Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 479  —  285. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Maríu Hjálmarsdóttur um gististaði.


     1.      Er ráðherra sammála því að samkeppnisstaða þeirra sem hafa leyfi til að reka gististaði og borga öll tilskilin gjöld sé ósanngjörn í samkeppni við t.d. þá sem bjóða heimagistingu og svokölluð 90 daga regla gildir um? Ef svo er, hyggst ráðherra beita sér fyrir jafnari samkeppnisskilyrðum á þessum markaði?
    Undanfarin ár hefur deilihagkerfi rutt sér til rúms á Íslandi eins og í öðrum löndum. Með því hefur skapast nýr veruleiki sem stjórnvöld hafa brugðist við að hluta með lögum nr. 67/2016. Með þeim var heimagisting gerð skráningarskyld og henni sett mörk, sem fela í sér að einstaklingur megi ekki leigja út heimili sitt eða aðra fasteign sem hann hefur til umráða í meira en 90 daga á ári og ekki fyrir meira en sem nemur 2 millj. kr. á sama tíma. Ætlunin er að ná heimagistingunni upp á yfirborðið þannig að vitað sé hvar hún fer fram og að henni verði haldið innan skilgreindra marka. Telur ráðuneytið að heppilegra sé að heimagisting sé uppi á borðum en ekki rekin í neðanjarðarhagkerfi. Tekjur af heimagistingu eru enda skattskyldar.
    Ekki eru allir á eitt sáttir um fyrrgreind viðmið. Þannig hafa gististaðir á landsbyggðinni sérstaklega talið þau þrengja að starfsemi sinni, en ferðamannatímabilið er óneitanlega styttra þar en á suðvesturhorni landsins. Ferðamálaráð lagði til í tillögum til ráðherra sumarið 2017 að sveitarfélögum yrði selt ákveðið sjálfdæmi um þann dagafjölda sem heimagisting væri heimiluð á viðkomandi svæði, en fram komu athugasemdir um að með því væri verið að framselja skattlagningarvald með ólögmætum hætti og sú leið reyndist við nánari athugun einnig ófær vegna flækjustigs í eftirliti.
    Ráðuneytið leitar stöðugt leiða til að jafna samkeppnisskilyrði aðila á markaði og hefur m.a. gert það að því er snertir gistingu með því að setja á fót svokallaða heimagistingarvakt sem nánar verður vikið að í 2. tölul. fyrirspurnarinnar Þá er fyrirkomulag mögulegs gistináttagjalds heimagistingar í skoðun hjá stjórnvöldum.

     2.      Hyggst ráðherra auka eftirlit með leyfislausum gististöðum á landsbyggðinni og ef svo er, þá hvernig?
    Samkvæmt lögum nr. 67/2016 fer sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu með eftirlit með skráningarskyldri heimagistingu á landinu. Þrátt fyrir að heimagisting hafi orðið skráningarskyld frá og með 1. janúar 2017 fóru skráningar hægt af stað. Því ákvað ráðherra sumarið 2018 að setja 64 millj. kr. í árslangt átak, svokallaða heimagistingarvakt, til að efla eftirlit með bæði skráningarskyldri heimagistingu og rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi á landsvísu. Frá því að samningur um eflingu heimagistingarvaktar var undirritaður í sumar hefur lögregla stöðvað starfsemi þriggja rekstrarleyfisskyldra gististaða á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur heimagistingarvakt óskað eftir lögreglurannsókn og eftir atvikum lokun á átta rekstrarleyfisskyldum gististöðum utan höfuðborgarsvæðisins. Sýslumaður hóf útgáfu sekta samkvæmt samningi við ráðuneytið um miðjan september í haust. Hinn 7. nóvember nam heildarupphæð fyrirhugaðra og álagðra stjórnvaldssekta 39.560.000 kr. vegna brota á skráningarskyldu. Þá hefur orðið 80% fjölgun á skráðum heimagistingum það sem af er ári 2018, ef miðað er við upplýsingar frá sýslumanni fyrir árið 2017.
    Þá verður á næstunni lagt fram frumvarp sem færir heimildir til beitingar viðurlaga vegna brota á reglum um rekstrarleyfisskylda gististarfsemi frá lögreglu til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Formlegt eftirlit verður eftir sem áður hjá lögreglu. Það að færa beitingu viðurlaga, í formi stjórnvaldssekta, til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu leiðir til samræmingar á málsmeðferð og til einföldunar og aukinnar skilvirkni í málum sem varða ólögmæta gististarfsemi. Markmiðið er eftir sem áður að fækka lögbrotum, en hingað til hafa brot á reglum um rekstrarleyfisskylda gististarfsemi í atvinnuskyni sjaldnast leitt til útgáfu ákæru. Má það að hluta rekja til þess að lögregla þarf að forgangsraða verkefnum, m.a. með tilliti til alvarleika afbrota og öryggis- og löggæslusjónarmiða.