Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 480  —  223. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Snæbirni Brynjarssyni um skráningu vímuefnabrota á sakaskrá.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margir einstaklingar hafa síðan núverandi ríkisstjórn tók til starfa fengið skráð mál í sakaskrá vegna brota þeirra gegn lögum um ávana- og fíkniefni þegar haldlagt magn efna er innan við það sem talist gæti neysluskammtur?

    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara og er svarið unnið í samráði við embættið.
    Fyrirmæli ríkissaksóknara nr. 3/2017 um brot sem ljúka má með lögreglustjórasekt kveða á um sektarfjárhæðir fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni. Þar segir m.a. að grunnsekt sé 50.000 kr. og nær sektarheimildin til kannabiss (maríjúana, hass og hassolíu, kannabisplantna), amfetamíns, LSD (lýsergíðs), MDMA og skyldra efna („ecstasy“) og kókaíns. Það fer eftir tegund efnis og magni hver heildarsektarfjárhæðin er. Þegar um kannabis er að ræða bætast t.d. 4.000 kr. fyrir hvert gramm eða hluta af grammi við grunnsektina og þegar um kókaín er að ræða bætast 25.000 kr. við fyrir hvert gramm eða hluta af því magni við grunnsektina.
    Hinn 1. maí sl. tóku í gildi breytingar á reglum nr. 680/2009 um sakaskrá ríkisins og þær fela m.a. sér að frá þeim tíma gilda sömu reglur um skráningu fíkniefnabrota á sakaskrá eins og önnur sérrefsilög, að frátöldum umferðarlögum, þ.e. að brot skráist ekki nema sektarfjárhæðin sé hærri en 100.000 kr.
    Tekið skal fram að neysluskammtur er ekki skilgreindur í lögum en talin voru öll brot gegn lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, þar sem sektin var á bilinu 50.000–75.000 kr., sem skráð voru í sakaskrá á tímabilinu 30. nóvember 2017 – 1. maí 2018. Niðurstaðan var sú að á tímabilinu var 101 brot gegn lögum um ávana og fíkniefni skráð í sakaskrá þar sem sektarfjárhæðin nam 50.000–75.000 kr. Hvorki var skoðað sérstaklega hvort fjöldi sakborninga væri sá sami og fjöldi brota né heldur um hvers konar fíkniefni var um að ræða. Ekkert þessara brota hefði verið skráð í sakaskrá eftir breytinguna 1. maí 2018 á reglunum.