í huga að ekki sé í öllum tilvikum þörf á slíku sérstöku mati og sé frumvarp þess eðlis að það krefjist ekki mats á jafnréttisáhrifum beri engu að síður að geta þess í umsögn um frumvarpið. Með vísan til þessa hefur verið fjallað um jafnréttismat allra þeirra frumvarpa sem spurt er um í greinargerð þeirra.
    Mati á jafnréttisáhrifum lagafrumvarpa er skipt í sex stig. Á fyrsta stiginu fer fram upphafsgreining. Þar er skoðað til hverra frumvarpið nær og hvaða áhrif það mun hafa á ólíka hópa fólks. Markmið frumvarps eru skilgreind í upphafi og skoða þarf hver líkleg áhrif frumvarpsins verði á þá hópa kvenna og karla sem frumvarpinu er ætlað að ná til. Ganga þarf úr skugga um að áhrif frumvarpsins geri báðum kynjum kleift að hafa jafnan aðgang að samfélaginu í heild. Meðal annars er litið til þess hverju frumvarp á að ná fram og hverjir munu verða fyrir áhrifum þess, hvort frumvarpið mætir ólíkum þörfum karla og kvenna, hvort frumvarpinu sé ætlað að jafna stöðu kynjanna, hvort einhver ákvæði frumvarpsins hafi ólík áhrif á konur og karla, hvort eitthvað leggi aukið vægi á annað kynið fremur en hitt og hvort halli á annað kynið þegar kemur að úthlutun á gæðum, tíma eða fjármunum.
    Frumvörpin sem spurt er um eiga það sameiginlegt að áhrif þeirra ná með sama hætti til allra hagsmunaaðila sem viðkomandi lög snerta, svo sem fagaðila, neytenda eða samfélagsins í heild, óháð kyni. Því var ekki talin þörf á frekari greiningu á kynjaáhrifum sem fólgin er í síðari stigum mats samkvæmt leiðarvísinum.

     2.      Hvað liggur að baki þeirri staðhæfingu í greinargerð með frumvarpinu á þskj. 184 að „sjónarmið varðandi kynjaskiptingu“ séu málinu óviðkomandi þar sem frumvarpið hafi ekki bein áhrif á einstaklinga? Hefur farið fram greining á því hvort breytingar á högum lögaðila geti leitt af sér áhrif á einstaklinga?
    Frumvarpið og áhrif þess ná með sama hætti til allra hagaðila, óháð kyni. Þar af leiðandi var ákveðið að ekki væri þörf á frekari greiningum á áhrifum frumvarpsins á ólíka hópa, sjá nánar í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvaða greiningar á eigendum einkaleyfisumsókna, umboðsmönnum þeirra og öðrum hagsmunaaðilum liggja til grundvallar þeirri staðhæfingu í greinargerð með frumvarpinu á þskj. 394 að frumvarpið geri hvorki greinarmun á kyni né hafi neikvæð áhrif á stöðu kynjanna?
Við mat á áhrifum frumvarpsins var samráð haft við Einkaleyfastofu en þar eru til upplýsingar um eigendur skráðra einkaleyfa og umboðsmenn þeirra. Ennfremur var horft til þess að frumvarpið fjallaði einkum um að heimila framlengingu svokallaðra viðbótarvottorða við einkaleyfi og þá aðeins í tilfellum þar sem um er að ræða einkaleyfi fyrir lyf ætluð börnum. Fjöldi viðbótarvottorða á Íslandi er lítill og handhafar að mestu stór lyfjafyrirtæki. Þá var horft til þess að fyrirkomulag viðbótarvottorða byggir á almennum, ströngum reglum og felur í sér takmarkað svigrúm fyrir matskenndar ákvarðanir. Hins vegar má almennt velta fyrir sér aðgengi að einkaleyfakerfinu í lyfjaiðnaði út frá jafnréttissjónmiðum en slík greining hefði farið út fyrir efni frumvarpsins. Af þessum ástæðum og með vísan til svars við spurningu 1 var ekki unnin frekari greining á áhrifum frumvarpsins á einstaklinga.

     4.      Telur ráðherra fullyrðingar um tilgang frumvarpa vera nægjanlegan grundvöll jafnréttismats, fremur en mat og greining á áhrifum þeirra, sbr. fullyrðingu í greinargerð með frumvarpinu á þskj. 694 að því sé „ekki ætlað að hafa sérstök áhrif á eitt kyn umfram önnur“?
    Í 1. gr. frumvarps á þskj. 694 á 148. löggjafarþingi kemur fram að markmið þess sé að tryggja neytendavernd við kynningu, gerð og efndir samninga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Frumvarpinu var ekki beint með ólíkum hætti að mismunandi hópum fólks og ná áhrif þess með sama hætti til allra hagaðila, óháð kyni. Þar af leiðandi var ákveðið að ekki væri þörf á frekari greiningum á áhrifum frumvarpsins á ólíka hópa, sjá nánar í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.